Gamlar götur við Elliðaár
Eftir Örn H. Bjarnason
Flest alvarleg skakkaföll í lífi fólks byrja í hreinu sakleysi og svo var einnig um mig og mina hrösun. Nánast fyrir tilviljun villtist ég inn á refilstigu örnefnagrúsks. Síðan hef ég varla litið glaðan dag.
Þetta atvikaðist þannig, að fyrir rúmum þremur árum álpaðist ég upp á Árbæjarsafn. Þar hitti ég að máli Helga M. Sigurðsson sagnfræðing, en hann hefur í samvinnu við Árna Hjartarson og Reyni Vilhjálmsson skrifað bók um Elliðaárdalinn. Þessi bók var gefin út af Máli og mynd árið 1998 undir ritstjórn Helga. Hún heitir Elliðaárdalur; land og saga.
Þarna á Árbæjarsafninu sýndi Helgi mér uppdrátt af Elliðaánum teiknaður af Sigurði Guðmundssyni málara eftir mælingum H. Guðmundssonar. Þessi uppdráttur er frá árinu 1869 og gerður út af deilu, sem reis vegna veiðiréttinda í ánum og laxakistum. Á þennan uppdrátt eru m.a. teiknaðar gamlar götur, sem lágu nánast í beinu framhaldi af því, sem nú er Bústaðavegurinn, fyrst yfir vestari álinn á Ártúnsvaði. Þaðan fyrir sunnan Ártún og í Reiðskarð, en það er fyrir austan Ártún og liggur þar nú stígur upp.
Í allmörg ár hef ég verið að ríða út á þessum slóðum án þess að hugsa út í, að rétt við nefið á mér lá gamla þjóðleiðin til og frá Reykjavík og út á Álftanes.
Þarna hefur Ketilbjörn gamli landnámsmaður farið, en frá honum segir í Landnámu og mun Elliðaárdalurinn heita eftir skipi hans Elliða.
Eiríkur frá Brúnum fór þarna þegar hann bjó í Ártúni frá 1879-1881, en lífshlaup þessa kotbónda austan undan Eyjafjöllum var harla óvenjulegt. Frá því segir nánar í bókinni um Elliðaárdalinn.
Jónas Hallgrímsson fór þarna árið 1823, þegar hann kvaddi æskustöðvar sínar í Öxnadal og hélt í Bessastaðaskóla. Síðan aftur árið 1828 á leið norður í fylgd með hinni 16 ára gömlu prestsdóttur frá Laufási er þau urðu samferða yfir öræfin.
Þarna fóru þeir líka Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson, en þeir dvöldu í Viðey hjá Skúla fógeta og unnu þar að ferðabók sinni. Sömuleiðis Sveinn Pálsson læknir í Vík í Mýrdal, sá gagnmerki náttúruskoðari, en hann fór sínar rannsóknarferðir á árunum 1791-1797. Að ógleymdum Skúla Magnússyni fógeta, sem var frumkvöðull að stofnun Innréttinganna árið 1751, en í tengslum við þær var þófaramyllan og Litunarhúsið reist við eystri ál Elliðaánna rétt hjá Ártúnsvaði. Ég hafði verið staddur á sagnaslóð.
Vitað er að Hannes Hafstein var staddur í Ártúni árið 1884 og þáði þar “mjólkur-toddý.”
Margir erlendir landkönnuðir höfðu farið þarna um: Henry Holland árið 1810. William Morris árið 1871. Kristian Kålund á seinni hluta nítjándu aldar og fleiri. Og svo Björn Gunnlaugsson, spekingurinn með barnshjartað, einhvern tímann í kringum 1840, þegar hann fór að mæla landið, en kort byggt á þeim mælingum kom út árið 1844.
Seinna riðu þeir þarna Jón Þorláksson, bæjarverkfræðingur í Reykjavík og síðar forsætisráðherra og Guðmundur Björnsson landlæknir, þegar þeir voru að huga að vatnsveitu ofan úr Gvendarbrunnum upp úr síðustu aldamótum.
