Ferdinand Magellan var portúgalskur landkönnuður sem er frægur fyrir það að hafa sannað að jörðin væri hnöttótt með því að sigla umhverfis hana.

Ferdinand Magellan fæddist í Sabrosa í Portúgal árið 1480. Fjölskylda hans bjó á friðsælum bóndabæ en Magellan var sjö ára gamall sendur í klausturskóla í nágrenninu. Þar lærði hann kverið og undirstöðuatriði í reikningi og latínu. Hann átti hamingjusama æsku en fábrotna sveitalífið fullnægði ekki ævintýraþrá hans. Því var hann tólf ára gamall sendur í hirðsveinaskóla Leonóru drottningar í Lissabon. Þar lærði Magellan að sjálfsögðu skylmingar og einnig öðlaðist hann mikla þekkingu á kortagerð og stjörnufræði, sem átti eftir að nýtast honum vel.
Á þessum tíma var Jóhann II. konungur í Portúgal og lagði hann mikla áherslu á siglingar og landkönnun. Magellan hlakkaði til fullorðinsáranna og hafði glæstar vonir um frama í siglingaþjónustu konungs. En þegar Magellan var aðeins 15 ára, dundi ógæfan yfir. Jóhann konungur var ráðinn af dögum og mágur hans, Dom Manúel hertogi, tók við. Nýi konungurinn hafði óbeit á Magellan og var auk þess lítill áhugamaður um siglingar og landkönnun samanborið við Jóhann. En þó gerði hann út einn leiðangur sem heppnaðist heldur betur. Vasco da Gama fann sjóleiðina til Indlands árið 1498 og kom tilbaka með fullan farm af gómsætu kryddi frá Kryddeyjum og mjúku silki frá Kína ásamt öðru framandi góðgæti. Í kjölfarið voru farnar fleiri sjóferðir til Asíu og á örskömmum tíma varð Portúgal helsta verslunarmiðstöð Evrópu.
Árið 1504 var Francisco de Almeida gerður af landstjóra á Indlandi og konungur sendi hann í landvinningarför í austurátt. Magellan skráði sig í flota Almeida, sem samanstóð af 22 skipum, og skömmu síðar hélt hann af stað til Indlands. Næstu átta ár dvaldist Magellan í Asíu og lenti í ýmsum ævintýrum. Í upphafi var hann aðeins óbreyttur lausamaður en var þó fljótlega hækkaður í tign og gerður að stýrimanni þegar hæfileikar hans komu í ljós. Portúgalski flotinn barðist við araba um yfirráð á Indlandshafi og tók Magellan þátt í mörgum orrustum, bæði á sjó og landi. Þar hefur skylmingakunnátta hans vafalaust komið að góðum notum. Portúgalirnir voru ákaflega sigursælir og stráfelldu arabana enda voru skip þeirra búin fallbyssum. Magellan varð tvisvar moldríkur en í bæði skiptin tapaði hann því öllu aftur. Hann særðist einnig illilega en náði þó sem betur fer fullum bata.
Árið 1511 urðu kaflaskipti í lífi Magellans, hann eignaðist sitt eigið skip. Nú gat hann siglt hvert sem hann vildi og hann hélt þegar í stað í austurátt. Hann ákvað að einbeita sér að landkönnun í stað þess að berjast við araba sem honum þótti bæði leiðinlegt og ómannúðlegt. Ekki er nákvæmlega vitað hvert hann sigldi en talið er að hann hafi fundið nýjan eyjaklasa sem í dag ber nafnið Filippseyjar.
Í Tordesillas-samningnum frá árinu 1494 var dregin markalína um það bil 370 mílur fyrir vestan Azoreyjar og skyldu Spánverjar eiga einkarétt á löndum vestan línunnar en Portúgalir fyrir austan. Línan náði að sjálfsögðu umhverfis jörðinna en menn vissu ekki hvar hún lá í gegnum Asíu þar sem ummál jarðar var deilumál og enn kunnu menn ekki að reikna lengdargráður. Magellan hélt því fram að Filippseyjar lægju austan við Tordesillas markalínuna og tilheyrði því ekki Dom Manúel af Portúgal heldur Karli I. Spánarkonungi. Þetta vakti ofsareiði meðal Portúgala og var Magellan því sviptur skipstjórn og sendur heim með skömm eftir átta ára dvöl í Asíu.
Magellan var ekki vel tekið í Lissabon sem var orðin að bæli spilltra stjórnmálamanna. Hann ákvað því að skrá sig í herinn og fór til Marokkó þar sem Portúgalir áttu í stríði við erkifjendur sína, Mára. Hann stóð sig ágætlega og hlaut titilinn herbúðarstjóri en varð fyrir því óláni að fá lensu í gegnum hægra hnéð. Upp frá því var hann haltur. Skömmu síðar kynntist hann landkönnuðinum Jóhanni af Lissabon sem siglt hafði til Ameríku. Hann taldi sig hafa fundið el paso, sundið sem liggur í gegnum Suður-Ameríku. Þessar fregnir kveiktu mikinn áhuga hjá Magellan að komast aftur til Filippseyja en með því að fara hina leiðina, þ.e.a.s. vestur yfir Atlantshafið. Hann var staðráðinn í að ná takmarki sínu og hugsaði varla um neitt annað.
