Þetta er ritgerð sem ég gerði fyrir ári síðan í sögu 303 í fjölbrautarskóla. Við horfðum á myndina Under Fire, með Nick Nolte, sem fjallaði um atburðinn í Nicaragua.
Segið mér síðan hvað ykkur finnst um ritgerðina, og skoðanir ykkar á atburðinum….

16. júlí 1979 lauk borgarastríðinu í Nicaragua þegar Anastasio Somoza Debayle, forseti landsins, flúði þaðan til fyrrverandi stuðningsmanna sinna í Bandaríkjunum. En Bandaríkjastjórn hafði hins vegar tekið upp gagnrýna afstöðu gegn Somoza eftir að síga tók á ógæfuhlið fyrir honum í átökunum við Sandínista. Bíómyndin Under Fire lýsir þeim atburði mjög vel og mun ég fjalla betur um hana hér á eftir. Somoza hafði háð þessa blóðugu styrjöld gegn frelsissamtökum Sandínista í hálft annað ár, eftir fjöldamorð og ólýsanleg hryðjuverk gegn þjóðinni.

Fjölskyldueinræði Somozaættarinnar hafði verið við lýði frá því á fjórða tug síðustu aldar eða í 43 ár þegar Somoza flúði, en baráttan fyrir framtíð Nicaragua var rétt að byrja. Með áformum um Panamaskurðinn, í byrjun 20. aldar, jókst mikilvægi Nicaragua fyrir Bandaríkjunum. Samningur var gerður milli Nicaragua og Bandaríkjanna árið 1911 og gaf Bandaríkjunum einkaréttindi til afskipta þar. Í staðinn mundu Bandaríkin aðstoða Nicaragua fjárhagslega og endurskipuleggja fjárhag þeirra. Árið 1914 lauk svo greftri Panamaskurðarins og var svæði meðfram skurðinum sett undir hervernd Bandaríkjanna. Bandaríkjamenn sendu marga hermenn til Nicaragua með beiðni frá forseta landsins, Adolfo Diaz, sem var studdur af Bandaríkjunum. Það leit út fyrir að þeir færu í því skyni að vernda amerískar eignir og íbúa. Hermennirnir voru í Nicaragua til 1933 og á þessu tímabili var landið undir yfirráðum Bandaríkjamanna. En á árunum 1927 til 1933 hófu skæruliðar, undir stjórn uppreisnarmannsins Augusto Cesar Sandino, árás gegn Þjóðvarðliði Anastasio Somoza Garcia hershöfðingja. Bandarískir hermenn sáu um að þjálfa Þjóðvarðliðana. Sandino barðist gegn ríkisstjórn Adolfo Diaz vegna þess að hann vildi losa Nicaragua-búa við ameríska heimsvaldasinna. Sandino varð þjóðarhetja hjá mörgum íbúum Nicaragua á þessum árum og eru Sandínistar nefndir eftir honum. Þó svo að sósíalistar nefndu sig eftir honum má gjarnan benda á það að Sandino var þjóðernissinni sem hallaðist að óljósri umbótarstefnu.

Þegar Bandaríkjamenn drógu heri sína til baka frá Nicaragua, samþykkti Sandino vopnahlé. Ári síðar 1934 var hann skotinn til bana. Mörg yfirvöld telja að Sandino hafi verið myrtur að undirlagi Somoza hershöfðingja, sem hrifsaði völdin af borgaralegu ríkisstjórninni árið 1936. Stjórn sonar hans, Somoza Debayle, var þekkt fyrir spillingu, en hann tók við af hálfbróður sínum árið 1966, og átti Somozaættin næstum 1/3 af öllu landi og réð yfir mestum fjárhag landsins.

Árið 1961 stofnuðu andstæðingar Somoza þjóðfrelsisfylkingu Sandínista eða FSLN (Frente Sandinista de Liberación Nacional) undir stjórn Carlos Fonseca Amador. Í byrjun voru helstu stuðningsmenn þessarar fylkingar ungt skólafólk. Fidel Castró aðstoðaði Sandínista fjárhagslega. Þeir aðhyltust Lenínisma og Marxisma. Þeir vildu lýðræðislegt stjórnarfar, aukna þáttöku fólks í ríkismálum og Kommúnískt efnahagskerfi, fullkomna skiptingu á ríkisarfi. Þessar þrjár hugmyndir mynda áhugaverða samblöndu. Þar sem Lenín og Stalín í Rússlandi höfðu aðallega einbeitt sér að skiptingu á efnahag, og gleymt reglum Marx um verkamenn. Þannig að Sandínistar voru mun hliðhollari kenningum Karl Marx en Sovétmenn.

