Margarete Kleb.  Saga af sannri hetju Árið 1868 leitaði 46 ára tveggja barna einstæð móðir að nafni Margaret Kleb til læknis vegna mikils verks í kviðarholi. Læknirinn hennar greindi hana með kviðslit og sendi hana til skurðlæknis.

Skurðlæknirinn sem hún leitaði til, sá hins vegar að hún þjáðist af gríðarmiklu æxli á öðrum eggjastokknum. Hann reyndi að nema æxlið á brott en þegar hann opnaði kviðarholið, sá hann að æxlið var samgróið leginu og varð hann því að nema það líka á brott. Samgróningarnir náðu hins vegar einnig til vinstri þvagstokksins án þess að skurðlæknirinn tæki eftir því. Um leið og hann reif æxlið úr konunni, sleit hann úr henni mikinn hluta vinstri þvagstokksins án þess að veita því eftirtekt. Þvaggangurinn á milli vinstra nýra og blöðru eyðilagðist, og þar með hin eðlilega leið þvagsins. Skelfingu lostinn hafði skurðlæknirinn lokað ytra skurðsárinu og látið skeika að sköpuðu um örlög sjúklingins. Útrennslið úr vinstra nýra lá eftir það beint í kviðarholið.

Í rauninni var óskiljanlegt að Margarete skyldi lifa þetta af. Skurðsárið á kviðnum gréri ekki og hvort sem Margarete lá fyrir, sat eða stóð upprétt, þá rann þvagvökvinn úr vinstra nýranu út um sárið eða niður fæðingarveginn sem var opinn vegna þess að legið hafði verið fjarlægt. Þrátt fyrir þetta hafði Margarete neyðst til að vinna fyrir sér og börnum sínum með því að þvo þvotta fyrir aðra, auk þess þurfti hún að sjá um heimili sitt. Hún hafði háð ægilega baráttu gegn eymdinni. Hún var síblaut og kvefuð. Fékk oft hitaköst og uppsölur. Hún gat varla hreyft sig vegna gigtar og var þakin útbrotum vegna þvagsins og útferðarinnar sem stöðugt lak yfir líkama hennar. Hún var fyrirlitin af öllum, jafnvel börnunum sínum. Hún hafði neyðst til að flytja í skáp þar sem hún svaf á heyhrúgu. Á þessum tíma voru skurðlækningar mjög skammt á veg komnar, og fáir læknar treystu sér til að framkvæma aðgerð til að hjálpa Margarete. Árið 1869 frétti Margarete af skurðlækni að nafni Gustav Simon, sem hugsanlega gæti hjálpaða henni. Hann lýsti þeirra fyrstu kynnum þannig: [hún var] “tærð, haltrandi við staf, náföl, angandi í allar áttir af ýldu og rotnun, sem vakti viðbjóð. Hún var varla lík mennskri veru”.

Simon framkvæmdi fyrstu aðgerðina á Margarete með það í huga að loka sárinu á kviðarholinu og láta þvagið leka niður fæðingarveginn. Hann ætlaði síðan að mynda samband á milli efsta hluta fæðingarvegsins og blöðrunnar, loka síðan fæðingarveginum fyrir neðan þetta samband og búa svo um hnútana að rennsli úr nýrunum færi aftur með eðlilegum hætti gegnum þvagblöðruna. Þvagstokkurinn var ónýtur þannig að ekki var unnt að laga hann. Simon gerði tvær tilraunir til að loka sárinu en það opnaðist fljótlega aftur. Í þriðju aðgerðinni var stærra op fyrir þvagið búið til niður fæðingargöngin og Margarete síðan látin liggja í sex vikur, en jafn skjótt og hún hreyfði sig, rifnaði sárið upp. Fjórða aðgerðin mistókst einnig. Simon reyndi þá að stöðva starfsemi nýrans með því að brenna fyrir opið á þvagstokknum. Skömmu síðar fór Margarete að kvarta yfir óbærilegum kvölum í vinstra nýranu. Hún kastaði upp án afláts og lá í svitabaði. Hjartslátturinn varð yfir 140 slög á mínútu og hitinn varð 40°c. Eftir hálfan sólarhring brast stíflan sem brennd hafði verið fyrir og þvagið tók að renna sína fyrri leið. Nokkrum dögum síðar reyndi Simon aftur að brenna fyrir opið á þvagstokknum, en allt fór á sömu leið.

Þá var aðeins um eitt að ræða, að fjarlægja nýrað. Slíkt þótti hins vegar óhugsandi á þessum tíma, læknavísindin töldu ekki hægt að lifa með aðeins eitt nýra. Eftir að hafa æft sig í nýrnatöku á hundum og líkum, fjarlægði Simon nýrað úr Margarete. Aðgerðin tókst vel þrátt fyrir miklar blæðingar.

Þegar Margarete vaknaði eftir aðgerðina, kastaði hún nær látlaust upp í fimm sólarhringa. Henni var gefið ísvatn, kaffi og kampavín sem í dag þætti beinlínis lífshættulegt fyrir nýrnaveikan sjúkling. Mikil útferð var úr skurðsárinu. Kviðurinn var hins vegar ekki þaninn sem gæti verið merki um holhimnubólgu. Á níunda degi fékk Margarete slæma lungnabólgu sem stóð í fimm daga, hjartslátturinn varð líka stöðugt veikari. Á 26. degi hætti að vella útferð úr sárinu og næstu daga ýmist hækkaði eða lækkaði hitinn. Á 33. degi fékk Margarete kuldahroll, læri hennar voru þakin miklum útbrotum. Læknarnir voru ýmsu vanir, en þeir höfðu samt á orði að sjaldan hefðu þeir séð manneskju þjást eins mikið og Margarete Kleb. Heilbrigða nýrað sem eftir var, skilaði nú jafn miklum vökva úr líkamanum og bæði nýrun höfðu gert áður. Á 36. degi var líðan Margarete orðin betri, tveimur dögum síðar gat hún setið í stól í nokkrar klukkustundir. Þennan dag er skráð að hún hafi hlegið í fyrsta sinn í marga mánuði. Meinsemdin sem olli henni svo miklum þjáningum og hafði hrakið hana einveru virtist horfin. Útferð var þó úr sárinu næstu 5 mánuðina. Á þessum tíma jókst þrek Margarete dag frá degi, enda þótt hún léti oft færa sér mat sem hún þoldi ekki. Þegar leið fram á sjötta mánuð frá aðgerðinni var nýrnastilkurinn gróinn og hægt var að fjarlægja saumana sem héngu út úr opnu sárinu. Skurðsárið gréri að lokum.

Þegar fransk-þýska styrjöldin braust út sumarið 1970, aðstoðaði Margarete við að vaka yfir hinum særðu á spítalanum. Í nóvember 1870, fimmtán mánuðum eftir aðgerðina, útskrifaðist Margarete Kleb af spítalanum og tók til við fyrri störf.

Heimildir: Thorwald, Jürgen: Das Jarhundert Der Chirurgen.
http://www.uni-koeln.de/med-fak/holweide/ur ologie/margarete.htm
http://www.ncbi.nlm.nih.gov/entre z/query.fcgi?cmd=Retrieve&db=PubMed&list_uids=10418090& dopt=Abstract