Nokkrum árum síðar fór Magellan á fund Dom Manúels konungs og bað hann um leyfi til að fá að stjórna skipi í konunglega flotanum. Kóngsi neitaði eins og Magellan hafði átt von á. Þá spurði Magellan hvort hann mætti þjóna öðrum konungi og kóngsi svaraði: “Þjóna þú hverjum þú vilt, klumbufótur.” Þarna sýndi kóngurinn mikinn dónaskap með því að gera gys að höltum manni. Þetta var mikið áfall fyrir Magellan. Ríkið sem hann hafði þjónað alla sína ævi hafði snúið við honum baki. En Magellan dró sig upp úr skítnum og flutti til Spánar árið 1517, þar sem bróðir hans og fleiri góðir gæjar bjuggu. Aldrei steig hann aftur fæti á portúgalska grund.
Á Spáni kynntist Magellan fljótt helstu áhrifamönnum um verslun og siglingar og komst á fund Karls I. Spánarkonungs, sem var aðeins 17 ára gamall bólugrafinn unglingur. Til gamans má geta þess að síðar varð þessi ungi konungur keisari Hins heilaga rómverska keisaraveldis og hét þá Karl V. Það var einmitt hann sem barðist við Marteinn Lúther og félaga í Þýskalandi. Magellan sagði konungi frá áætlun sinni og sýndi honum falleg og nákvæm kort sem áttu að sýna leiðina í gegnum Suður-Ameríku. Konungi leist vel á áætlun Magellans og samþykkti að hann skyldi fá að stýra leiðangri sem finna ætti vesturleiðina til Asíu, það sem Kólumbusi hafði mistekist. Sumar óáreiðanlegar heimildir halda því fram að Magellan hafi sofið hjá kónginum til að fá samþykki hans en ég trúi því ekki. Hins vegar held ég að konungurinn hafi verið afskaplega hrifinn af þeirri kenningu Magellans um að Filippseyjar og hinar æðislegu Kryddeyjar lægju Spánarmegin við Tordesillas- markalínuna.
Næstu mánuði undirbjó Magellan fyrirhugaðan leiðangur. En margt tafði undirbúninginn. Portúgalir höfðu heyrt af fyrirhugaðri ferð Magellans og reyndu hvað þeir gátu til að koma í veg fyrir hana með því að hnupla af vistunum og æsa til vandræða við höfnina. Og ekki voru spænsku fjármálamennirnir skárri. Þeir vildu að Magellan myndi sigla til Kryddeyja í stað þess að fara til Filippseyja og þeim tókst að koma sínum eigin mönnum í æðstu stöður í flota Magellans. Þetta hafði hinar slæmu afleiðingar í för með sér að flestir kapteinarnir og stýrimennirnir voru aumir landkrabbar sem vægast sagt hötuðu Magellan. Magellan fékk þó sem betur fer leyfi hjá konungi til að ráða nokkra frábæra portúgalska sjómenn um borð í flotann til þess að hægt væri að sigla skipunum.
Loksins kom brottfarardagurinn. Hinn 20. september árið 1519 létu 5 skip og 277 hressir menn í haf. Skipin hétu í stærðarröð: San Antonio, Trinidad, Victoria, Concepción og Santiago. Vegna frekju Spánverjanna neyddist Magellan til að vera um borð í næststærsta skipinu, Trinidad, og sigldi það ávallt fyrst. Ferðin byrjaði vel en fljótt voru spænsku kapteinarnir farnir að skipuleggja að koma Magellan fyrir kattarnef. Magellan vissi af ásetningi þeirra og því passaði hann sig á því að gefa þeim enga ástæðu til að æsa til uppreisnar.
Þegar flotinn hafði siglt milli Grænhöfðaeyja og Sierra Leone-strandar gerðist nokkuð skemmtilegt. Bátsmaðurinn á Victoria var staðinn að verki þar sem hann var að hommast og því var settur réttur yfir honum. Á þessum fundi reyndu spænsku andstæðingar Magellans að móðga hann en hann hélt ró sinni. Einn þeirra, Cartagena, gekk of langt of hrópaði: “Ég er ekki lengur reiðubúinn að fylgja reikulli stefnu, sem ráðið er af bjálfa.” Þá öskraði Magellan: “Þér neitið opinberlega að fylgja mér. Mótþróaseggur! Þetta er uppreisn!” Síðan var Cartagena sviptur skipsstjórn en Magellan vildi þó ekki hálshöggva hann, þó að hann hefði fullan rétt á því.
