Ítalski flugmaðurinn Italo Balbo var allt það sem Mussolini langaði til að vera: myndarlegur, áberandi og alþjóðahetja. Árið 1933 stýrði þessi skeggjaði kappi heimsfrægu flugi tuttugu ig fjöggurra tveggja flotskrokka sjóflugvéla 20.000 km leið á heimssýninguna í Chicago og aftur til Ítalíu. (Hann kom meðal annars við í Reykjavík.) Þegar hann lenti á Michiganvatni, fögnuðu honum 100.000 aðdáendur,sem margir veifuðu hvítrauðgrænum fána Ítalíu. Í New York hélt John P. O'Brien borgarstjóri skrúðgöngu honum til heiðurs og taldi að hans yrði framvegis getið í sömu andrá og Kóllumbusar og Marconis. Og í Washington snæddi hann hádegisverð með Roosevelt forseta. Heimsfrægðin sem sigurförin um Atlantshaf aflaði Balbo var dýru verði keypt. Mussuolini öfundaðist við hann og lagði í laumi hættulega fæð á hann. Við heimkomuna kyssti hann Balbo opinberlega á vangann og nældi á hann fyrstan manna gullarnarmerki ítalsks flugmarskálks, en þremur mánuðum síðar var flugkappinn horfinn úr landi og orðinn nýlendustjóri í Libýu. Fyrir mann sem naut annarrar eins frægðar og vinsælda og Balbo var þetta smán og hálfgildings útlegð, en hann tók því með stillingu. ,,Ég hlýði skipunum. Ég er hermaður.“ Þótt Balbo væri eldheitur fasisti - hann var stofnfélagi og var sagður hafa fundið upp nýjar aðferðir til að pynta andfasista - var hann ekki eins hrifin af styrjöldinni og yfirmaður hans. Mótbárur hans urðu eflaust til að ergja Mussolini. Þegar Mussolini hallaðist að bandalagi við Hitler, sagði Balbo: ,,Þér eruð að skríða fyrir Þjóðverjum.” Hann var sannfærður um að her Ítala í Libýu stæði herafla Breta í Egyptalandi ekki á sporði. En hann lifði ekki að sjá skoðun sína sannast. Á flugi yfir Tobruk 28.jæuní 1940 ö aðeins 18 dögum eftir að Ítalir sögðu Bretum stríð á hendur - var hann skotinn niður af eigin loftvarnarliði, sem hélt víst að þarna væri óvinaflugvél á ferð. (Bresk vél flaug seinna inn yfir borgina, en aðeins til að varpa niður samúðarkveðju frá yfirmanni breska flughersins í Mið-Austurlöndum, Sir Arthur Longmore.) Grunur lék á að kki hefði verið um slys að ræða, heldur hefði Mussolini í afbrýði sinni lagt á ráðin um dráp Balbos.
Heimildir: Bækurnar um Seinni heimsstyrjöldina 1939-1945, aðalega Eyðimerkurstríðið.