Lengi hafði ég talið að vaðið rétt fyrir ofan Búrfoss, þ.e. á vestari ál Elliðaánna, héti Álftnesingavað, en vaðið á eystri álnum Ártúnsvað. En hvar lá gatan þarna á milli? Hér kemur uppdráttur Sigurðar Guðmundssonar til skjalanna. Hún sýnir þessa götu af mikilli nákvæmni.
Ég fór nú á Borgarskjalasafnið og fékk þar ljósrit af uppdrætti Sigurðar. Með það í höndum þræddi ég svo einn góðviðrisdag götuna á hestbaki alveg eins og uppdrátturinn sýndi, en nákvæmlega hvar þessi gata lá hefur lengi vafist fyrir mönnum að sýna fram á. Á einni dagstund gerði ég það að gamin mínu að leysa þessa ráðgátu.
Því er þannig farið að af hestbaki sést allvel hvernig landið liggur. Þaðan er annað sjónarhorn en hjá gangandi manni. Ég merkti nú götuna með gosdósum og pappableðlum, sem ég týndi upp á leið minni. Þetta taldi ég ágætt dagsverk og steðjaði upp á Árbæjarsafn að segja frá afreki mínu. Ég hafði einn míns liðs fundið ævaforna þjóðleið, hluta af Via Appia Reykjavíkur.
Af hvatvísi hins áhugasama sagnfræðings fór Helgi undir eins með mér og tók ljósmyndir af hinni ógreinilegu slóð. Hvað mig varðaði taldi ég málinu lokið og fór að sinna öðru.
Síðan fóru að koma upp ýmis álitamál. Leiðin sem ég hafði bent á lá t.d. rakleitt í gegnum þófaramylluna, sem Skúli fógeti hafði látið reisa skömmu eftir 1751. Menn fóru að efast. Sagnfræðingar eru ekki tiltakanlega trúgjarnir. Menntun þeirra og upplag hnígur meira í þá átt að vefengja. Það sem ég hafði talið klappað og klárt var bara alls ekki á hreinu. Ég hafði tekið nokkuð stórt upp í mig og verið fullyrðingarsamur. Þessar fullyrðingar yrði ég auðvitað að rökstyðja.
Út í hvað var ég eiginlega kominn? Hugsunin um þetta sótti æ fastar á mig. Og hvar var t.d. Álftnesingavað? Var það raunverulega fyrir ofan Búrfoss eins og ég hafði talið. Óljóst hugboð sagði mér, að kannski hefði það verið ofar. Þetta byggði ég á því úr hvaða átt Álftnesingar komu, nefnilega yfir Kópavogslæk og fyrir austan bæinn Digranes og síðan í Blesugróf. Ég trúði Helga fyrir þessum grun mínum, en dró það svo til baka. Ég var ekki viss.
Nú hófst þrautaganga. Ég fór í Þjóðarbókhlöðuna að leita gagna og í Örnefnastofnun. Ég fór í Landmælingar Íslands að skoða gömul herforingjaráðskort og loftmyndir. Ég leitaði til Vegagerðar ríkisins ef ske kynni, að þar væri einhverjar upplýsingar að fá og Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Vatnsveitu Reykjavíkur. Gögn hrúguðust upp hjá mér, gamlar teikningar, örnefnalýsingar, gömul landabréf, heimildir úr Stjórnartíðindum frá því fyrir aldamót, ljósrit af myndum í vörslu Ljósmyndasafns Reykjavíkur og upplýsingar úr landamerkjabókum. Heima hjá mér sköpuðust þrengsli og ég neyddist til að henda gömlu drasli til að fá pláss fyrir þessi nýju gögn. Árin sem ég hafði verið að ríða út þarna í Elliðaárdalnum í villuværð notalegrar fáfræði voru að baki. Ég var dottinn í grúsk.
Upplýsingar stönguðust á. Einn sagði þetta annar hitt. Guðlaugur R. Guðmundsson, vandvirkur örnefnamaður, taldi Álftnesingavað vera þar sem ég hafði lengi haldið það vera.