Flotinn hélt svo þvert yfir Atlantshafið en þessi stutti spölur tók heilar 10 vikur því vindhraðinn var svo lítill. Nú voru þeir komnir til Brasilíu og þeir námu land í fegursta skipalægi í heimi, Rio de Janeiro. Um leið og þeir stigu á land þá byrjaði að rigna og hinir innfæddu, Guarani-indjánarnir, litu því á Magellan og menn hans sem guði. Í þessari paradís áðu ferðalangarnir og stunduðu heiðarleg viðskipti við indjánana. Fyrir einn öngul fengu þeir fulla tunnu af ávöxtum og fyrir einn hníf fengu þeir eina nótt með tveimur fögrum indíánadísum, sem ólmar vildu fullnægja þeim sem komu með regnið. Tveim vikum síðar hélt flotinn svo aftur á stað og indjánarnir kvöddu þá með tárum og reyndu jafnvel að elta þá.
Nú var siglt í suðurátt meðfram strönd Suður-Ameríku í þeirri von um að el paso fyndist. Magellan fylgdi korti Jóhanns af Lissabon og eftir nokkra vikna siglingu fundu þeir mjótt sund sem var á sömu breiddargráðu og Góðrarvonarhöfði, syðsti oddi Afríku. Á þessum tíma var því haldið fram að jörðin væri fullkominn og þar með einnig samhverf. Þess vegna hlytu syðsti oddi Afríku og syðsti oddi Suður-Ameríku að vera á sömu breiddargráðu. Magellan var því handviss um að hann hefði fundið leiðina í gegnum Ameríku. Flotinn sigldi inn sundið en eftir nokkra daga áttuðu þeir sig á því að þetta var alls ekkert sund heldur fljót sem í dag heitir Rio de la Plata og er í Argentínu. Magellan var miður sín. Hverning átti hann nú að komast í gegnum Ameríku? Hann ákvað samt að gefast ekki upp og hélt af stað með flotann í suðurátt. Nú voru þeir komnir lengra í suður en nokkur Evrópumaður hafði áður farið.
Dagarnir voru farnir að styttast og því þurfti flotinn að hafa vetursetu í kuldalegu höfninni San Julian. Eftir allt el paso-klúðrið þá voru spænsku óvinir Magellans vonlitlir um að leiðangurinn myndi takast og efndu því til uppreisnar. Leiðtogar uppreisnarinnar voru spænsku skipstjórarnir Mendoza, Quesada og að sjálfsögðu óþokkinn Cartagena sem var fyrirliði. Þeir myrtu nokkra vini Magellans en honum tókst svo ásamt portúgölsku vinum sínum að brjóta uppreisnina á bak aftur og ná öllum skipunum á sitt vald. Mendoza féll í átökunum en til leiðinda má geta þess borg ein í Argentínu heitir eftir þessum svikara. Quesada var svo hálshöggvinn réttilega og Cartagena skilinn eftir þegar flotinn hélt aftur af stað.
Veturinn var lengi að líða og menn Magellans öfluðu sér matar með því að veiða seli, mörgæsir og lamadýr. Þeir rákust síðan á skrýtin innfæddan mann sem var 2 m og 30 cm á hæð. Þeir glöddu þennan frumstæða náunga með því að gefa honum bjöllur og öngla. Svo sýndu þeir honum spegil en risinn var svo hræddur þegar hann sá sjálfan sig að hann hrökk aftur og felldi fjóra menn.
Þegar vorið kom hélt flotinn aftur af stað. Og viti menn, eftir nokkrar vikur þá fundu þeir loksins el paso. Magellan og flestir hinir voru himinlifandi og sigldu þegar í stað inn í hið þrönga sund sem nú heitir Magellansund. En þá dundi ógæfan yfir. Minnsta skipið, Santiago, strandaði í miklu óveðri og skemmdist. Og hvað haldiði að hafi gerst svo? Stærsta skipið, San Antonio, strauk og sigldi aftur til Spánar. Þetta var afar slæmt þar sem næstum allar vistirnar voru um borð í San Antonio. Skipin þrjú sem eftir voru, Trinidad, Victoria og Concepción, héldu þó áfram og sigldu í gegnum sundið. Eftir 38 daga siglingu var sundið á enda og risastórt haf blasti við, öllum til mikillar gleði. Sjórinn var kyrr og því nefndi Magellan hafið Mar Pacifico eða Kyrrahafið. Nú héldu mennirnir að þeir ættu aðeins eftir fjögurra til fimm daga siglingu til Kryddeyja því þeir höfðu ekki hugmynd um hina ægilegu víðáttu Kyrrahafsins.
