Gamlar götur-Vestur-Húnavatnssýsla
Eftir Örn H. Bjarnason
Í þessari grein verður leitast við að lýsa gömlum götum í Vestur-Húnavatnssýslu. Þetta verða ekki nákvæmar leiðarlýsingar heldur einungis stiklað á stóru. Reynt verður að gefa nokkra mynd af reiðleiðum eins og þær voru fyrrum og eru á margan hátt enn í dag.
Eftir föngum verður fléttað inn í ýmsu sögulegu sem gerðist við þessar fornu götur. Af nógu er að taka í sýslunni enda þar vettvangur margháttaðra umsvifa og átaka, en það er einmitt í átökum manna ýmist við óblíð náttúruöfl eða hver við annan sem sagan gerist. Grálynd örlög verða á hinn bóginn oft minnistæðari en brauðstritið. Hversdagsleikinn er sjaldnast í frásögur færandi.
Helstu fjallvegir:
Um Holtavörðuheiði lágu götur sem byrjuðu rétt fyrir framan Mela í Hrútafirði. Sunnan til á heiðinni var komið ofan að Sveinatungu í Norðurárdal. Þarna var fjölfarið bæði vor og haust, en einnig á veturna enda tæpast um aðrar leiðir að velja milli Norður- og Suðurlands. Um Holtavörðuheiði lá gamla póstleiðin.
Ofan að Fornahvammi í Norðurárdal var talin ein þingmannaleið eða 37.5 km. Þóttu götur þessar nokkuð grýttar og blautar, en jafnlendi víðast hvar og heiðin ekki ýkja há. Talað var um að “fara sveitir” þegar þessi leið var valin en að “fara fjöll” ef farið var um austurheiðarnar upp úr Miðfirði, Víðidal eða Vatnsdal.
Þegar Gunnar á Hlíðarenda fer í dulargervi Kaupa-Héðins að Höskuldsstöðum í Laxárdal að hitta Hrút föðurbróður Hallgerðar langbrók þá ríður hann upp Norðurárdal og yfir Holtavörðuheiði í Hrútafjörð en síðan um Laxárdalsheiði. Kannski hefur hann stytt sér leið og farið Sölvamannagötur, en þær liggja upp frá Fjarðarhorni í Hrútafirði og mæta leiðinni um Laxárdalsheiði rétt fyrir vestan sýslumörk Stranda- og Dalasýslu.
Á Holtavörðuheiði hitti Vatnsenda-Rósa fyrrum ástmann sinn Pál Melsted amtmann (1791-1861). Það munu hafa verið einu samfundir þeirra eftir að hún flutti frá Ketilsstöðum á Völlum og voru þau þá bæði farin að reskjast. Hún var búsett sunnan heiðar og á leið í kaupavinnu norður í land. Höktandi þumlungaðist hún eftir gömlum götuslóða, slitin manneskja.
Páll kom úr gagnstæðri átt hnarreistur í skínandi einkennisbúningi. Aldrei hafði Rósa sagt hnjóðsyrði um þennan mann en nú náði beiskjan yfirhöndinni og hún kastaði fram þessari vísu:
Man ég okkar fyrri fund,
forn þó ástin réni.
Nú er eins og hundur hund,
hitti á tófugreni.
Það sveið undan þessu beitta vopni lítilmagnans og amtmaðurinn sat álútur hest sinn suður Holtavörðuheiði. Við Hæðarstein var áð og þar höfðu fylgdarsveinar amtmannsins í laumi yfir vísuna. Upp frá því var hún greipt í þjóðarsálina.
En svo við vindum okkur yfir í Miðfjörð. Þar lágu leiðir fram með Miðfjarðará rétt við bæi og síðan meðfram Austurá, Núpsá og Vesturá.
Núpdælagötur lágu á milli Miðfjarðardala suður um Tvídægru til Borgarfjarðar. Ýmist var farið upp úr Núpsdal Lestamannaveg svonefndan eða frá Aðalbóli í Austurárdal. Einnig var leið upp úr Vesturárdal.
Algengast var að fara upp úr Núpsdal og mættust leiðirnar þegar komið var upp fyrir daladrögin eða suður við Þorvaldsvatn.
