Gullæði grípur Íslendinga
I. HLUTI. Gullæði hið fyrra
—————————
Árið 1905 var ævintýralegt í sögu Reykjavíkur. Við borun eftir vatni í Vatnsmýrinni, kom upp eitthvað sem glampaði á og maður að nafni Hannes Hansson sem hafði orðið svo frægur að taka þátt í gullævintýrinu í Klondike nokkrum árum áður, fullyrti að um gull væri að ræða. Dagblöðin birtu þegar æsifréttir um málið, æði rann á fólk og lóðir stigu undrahratt í verði. Reykvíkinar sáu fram á að þeir gætu orðið forríkir á skömmum tíma rétt einsog gullgrafarar í útlöndum. Gullæði greip um sig og allt fór á ferð og flug. Bæjarstjórn Reykjavíkur skipaði námanefnd og nokkrir af betri borgurum í bænum stofnuðu hlutafélagið Málm, sem fékk einkaleyfi á gullgreftri í bæjarlandinu.

Auglýsing sem birtist í blaðinu Ísafold þann 6. janúar 1906 hljóðaði þannig:
“Meira gull! Vantar yður peninga? Ef þessi spurning væri lögð fyrir íslendinga og hver einstaklingur ætti að gefa ákveðið svar, mundu eflaust margir svara henni játandi. Margir þarnast gulls. En aldrei frá því þetta land byggðist hefir mönnum boðist hér jafnheillavænlegt tækifæri til að verða aðnjótandi gullsins, sem einmitt nú, þar sem fullsannað er, að gull og aðrir dýrir málmar eru hér í jörðu, og gullnámugröftur er þegar byrjarður. Sérstaklega er Reykvíkingum bent á tækifærið. Það getur orðið ómetanlegur hagnaður, að kaupa nú hús og lóðir hér í bænum inn á sjálfu gullnámusvæðinu. Hjá mér undirrituðum ættu menn því að keppast um að festa kaup á húsum og lóðum, og helst um leið að gerast hluthafar í námufélaginu Málmi. Ég tjái mig fúsann að veita leiðbeningar í því er að húsagerð lítur, og tek að mér að byggja hús. Reynið að eiga tal við mig. Mig er að hitta á heimili mínu, Laugavegi 38, kl. 9-10 árdegis og 8-10 síðdegis. Virðingarfyllst, Guðm. Egilsson trésmiður.”

Þetta reyndist þó skammvinn gleði, því ekkert fannst gullið og sú saga gekk fjöllum hærra að Hannes Hansson hefði verið að spauga með Reykvíkinga. Hann átti sjálfur að hafa komið fyrir gullkornum á bornum. Hlutafélagið Málmur gafst þó ekki upp og starfaði allt til ársins 1910, en varð þá gjaldþrota.

II. HLUTI. Gullæði hið seinna
——————————
Árið 1999 var ævintýralegt í sögu Íslands. Hafin var sala á hlutabréfum í fyrirtækinu Íslensk erfðagreining. Maður að nafni Kári Stefánsson sem hafði orðið frægur vegna vísindastarfa í Ameríku fullyrti að fyrirtækið ætti mikla framtíð fyrir sér. Fjölmiðlar birtu æsifréttir um málið. Æði rann á fólk og hlutabréfin stigu undrahratt í verði. Íslendingar sáu fram á að þeir gætu orðið forríkir á skömmum tíma rétt einsog verðbréfabraskarar í útlöndum. Gullæði greip um sig og allt fór á ferð og flug. Félagið fékk einkaleyfi á aðgangi að miðlægum gagnagrunni sjúkraskráa landsmanna …


Ein staðreynd að lokum: Sá sem keypti hlutabréf í Decode þegar gengið var 65 fyrir tvær milljónir, á 60 þúsund krónur í dag, tapið er 1.940.000 fyrir utan fjármagnskostnað.