Sandínistar reyndu ýmis hriðjuverk og skæruárásir, á 7. áratugnum, en það hafði litla þýðingu. Árið 1969 gekk mjög illa hjá Sandínistum og voru margir háttsettir menn þeirra drepnir eða handteknir. Fonseca sjálfur var einnig handtekinn og fengu Sandínistar hann ekki lausan fyrr en þeir rændu flugvél, og skiptu á gíslunum og honum árið 1970 . Það leit oft út fyrir að ógn frá Sandinistum hefði að mestu verið eytt, en þeir komu alltaf aftur.

Árið 1970 voru flestar valdastöður þjóðarinnar fullar af ættingjum Somoza, þau áttu alla fjölmiðla, voru bankastjórar, sendiherrar og ráðherrar. Fjölskyldan átti meira en helming landbúnaðarframleiðslu landsins og allar helstu verksmiðjur og fyrirtæki. Somoza hafði tekið opnum örmum á móti bandarískum fjárfestum og fyrirtækjum eins og t.d. General Mills.

Jarðskjálftinn árið 1972 gjöreyðilagði höfuðborgina Managua, og þar að auki breytti átökunum milli Sandínista og ríkisstjórnarinnar. Stuðningur viðskipta- og faglærðs fólks við Somoza minnkaði mikið þegar hann notaði alþjóðlega fjárhagshjálp til eigin nota í stað þess að byggja upp Managua eða til stuðnings þeim sem misst höfðu heimili sín.

Heppnaðar árásir Sandínista voru svaraðar með hörðum hefndaraðgerðum þjóðvarðliðanna. Verkföll, götumótmæli og skæruhernaður fengu Somoza til að fremja fjöldamorð á samverkamönnum og eyðileggja heilu landsvæðin úti á landinu sem voru griðarstaðir skæruliðanna. Mannréttindabrot Somoza urðu til þess að ríkisstjórn Carters, forseta Bandaríkjanna, minnkaði hernaðar- og fjárhagsstyrk til landsins árið 1977. Sex mánuðum síðar fékk hann aftur fullan styrk ef hann lofaði að hafa hemil á ódæðisverkum Þjóðvarðliðana. Þrátt fyrir loforð Somoza versnaði ástandið. Árið 1978 var Joaquin Chamorro, ritstjóri eins helsta fréttablaðs Sandínista og talsmaður stjórnarandstöðunnar, myrtur. Fór þá bylgja af mótmælum um landið og borgarastyrjöldin hófst. Margir nýir hópar slógust í lið með Sandínistum t.d. viðskipta- , verslunar- og kyrkjuhópar.

Sandínistar voru eina aflið sem gat barist á móti þjóðvarðliðunum. Og þótt að Sandínistar væru vinstri sinnaðir kom það ekki í veg fyrir vilja fólks að losna við Somoza. Margir fóru að hópast hjá FSLN þó þeir væru ekki Marxistar. Í byrjun ársins 1979 fengu Sandínistar fullan stuðning frá Kúpu, lýðveldunum Venezúela og Costa Ríca, og víða samúð um alla rómönsku Ameríku. Morð var framið á bandarískum stríðsfréttaritara, Bill Steward frá ABC, af Þjóðvarðliðinu og náðist á myndband sem kollegi hans tók upp. Somoza kenndi Sandinistum um morðið. Myndbandið sýndi Bandaríkjamönnum loksins hvernig ástandið var og í febrúar 1979 hættu Bandaríkjamenn öllum styrkjum til Somoza. Bíómyndin Under Fire fjallar einmitt sérstaklega um þetta.

Í júlí sama ár gerði alþýðan uppreisn og tókst að steypa einræðisherranum Somoza af stóli og hrekja Þjóðvarðliðið, einkaher hans, á brott. Sandinistaherinn hélt innreið sína í höfuðborgina, Managua, 19. júlí og þjóðfrelsisfylkingin FSLN tókst á hendur að mynda ríkisstjórn til varnar hagsmunum verkafólks og bænda. Tomás Borge ,einn stofnenda FSLN og seinna innanríkisráðherra Nicaragua, sagði eftirfarandi um sigurinn í einni ræðu sinni:

,,Sigurinn í júlí vannst vegna þess að alþýðan hafði barist árum saman gegn hernaðareinræði Somoza. Hann vannst vegna þess að byltingarsinnaður framvörður varð til Carlos Fonseca lagði grunninn að því og honum hefur réttilega verið fundinn staður meðal helgra manna, hetja og ódauðlegra”……………..,,Við treystum á vinnandi stéttir, á alþýðuna sem fæddist til að skapa söguna og er sérfræðingur í að stofna til nýrra sigra. Frjálst föðurland eða dauða!”