Frá Þorvaldsvatni lá leiðin fyrir vestan Úlfsvatn og yfir Norðlingafljót á Núpdælavaði sem er rétt fyrir ofan Bjarnafoss. Þar á Þorvaldshálsi er komið á Arnarvatnsheiðarveg eða Stórasandsleið eins og líka heitir. Til byggða var komið niður að Kalmanstungu. Þangað eru 50 km frá Aðalbóli og fór Bensi á Aðalbóli stundum vetrarveg þarna þegar mýrar, fen og vötn voru ísilögð að spila lomber við bóndann í Kalmanstungu.
Á Tvídægru er vettvangur litríkra frásagna m.a. í Heiðarvíga sögu. Árið 1014 urðu þar snörp átök milli Húnvetninga og Borgfirðinga, svonefnd Heiðarvíg. Kom þar við sögu Víga-Barði Guðmundsson sem kenndur var við Ásbjarnarnes en sá bær stendur við Hópið. Þessi sami Barði mun að sögn seinna hafa búið um sig í Borgarvirki, sem er klettaborg milli Vesturhóps og Víðidals.
Borgfirðingar sátu þar um virkismenn og ætluðu að svelta þá inni. Tók Barði það þá til bragðs að kasta út nokkrum mörsiðrum, lét eins og hann hefði mistekið þau fyrir steina. Borgfirðingar töldu þá einsýnt að í virkinu væri gnægð matar og létu undan síga.
Hvergi er Borgarvirkis getið í Heiðarvíga sögu. Þetta með mörsiðrið er því munnmælasaga. Enginn veit með vissu hver lét gera Borgarvirki, en sumir hallast að því að það sé héraðsvirki frá landnámsöld.
Úr því að við erum stödd á þessum slóðum má geta þess, að þar sem Faxalækur rennur í Víðidalsá heitir Síðunes. Þar skar Víga-Barði á söðulgjarðir móður sinnar þannig að hún hlunkaðist í lækinn. Hafði kerlingin ætlað að troða sér með í átökin suður á Tvídægru en hann vildi ekki hafa hana með.
Á Sturlungaöld fóru menn í stórflokkum um Tvídægru. Í Sturlunga sögu segir að Kolbeinn ungi hafi farið upp úr Núpsdal með sex hundruð manna lið á leið í Reykholt í Borgarfirði. Hugsið ykkur 600 manns hver kannski með tvo til reiðar að hlykkjast suður heiðina.
Um morguninn þegar lagt var af stað var krapadrífa og urðu menn all votir. Þegar á daginn leið tók að frysta. Ýmsir glímdu til að að halda á sér hita. Að lokum voru menn orðnir svo lopnir að þeir gátu ekki haldið á vopnum sínum, sem er bagalegt fyrir vígamenn. Sumir frusu í hel en aðra kól og lifðu við örkuml eftir það.
En svo við hverfum aftur niður í byggð þá lá leið fram Fitjárdal þangað sem bærinn Finnmörk er í dag. Þaðan svo vestur að Bjargshóli, sem er nokkurn veginn á móts við Brekkulæk í Miðfirði.
Hér má geta þess að í Grettis sögu segir frá fjölmennu hestaþingi á Löngufit, en hún er á bökkum Miðfjarðarár þar sem Laugarbakki er nú. Þarna öttu saman hestum sínum Atli frá Bjargi eldri bróðir Grettis og bræðurnar Kormákur og Þorgils frá Mel í Hrútafirði. Atli átti móálóttan hest út af Kengálu en bræðurnir frá Mel brúnan hest vígdjarfan. Af þessu hestaati urðu afdrifarík eftirmál, sem ekki verða rakin hér.
Í dag skilja menn kannski ekki hvílíkt alvörumál hestar voru hér fyrr meir. Mér er sagt að t.d. austur í Hornafirði hafi það oft borið við, að ævilöng óvinátta skapaðist fyrir það eitt að óvarlega var talað um reiðhest einhvers. Það mátti úthúða kerlingunni og krakkaormunum, en ekki segja styggðaryrði um uppáhalds hestinn.