En hvað með þetta blessaða hugboð, sem hafði svo oft leitt mig á rétta braut, þegar skynsemi þraut? Hvers vegna skyldi t.d. vað, sem var sameiginlegt fyrir Reykvíkinga, Seltirninga og Álftnesinga heita Álftnesingavað. Hvers vegna hét það ekki alveg eins Seltirningavað eða Reykvíkingavað? Nei, Álftnesingavað hlaut að vera sjálfstætt vað, sem var var fyrst og fremst notað af þeim sem komu sunnan af Álftanesi eða úr þeirri átt.
En eitt er hugboð og annað að finna því stað í veruleikanum. Það var þrautin þyngri. Fyrir tilviljun rakst ég svo á landamerkjalýsingu bæjarins Breiðholts úti í Örnefnastofnun. Hún er frá árinu 1890. Í henni segir að landamerki hafi verið: “Úr Blesugróf við Álpnesingavað í þúfu á melnum þar fyrir ofan o.s.frv.” Þarna stóð það svart á hvítu. Álftnesingavað var hjá Blesugróf. Eins var mér sýnd teikning hjá Vatnsveitu Reykjavíkur með nákvæmum hæðarlínum. Á henni sést greinilega hvar Blesugróf var. Þessi teikning er frá árinu 1947 og sýnir hæðarlínur þarna áður en jarðrask átti sér stað.
Í bókinni Landið þitt Ísland er nafnið Blesugróf hins vegar notað um byggð, sem myndaðist nálægt vestari bakka Elliðaánna á móts við Elliðárstöðina eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Þarna er því um yfirfærða merkingu að ræða.
Á uppdrætti Sigurðar Guðmundssonar frá 1869 er Blesugróf teiknuð inn á. Þar er Blesugróf á skýrt afmörkuðum stað, en gróf mun þýða gil. Þetta gil er hægt að staðsetja alveg nákvæmlega. Samkvæmt landmerkjalýsingunni yfir Breiðholt frá 1890 er Álftnesingavað sagt skammt frá þessu gili. Álftnesingar höfðu með öðrum orðum komið niður hjá “Blesugili” eða Blesugróf og farið þar yfir vestari álinn, en síðan skáhallt yfir á Ártúnsvað eða kannski Kúavað, sem er aðeins ofar og þaðan upp í Reiðskarð.
Árið 1662 sóru Íslendingar Friðriki 3. Danakonungi einveldi á meðan vopnaðir hermenn stóðu yfir þeim. Þetta gerðist á Kópavogsþingi. Margir sem þetta þing sóttu hafa sjálfsagt farið yfir Elliðaárnar fyrst á Ártúnsvaði og síðan á Álftnesingavaði og þaðan upp hjá Blesugróf og svo áfram fyrir austan Digranes og meðfram Kópavogslæknum á þingstað.
Eitt hef ég lært á þessu brambolti mínu og það er að vera ögn varkárari, spara fullyrðingarnar. Ég ætla því hér að slá varnagla. Álftnesingavað er að mínu áliti á vestari ál Elliðaánna, sennilega nálægt þar sem gilið Blesugróf er. Nákvæmlega hvar treysti ég mér ekki til að segja. Í því efni varpa ég boltanum yfir til fræðimanna og annarra sem kunna að búa yfir vitneskju um þetta. Ekki væri t.d. ónýtt ef til væru gamlar ljósmyndir teknar á þessum slóðum.
Hvað varðar gömlu götuna, sem lá yfir á Ártúnsvað þá er hún þarna. Hún liggur lítið eitt til vinstri handar ef farið er yfir vaðið fyrir ofan Búrfoss og svo sveigir hún til hægri og liggur að Ártúnsvaði.
Ég tel mig sjá götuna eins og Sigurður Guðmundsson teiknaði hana árið 1869. Í því felst engin mótsögn að segja, að gatan hafi árið 1869 legið þar sem þófaramyllan stóð kannski eitthvað fram yfir aldamótin 1800, en Innréttingarnar lögðust niður árið 1800.
Þessar götur sem eru þarna í beinu framhaldi af Bústaðaveginum eru örugglega ævafornar, enda hefur þófaramyllan á sínum tíma verið reist um þjóðbraut þvera svo að auðvelt væri að komast til og frá henni.
Fleiri gamlar götur tel ég mig hafa séð á þessum slóðum m.a. í Reiðskarðinu og brekkurótinni í Ártúnsbrekku. Erfitt getur reynst að sýna fram á, hvort þar eru leifar af vegi eftir Bretana eða hvort það eru eldri götur.
