Í grófum dráttum má skipta grísku stafrófunum í austurgrísk og vesturgrísk stafróf. Etrúrar tileinkuðu sér vesturgrískt stafróf sem greindist svo í norður- og suður-etrúrskt stafróf. Latverjar sem voru nágrannar Etrúra í suðri höfðu að öllum líkindum meiri samskipti við Suður-Etrúra og tileinkuðu sér suður-etrúrskt stafróf (eins og sést á því að stafurinn C er notaður fyrir hljóðið /k/).
Grísku stafrófin komu hins vegar til Ítalíu með grískum landnemum sem stofnuðu þar borgir þegar á 8. öld f.Kr. Grískir landnemar frá Kalkis á eynni Evboju stofnuðu til að mynda borgina Cumae (í dag Cuma) um 740 f.Kr. og nýlendu á Pithecusae (í dag Ischia), stærstu eyjunni á Napólíflóa, en þar settust einnig að menn frá Eretríu. Þetta fólk hafði með sér stafróf og þetta stafróf þáðu Etrúrar að láni.(1) Enginn vitnisburður er um að menn hafi skrifað neitt á Ítalíu fyrir komu grísku landnemanna.
Hvers vegna tók stafrófið breytingum? Það var einfaldlega vegna þess að gríska stafrófið hafði fleiri stafi en Etrúrar og Latverjar höfðu not fyrir sökum þess að hljóðkerfi þeirra mála var frábrugðið hljóðkerfi grískunnar. Þegar nota átti grískt stafróf til að skrifa önnur mál völdu menn úr þá stafi sem þeir höfðu not fyrir. Og stundum breyttust hljóðgildi stafanna. Þannig urðu til ný stafróf úr grísku stafrófi.
Etrúrar greindu ekki á milli raddaðra og óraddaðra lokhljóða eins og Grikkir gerðu. Stafirnir C, K og Q stóðu hjá Suður-Etrúrum allir fyrir sama hljóðið, nefnilega /k/, en þeir stóðu á undan ólíkum stöfum; C á undan e eða i eða samhljóði, K á undan a, og Q á undan u. Endurspegla nöfn stafanna þá dreifingu: Ke, Ka og Kú (sé, ká og kú). Þetta þáðu Latverjar í arf og í latneska stafrófinu var því enginn stafur notaður fyrir /g/ þótt Latverjar hafi gert greinarmun á hljóðunum /k/ og /g/ og stafurinn C, sem var í grískunni gamma hafi verið notaður. Dreifingin var eins og hjá Etrúrum nema hvað Q stóð núna á undan u eða o, sem sagt á undan kringdum sérhljóðum (sbr. EQO = ‘ego’). K stóð eftir sem áður á undan a eða sérhljóðum og hélst það fram á klassískan tíma í þeim fáu orðum sem K kemur þar fyrir, t.d. “kalendae”. C stóð, eins og hjá Etrúrum áður, á undan nálægum sérhljóðum eins og e og i eða á undan samhljóðum (sbr. FECED = ‘fecit’ og CRATIA = ‘gratia’). En þegar á leið tók C hægt og rólega yfir hlutverk K og að einhverju leyti yfir hlutverk Q. Stafurinn G varð til upp úr tákninu C á fyrri hluta 3. öld f.Kr og ef marka má Plútarkos mun það hafa verið skólastjórinn og frelsinginn Spurius Carvilius Ruga sem bjó hann til.(2) En öðrum hefur einnig verið eignaður heiðurinn á uppfinningu táknsins G. Q hafði orðið til úr gríska stafnum koppa sem var í stafrófi Evbojumanna. Sömuleiðis varð H til úr hetunni, sem einnig var að finna í stafrófi Evbojumanna. Stafurinn X, sem var notaður fyrir hljóðið /s/ hjá Etrúrum og var sjaldgæfur stafur, fékk aftur upprunalegt gildi sitt, þ.e. /ks/, sem hann hafði haft hjá Evbojumönnum. Stafurinn U táknaði hvort tveggja /u/ og hálfsérhljóðið /w/. Stafina B og D notuðu Etrúarnir ekki að því er virðist en Latverjarnir fengu þá úr upprunalegu stafrófi Evbojumanna, sem Etrúaranir höfðu þegið í arf, og notuðust við þá. Stafróf klassískrar latínu varð því að endingu: ABCDEFGHIKLMNOPQRSTUX (YZ).
Aftanmálsgreinar:
(1) Þó hafa verið færð fyrir því rök að Etrúrar hafi ekki fengið stafróf sitt frá Grikkjunum heldur eigi stafróf Etrúra g Grikkja sameiginlegan uppruna. Sjá Andrew L. Sihler, New Comparative Grammar of Greek and Latin (Oxford: Oxford University Press, 1995) 20, nmgr. 1.
(2) Andrew L. Sihler, op. cit. 21.
___________________________________