Þetta er kannski útúrdúr en austar í sýslunni er Víðidalstunguheiði. Um hana lá leið suður að Arnarvatni mikla og þaðan um Álftakrók og Þorvaldsháls að Kalmanstungu. Leið þessi mætti Grímstunguheiðarvegi fyrir norðan Haugakvíslardrög. Grímstunguheiðarvegur var einnig nefndur Biskupagötur og var hann lagður á árunum 1860-1870.
Frá Hrappsstöðum í Víðidal að Fellaskála við Suðurmannasandfell eru 43 km en úr Víðidal suður að Kalmanstungu voru taldar þrjár þingmannaleiðir eða rétt um 110 km.
Víðidalstunga í Víðidal er fornt höfuðból, mjög vel í sveit sett. Þarna var heyskapur allur auðveldur og svo voru hlunnindi t.d. af laxveiði. Í Víðidalstungu var Flateyjarbók sett saman um miðja 14. öld að frumkvæði Jóns Hákonarsonar. Til bókagerðarinnar þurfti 113 kálfskinn þannig að eitthvað hefur bóndinn þar haft umleikis. Í dag er útgáfa hvers konar tiltölulega auðveld. Við eigum því erfitt með að gera okkur í hugarlund hvílíkt þrekvirki gerð Flateyjarbókar var. Ekki langt frá Víðidalstungu er Galtanes en þar var lögferja yfir Víðidalsá.
En svo við förum aftur svolítið vestar þá lá milli bæjanna Valgeirsstaða og Húks í Vesturárdal leið yfir Hrútafjarðarháls. Komið var niður hjá Brandagili í Hrútafirði. Þarna var gamla skreiðarkaupaleiðin úr sveitum Víðidals. Frá Brandagili var svo farið hjá Mel í Hrútafirði og um Haukadalsskarð vestur í Dali. Þvínæst um Rauðamelsheiði og vestur undir Jökul. Þar vestra var um tíma mesti þéttbýliskjarni landsins.
Önnur leið yfir Hrútafjarðarháls lá fyrir sunnan Staðarbakka í Miðfirði og yfir að Þóroddsstöðum. Þessa leið fór Konrad Maurer árið 1858. Hann fór hjá Álfhól og Álfhólsvatni og Grettistaki. Ekki hældi hann slóðanum, talar um urðir og klungur og mýrarfláka. Fylgdarmaður hans var séra Böðvar Þorvaldsson prófastur á Melstað þá orðinn 72 ára gamall.
Maurer lýsir því hvernig klerkurinn hendist af baki eftir að hafa látið hest sinn stökkva yfir pytt. Aftur stígur þessi aldni maður á bak, hagræðir sér í hnakknum og heldur áfram för.
Klukkan níu um kvöldið leggur séra Böðvar svo af stað frá Þóroddsstöðum og heim til sín aftur, en Maurer þáði gistingu að Þóroddsstöðum. Ekki var á prófasti að sjá að hann væri tiltakanlega vegmóður.
Aftur og aftur rekst maður á það í gömlum heimildum hversu prestar voru ósérhlífnir að greiða götur erlendra ferðamanna. Prestssetrin voru í raun fyrsti vísir að ferðaskrifstofum á Íslandi, í senn gististaður og upplýsingamiðstöð.
Margir þessara erlendu landkönnuða bjuggu yfir ótrúlegu þreki. Til viðbótar við erfiði hestaferðarinnar voru þeir sískrifandi. Umfjöllun þeirra er oft svo tær að sá sem ætlar að skrifa t.d. um gamlar reiðleiðir hlýtur að einhverju leyti að fara í smiðju til þeirra. Bækur þeirra margra hverra eru ómetanlegar samtímaheimildir.
Í Sýslu- og sóknalýsingum frá 1848 er talað um að götutroðningar á Hrútafjarðarhálsi séu “íllræmdar.” Verra var þetta þó á Sturlungaöld. Í Sturlunga sögu er lýst ferð Ásbjörns nokkurs þarna. Hann fór um hálsinn yfir að Brandagili. Til viðbótar við fúafen mætti honum og liðsmönnum hans ógurlegt tröll sem fór í sveig rétt hjá þeim.