Fyrstu vikurnar á Kyrrahafinu voru tíðindalausar og mennirnir skemmtu sér við að fylgjast með flugfiskum sem þeir höfðu aldrei séð áður. Að lokum fór þó maturinn að skemmast því hann þoldi ekki hina sterku hitabeltissól. Síðan fór skyrbjúgur að hrjá skipsmennina þar sem nær engin c-vítamínríkur matur var um borð. Sífellt fleiri veiktust og brátt dóu fyrstu mennirnir. Vistin um borð var hræðileg og ekki var mjög hughreystandi að sjá svarta þríhyrnda ugga hringsólandi í kringum skipin. Mennirnir voru alveg að gefast upp þegar þeir loksins fundu litla eyju, sem þeir nefndu Pálseyju. Þetta var fyrsta landsýn í tvo mánuði og mennirnir dvöldu á eyjunni í nokkra daga til að safna kröftum.
Það er sorglegt að segja frá því að hefði flotinn verið 20 mílum sunnar hefði hann rekist á hvern eyjaklasann á fætur öðrum og siglingin hefði verið auðveld og skemmtileg. En Magellan var svo ólánssamur að stefna flotanum inn á eyðilegustu sjóleið veraldar þegar hann lagði af stað frá Pálseyju. Flotinn rakst ekki á eina einustu eyju í margar vikur og maturinn sem safnast hafði á Pálseyju skemmdist og kláraðist fljótt. Menn þurftu að sætta sig við að borða mulið kex, blandað sagi og rottuhlandi og rotturnar sjálfar voru einnig étnar. Skyrbjúgur hrjáði flesta og menn gátu varla staðið uppréttur á skipunum. Fjölmargir dóu.
En allt illt tekur enda og flotinn rakst loksins á eyjuna Guam þar sem mennirnir björguðust frá hungurdauða. Magellan og félagar héldu síðan áfram eftir góða hvíld og eftir nokkra daga siglingu komu þeir til Filippseyja. Þeir voru loksins komnir yfir Kyrrahafið og Magellan hafði náð takmarki sínu. En hinir skipsmennirnir vildu ólmir halda förinni áfram því þeir vildu komast til Kryddeyja. Það þýddi þó ekkert að þræta við Magellan því hann vildi endilega rannsaka þennan eyjaklasa og uppgötva nýjar eyjur sem hann gæti ef til vill eignað sér.
Hinir innfæddu Filippseyingar tóku vel á móti leiðangursmönnum og leiðtogi þeirra gekk í fóstbræðralag með Magellan. Nú tók við svall of saurlifnaður, verslun og veisluglaumur. Nóg var af fallegum konum og enn þá meira af gulli. Magellan fékk allt í einu mikinn áhuga á trúboði og reyndi að kristna hina innfæddu með góðum árangri. En svo gerði Magellan skyssu sem kostaði hann lífið. Hann blandaði sér inn í innanlandsdeilur og lenti í miklum bardaga við stóran her af frumstæðum stríðsmönnum. Í þessum bardaga féll Magellan enda fékk hann litla aðstoð frá spænsku skipsmönnum sínum sem sjálfir vildu stjórna leiðangrinum og fögnuðu dauða Magellans. Eftir þetta áfall hélt flotinn suður til Kryddeyja. Nú voru aðeins 115 leiðangursmenn eftir á lífi og því var ákveðið að brenna Concepción, enda voru ekki nógu margir eftir til að sigla þremur skipum.
Flotinn dvaldist í þrjá mánuði í Kryddeyjum og stundaði hagstæð viðskipti á eyjunni Tidor. Skipin tvö sem eftir voru, Victoria og Trinidad, voru fyllt af kryddi og öðrum munaðarvörum og síðan var ákveðið að halda heim á leið. En Trinidad var of illa farin til að geta haldið áfram og því var flotanum skipt í tvennt. Helmingur mannanna varð eftir og reyndi að gera við Trinidad en hinir fór um borð í síðasta haffæra skipið, Victoriu, og sigldu af stað vestur til Spánar. Skipstjóri var Baskinn Juan Sebastian del Cano.
Ferðin var löng og erfið. Svo til allar hafnir á leiðinni voru undir stjórn Portúgala og því gat Victoria hvergi tekið land. Skyrbjúgur gerði aftur vart við sig og flestir dóu. Þegar Victoria komst svo loksins heim til Spánar 8. september, eftir 42 þúsund mílna siglingu, voru aðeins 19 menn eftir á lífi af þeim 277 sem lagt höfðu af stað þremur árum fyrr. Á meðal eftirlifenda var Ítalinn Antonio Pigafetta sem hafði haldið dagbók alla ferðina. Þessi dagbók er ómetanleg heimild um þessa stórkostlegu ferð. Þegar í land var komið uppgötvaði áhöfnin að hana vantaði einn dag í almanakið. Þetta stafaði af því að þeir höfðu siglt yfir hina svokölluðu daglínu en fram að þessu hafði engum dottið neitt slíkt í hug.