Styrjöldin hafði kostað um það bil 50.000 mannslíf og efnalegt tjón nam mörgum milljörðum dollara. Eftir brotthlaup Somoza útnefndi forseti þjóðarþingsins, Francisco Urcuyo, sjálfan sig sem forseta. Hann hugðist stjórna með tilstyrk herforingja, sem Somoza hafði tilnefnt. Urcuyo varð þó að láta í minni pokann og fylgja í fótspor fyrirrennara síns, þar sem jafnvel Bandaríkjastjórn vildi ekki veita honum stuðning. Þá tók við völdum fimm manna ráð til þjóðlegrar enduruppbyggingar Nicaragua. Fyrsta verk þess var að þjóðnýta eigur Somoza og koma á byltingardómstólum.

Hinir nýju valdhafar fóru þó tiltölulega mildum höndum um fyrrverandi andstæðinga sína. Það voru aðeins felldir fáir dauðadómar. Sterkasti maðurinn í nýju stjórninni var álitinn vera Tomás Borge en ásamt honum voru Daniel Ortega, Sergio Ramirez, Violeta Chamorro og Alfonso Rebelo. Tomás Borge var fyrir marga Nicaragua-búa orðinn eins konar tákn fyrir baráttuna gegn Somoza.



Bíómyndin Under Fire gerist árið 1979 í Nicaragua. Hún er að hluta til sannsöguleg og myndi flokkast í pólitísk-drama. Stríðsfréttaritarinn og ljósmyndarinn Russel Price (Nick Nolte) er staddur á suðupunkti í Mið- Ameríku ásamt kvennsu einni sem heitir Claire (Joanna Cassidy), en hún er kona besta vinar Russels, Alex Grazier (Gene Hackman), og verður til ástarþríhyrningur milli þeirra. Alex er ekki með þeim tveim því þau eru á ferð um Nicaragua að taka ljósmyndir af átökunum, og fara meðal annars til Managua, Leon, Masaya og Matagalpa. Alex er of upptekinn af sínum frægðarferli sem fréttamaður. Russel hittir kunningja sinn sem er bandarískur málaliði er heitir Oates (Ed Harris). Oates er í liði Þjóðvarðliða gegn Sandinistum. Til að byrja með eru Russel og Claire hvorki með Sandinistum né Þjóðvarðliðum í liði.

Þau eru að reyna að finna byltingarmanninn Rafael sem er skálduð persóna, en að mínu mati er hann blanda af Tomás Borge, Daniel Ortega og Joaquin Chamorro, vegna þess að í fyrsta lagi var Borge tákn fyrir baráttuna eins og Rafael á að vera í myndinni og í öðru lagi baráttumaðurinn Ortega en hann kom aðeins seinna inn í barátttuna og var aðallega að berjast gegn Contra-skæruliðunum sem CIA styrktu og þjálfuðu. En CIA voru sakaðir um að greiða stóran hluta stríðrekstrarins með vopnasölu í Íran, og sumir vilja meina að þeir hafi einnig selt kókaeín til að halda Contra-skæruliðunum gangandi til þess að steypa Sandinistum frá völdum (Íran-Contrahneykslið) . Í þriðja og síðasta lagi var Chamorro einnig þekkt andlit meðal Nicaragua-búa enda talsmaður andspyrnuhreyfingarinnar. En samkvæmt myndinni á Rafael að vera leiðtogi Sandinista. Þau Russel og Claire ætla að vera fyrstu fréttamennirnir sem taka viðtal við Rafael. Seinna komast þau að því að Rafael sé dauður. Sandinistar vilja að þau taki samt mynd af honum og reyni að láta hann líta út fyrir að vera lifandi. Þegar þau skerast meira inn í leikinn og sjá hvernig Somoza fer með þjóðina sína, fara þau að halda með Sandinistum og taka mynd af Rafael. Og hefur það miklar afleiðingar í för með sér.