Þegar þeir komu að Stað var flóð og ekki reitt yfir vaðlana, fjörðurinn ekki enn ruddur ísum og ár ófærar. Upp úr hádeginu hljóp í Ásbjörn ofurkapp og hleypti hann hesti sínum út í Hrútafjarðará á bólakaf. Lengi vel tókst honum að halda í annað ístaðið en missti það svo og drukknaði. Förunautar hans komust yfir og riðu hjá Fjarðarhorni og þaðan vestur í Dali.
Inn Hrútafjörð allan lá vegurinn með sjó en að Stað var áfangastaður landpóstsins.
En svo við förum yfir í Miðfjörð þá lá frá Staðarbakka leið að vaði á Miðfjarðará á móts við Bergsstaði og síðan fyrir sunnan Miðfjarðarvatn yfir í Víðidal hjá Auðunarstöðum og yfir Víðidalsá á Steinsvaði sem er nokkurn veginn þar sem þjóðvegurinn liggur í dag.
Af þessari leið lágu götur skammt frá bænum Torfastaðahús og hjá Urriðavatni yfir Urriðaá og á Fitjárdalsveginn. Einnig voru götur yfir Miðfjarðarháls upp með Urriðaá og hjá Urriðavatni í Fitjárdalinn.
Þarna erum við stödd ekki langt frá Bjargi í Miðfirði. Þar í túni heitir Grettisþúfa og mun höfuð Grettis Ásmundarsonar liggja þar undir sverðinum. Þar eð við lifum á margan hátt á andhetjuöld þar sem Woody Allen er tekinn fram yfir John Waine ætla ég ekki að þreyta menn á sögum um pörupiltinn Gretti sterka, sem byrjaði sinn síbrotaferil tíu ára gamall á því að vængbrjóta heimagæsina. Ég vil þó láta þess getið að Grettis saga er á margan hátt áhugaverð þeim sem skoða vill gamlar reiðleiðir, vegna þess hversu víðreist Grettir gerðist með óspektir sínar og uppákomur.
Grettis saga er fyrst og fremst saga einkaframtaksins en í Sturlungu fara menn fjölmennir um landið að kála hver öðrum. Það krefst nákvæmni og skipulags. Stundum brást þetta skipulag og á einum stað segir frá því er Teitur og Svarthöfði ríða að kvöldlagi um Miðfjarðarháls með sextíu manns á leið á Auðunarstaði í Víðidal. Aðeins 19 þeirra komust alla leið, hinir urðu viðskila í myrkrinu.
Úr því ég minnist hér á Sturlungu þá vil ég geta þess að í henni er talað um Þorsteinsstíg og Girðinefsstíg einhvers staðar á þessum slóðum. Fróðlegt væri að vita hvar þessir stígar liggja.
Þegar farið er á hestum um þetta land verður ekki hjá því komist að fyllast nokkurri fortíðardýrkun. Kemur þar margt til ekki síst gaddavírinn. Hann er hestafólki til ama. Ekki efa ég að gaddavírsgirðingar gera sitt gagn og gamalt máltæki segir að garður sé granna sættir. Þær eru líka verkmönnum til sóma þegar vel tekst til, en til vansa þegar þær liggja í tætlum út og suður líkt og girðing sú á Rótasandi fyrir sunnan Hlöðufell sem nefnd hefur verið Lönguvitleysa. Hún byrjar guð má vita hvar og enginn veit hvar hún endar. Það er galli.
Að lýsa girðingum og hliðum í Vestur-Húnavatnssýslu er mér ofvaxið og læt öðrum það eftir. Ég vil hins vegar benda á að gömul regla, sem tryggð er í lögum eins og þau birtast í Grágás segir að á alfaraleið skuli vera hlið ef girt er þvert á leiðina. Þetta vita bændur og sýna fæstir þvergirðingshátt í þessu efni. Á móti hvílir svo á hestamönnum sú skylda að halda sig við viðurkenndar reiðleiðir eins og frekast er unnt. Rétt okkar sækjum við best með því að virða rétt annarra og sýna tillitssemi.
Talandi um gaddavír þá gladdi það mig ekki svo lítið þegar ég frétti að opinberir aðilar væru farnir að styrkja menn til að rífa niður ljótar girðingar og setja fallegar í staðinn. Að aka heimtröð þar sem vel er girt beggja vegna er yndi hverjum manni, en ryðgaðar gaddavírsdræsur þyrnir í augum.