Eitt af markmiðum fyrstu hnattsiglingarinnar var að opna nýja leið til Kryddeyjanna. Það tókst vissulega en leiðin var of löng of hættuleg til þess að hún gæti borgað sig og því ákváðu Spánverjar að einbeita sér að Ameríku og láta Kryddeyjarnar alveg í friði. Ferð Magellans jók til muna þekkingu manna á jörðinni og sannaði í eitt skipti fyrir öll að hún væri kúlulaga og að heimshöfin væru öll tengd. Ég vildi óska þess að Magellan hefði verið einn þeirra sem lifði af. Þó að hann færi ekki umhverfis allan hnöttinn sjálfur þá að hann samt allan heiðurinn af fyrstu hnattsiglingunni. Blessuð sé minning hans.


Heimildaskrá


Cameron, Ian. 1974. MAGELLAN og fyrsta hnattsiglingin. Kristín R. Thorlacius þýddi. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf., Reykjavík

Castlereagh, Duncan. 1975. Landafundirnir miklu. Steindór Steindórsson þýddi. Bókaflokkurinn Lönd og landkönnun. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf., Reykjavík

Gilbert, John. 1975. Könnun Kyrrahafsins. Steindór Steindórsson þýddi. Bókaflokkurinn Lönd og landkönnun. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf., Reykjavík

Guðmundur J. Guðmundsson og Ragnar Sigurðsson. 1995. Þættir úr sögu vestrænnar menningar. Nýöldin 1492-1848. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík

Jón Thor Haraldsson. 1980. Mannkynssaga 1492-1648. Mál og Menning, Reykjavík

Steensgaard, Niels. 1986. Saga Mannkyns ritröð AB 9. bindi – Markaður og menningarheimar. Ritstj. Knut Helle o.fl. Almenna bókafélagið, Reykjavík

Vilhjálmur Stefánsson. [Án árs]. Hetjuleiðir og landafundir. Ársæll Árnason og Magnús Á. Árnason þýddu. Bókaútgáfan Hildur, Reykjavík
Gleymum ekki smáfuglunum..