Alex kemur til Nicaragua til að gera frétt um Rafael, en veit ekki að hann er dauður. Seinna segir Russel honum frá því. Alex verður svo skotinn af Þjóðvarðliðum viljandi og Russel nær myndum af því og sendir til Bandaríkjanna. Þessi atburður í myndinni er nokkurn vegin sá sami og þegar Bill Steward var skotinn og lýsir mjög vel því sem gerðist í raunveruleikanum. Myndin endar líka mjög svipað og í alvörunni.

Bíómyndin er amerísk og er sjónarhorn hennar það einnig. Myndin finnst mér einbeita sér of mikið að lífum Bandaríkjamannanna í stað lífum Sandinistana. Eins og að bandarísku karakterarnir séu mikilvægari en Nicaragua karakterarnir. Myndin er mjög góð en hún gleymir hverjir eru aðalpersónurnar, uppreisnarmennirnir og ríkisstjórnin. Eins og gamla konan segir í einu síðasta atriðinu þar sem hún er að tala við Claire eftir að Alex er dáinn: ,,50.000 Nicaragua-búar hafa látist, en það þurfti aðeins einn Bandaríkjamann til að sannfæra Bandaríkin um hið sanna eðli Somoza stjórnarinnar – við hefðum átt að drepa einn fyrir löngu”. (gamla konan í Under Fire)
Eitt fannst mér frekar leiðinlegt að maður fékk að vita meira um ástarþríhyrninginn heldur en um átökin og þó að baráttu Sandinista sé lýst frekar vel hefði alveg mátt sleppa ,,Hollywood” áhrifunum í myndinni. Svo finnst mér ekki koma fram í myndinni að þjáningar Sandinistana er að mörgu leiti Bandaríkjunum að kenna eins og náttúrulega stuðningur þeirra við Somoza. Bandaríkin er góði gæinn. Franski tækifærissinninn og njósnarinn Jazy segir í myndinni að einræði og kúgun er báðum megin á hægri-vinstri skalanum. ,,Ef hægri höndin nær þér ekki þá mun sú vinstri gera það”. (Jazy í Under Fire). Mér finnst mikið til í þessum orðum þó hann hafi verið miskunarlaus morðingi. Besta dæmið um einræði og kúgun hjá flokkum sem eru annars vegar lengst til vinstri og lengst til hægri eru kommúnismi til vinstri og nasismi til hægri. Annað sem vert er að nefna sem Frakkinn segir okkur er það að við munum aðeins vita sannleikann í Nicaragua eftir að 20 árum liðnum. Það sem hann meinti líklegast með þessum orðum er það að eins og í öllum stríðum og þar á meðal þessu þá ljúga allir, bæði vondu og góðu karlarnir.


Mér fannst myndin koma mjög nálægt sannleikanum í ýmsum atriðum t.d. flest sem tengist Somoza í myndinni er satt. Alex átti auðvitað að vera Bill Steward og það kom mjög nálægt sannleikanum. Ég veit ekki hvort ástarþríhyrningur sé sannleikurinn en ég stór efast um það – lang líklegast einhver Hollywood drama.

Sandinistar áttu svo eftir að berjast við hina grimmu Contra- skæruliða sem var ekki auðvelt. Þeir voru eins og áður var sagt stjórnaðir af CIA og Reagan forseti Bandaríkjanna fór huldu höfðu hvernig hann fjármagnaði þá. CIA gerir allt sem í hennar valdi stendur til að hindra að þáttur hennar í þessu máli komi fram í dagsljósið. Engum yfirmanna CIA hefur verið refsað. Uppljóstranir af þessu tagi koma sjaldan fyrir sjónir almennings.

Heimildaskrá:


Anderson, Thomas P. 1988. Politics in Central America. Praeger. New York

Gysling, Erich. 1980. Árið 1979. Bókaútgáfan Þjóðsaga. Reykjavík


Iran – Contra Affair.1987. U.S. House of Representatives. Union Calendar No. 277. Washington.

Ræður og Rit Sandinista. 1989. Byltingin í Nicaragua. Pathfinder. Reykjavík.

Schutz, Jorian Polis. 1998. The Impact of the Sandinistas on Nicaragua. Á netinu ; slóðin er: http://www.jorian.com/san.html

Sveen, Asle og Aastad, Svein A. 1994. Heimsbyggðin 2. Mál og Menning. Reykjavík.

(Höfund vantar) Á netinu; slóðin er: http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/stores/detail/-/vi deo/6303471641/reviews/002-3616154-5024014#630347164127 50

(Höfund vantar) CIA og kókaínið Á netinu; slóðin er: http://www.namsgagnastofnun.is/verdenrundt/4bolivia/3bo _oejeblik/bo_oeje_b2_cia.htm