Árið 1883 voru smíðaðar tvær brýr yfir Elliðaárnar. Þá strax var lagður vegur að brúnum að vestanverðu, en ekki frá þeim fyrr en 1895 eða 1896 og þá uppi á brúninni á Ártúnsbrekku. Fram að því held ég að hafi verið farið í brekkurótinni og svo upp Reiðskarðið. Raunar held ég að þar séu fornar götur.
Ég sé það þannig fyrir mér, að einmitt þessar götur hafi Ólöf ríka Loftsdóttir farið árið 1464 en í bréfi er sagt frá því, að þá hafi hún verið stödd í Árbæ í fylgd ábótans í Viðey. Kannski hafa þau tekið land við Köllunarklett hjá Viðeyjarsundi og síðan farið ríðandi svonefndar Biskupsgötur meðfram Elliðavogi. Svo hafa þau farið yfir Elliðaárnar á neðstu vöðum og þaðan neðarlega í Ártúnsbrekku og upp Reiðskarðið og úr Reiðskarðinu að Árbæ. Í þessu bréfi er Árbæjar raunar fyrst getið í heimildum.
Í munnmælum er þess getið að Hallgerður langbrók hafi eytt ævikvöldi sínu í Laugarnesi samanber örnefnið Hallgerðarleiði. Hafi svo verið hefur hún sennilega farið um Reiðskarð þegar hún kom austan úr Fljótshlíð.
Eins og segir í Söknuði Jóhanns Jónssonar: “Gildir ei einu um hið liðna hvort grófu það ár eða aldir?” Sumum finnst það, öðrum ekki. Vitaskuld verðum við að lifa lífinu fram á við og við eigum að nota jarðýturnar til að ryðja komandi kynslóðum braut, en við megum ekki fara með þær yfir merkar minjar, þar með taldar gamlar götur. Þaðan hvísla ógreinileg hófför hálf gleymdar sögur í eyru okkar ef við aðeins dokum við og hlustum.
Sá dagur kemur vonandi seint, að við gleymum Hallgerði langbrók og götunni sem hún fór út í Laugarnes eftir að hafa lifað þrjú niðurrifshjónabönd. Kannski skvetti lax sér fyrir neðan Sjávarfoss þegar hún reið hjá, en skyldu sporðaköstin hafa náð að kæta hennar stríðu lund?
Og skammt frá gömlu leiðinni yfir á Ártúnsvað er Skötufoss og þar fyrir ofan Drekkjarhylur. Þar var árið 1696 drekkt ógæfusamri konu ofan úr Brynjudal í Kjós fyrir að bera út barnið sitt í þeirri örvilnan sem umkomuleysi getur haft í för með sér. Og hjá Skötufossi lamdi Sigurður Arason, 26 ára gamall frá Árbæ, Sæmund Þórarinsson, sem bjó á móts við hann að Árbæ og var 41 árs gamall, í hausinn og hratt honum síðan fram í hylinn. Frá þessu segir nánar í bókinni um Elliðaárdalinn.
Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, en vil benda á það sem raunar er alkunna að Elliðaárdalurinn er ein af perlum Reykjavíkur. Sá sem þangað leitar hvort heldur er á vetri eða sumri verður ekki fyrir vonbrigðum og ekki spillir að fara þar um undir handleiðslu þeirra þremenninganna. Þeim hefur tekist að semja athyglisverða bók.
Ég er ekki ritdómari en vil fullyrða, að enginn versnar við að lesa þessa bók. Það er auðséð að á bak við hana liggur mikil vinna. Eftir lesturinn var eins og dalurinn lifnaði allur fyrir hugskotssjónum mínum. Mannlífið á þessu stórbrotna sviði hefur verið ótrúlega fjölbreytt í gegnum aldirnar.
Það er svo með sérhvern leik, að eftir því sem við kunnum betur skil á honum þeim mun skemmtilegri verður hann. Svo er einnig um t.d. gönguferðir. Þeim mun meira sem við vitum um það svæði sem við förum um, því ánægjulegri verður gangan.