Ýmsar leiðir milli dala:
Úr Víðidal lá leið sem kölluð var að fara fyrir Gafl frá eyðibýlinu Lækjarkoti fram að Fremstaseli og þaðan að Haukagili í Vatnsdal. Þetta var vandrötuð leið.
Frá Aðalbóli í Austurárdal lá forn leið að Grímstungu í Vatnsdal. Þetta eru um 40 km og þarna er bæði blautt og villugjarnt og ekki nema fyrir þaulkunnuga að fara. Fjórtán tíma hrakningasögu af þessari vegleysu hef ég lesið. Það nægði til að gera mig afhuga henni. Síðan ég blautur í fæturna var að sækja kýrnar í sveitinni hafa fúafen ekki skírskotað til mín að ráði. Ég kýs frekar harðbala.
Á höfundi hrakningarsögunnar var helst að skilja að nota þyrfti hengingarkaðal til að ná hestum upp úr keldunum. Hengingarkaðall virkar þannig, að hann er settur um háls hestinum og síðan hert að. Frekar en að kyrkjast kýs hesturinn að neyta síðustu krafta sinna til að brjótast upp úr feninu. Þetta er kallað að hengja hest upp úr feni.
Í Víðidalstungu bjó m.a. Jón lögmaður Vídalín. Í Jarðabók sem hann samdi og er frá 1706 segir hann um svæðið upp af Víðidal. “Hætt er hestum fyrir foröðum, ef þeir á fjall ganga.” Þetta segir all nokkuð.
Vatnsnes og Vesturhóp.
Á Vatnsnesi vestanverðu lá vegur meðfram sjónum frá bæ til bæjar. Nyrsti bærinn á Vatnsnesi var Hindisvík. Þar bjó m.a. séra Sigurður Norland, en hann þjónaði Tjarnarprestakalli á árunum 1923-1955. Hindisvíkurkynið er af hans ræktun, en það hefur skilað úrtökuhrossum inn á milli, þurrbygðum og viljamiklum. Um slíka hesta segja menn suður í Borgarfirði að þeir séu bráð ólatir. Þar þykir stráksskapur og óheflað að nota einfalt orð eins og viljugur.
Hindisvík var mikil hlunnindajörð og þar er friðað selalátur. Þarna við nyrsta haf er ein af náttúruperlum Vestur-Húnavatnssýslu
Af Vatnsnesi lá leið út með Nesbjörgum og yfir þau hjá Óskoti gömlu eyðibýli, en þar er kleif í Björgin austanverðu og lá vegurinn þar. Því næst áfram að vaðinu á Bjargaósi. Þeir sem áttu erindi út á Blönduós fóru þessa leið. Farið var um Þingeyrarsand, Flatir og síðan meðfram sjónum fyrir neðan Hjaltabakka. Tvö vöð voru á Húnavatni, eitt á leirunum gegnt Þingeyrum og annað fyrir utan Geirastaði, Geirastaðavað.
Vaðhvammur er hjá Myrkubjörgum en þar er vað yfir á Þingeyrarsand. Þarna er öslað í vatni góðan spöl og hyggilegast að fara í fylgd kunnugra.
Munnmæli herma að Galdra-Páll Oddsson hafi verið brenndur á Nesbjörgum. Þetta var árið 1674 og ein síðasta galdrabrennan á Íslandi. Hið rétta er hins vegar að hann var brenndur á Þingvöllum.
Páll hafði rist konu sinni helrúnir á ostsneið og sett smjör yfir. Þetta töldu menn að hefði dugað kerlingunni. Páll var frá Flóakoti, sem stóð fyrir neðan bæ hjá Stóruborg.
Fyrrum lágu alfaravegir úr Vesturhópi um Borgarbæina á vöðum eða ferju yfir Víðidalsá og þaðan á þjóðbrautina í utanverðum Víðidal.
Leiðir lágu með Hópinu fyrir norðan Refsteinsstaði og Miðhóp. Annar vegur lá hjá Enniskoti að Miðhópi. Þessir vegir komu saman litlu norðar. Áfram lá leiðin austur hjá Hólabaki um svonefnda Hólabakskeldu í gegnum Vatnsdalshóla og yfir Vatnsdalsá á Skriðuvaði.
Annar vegur lá frá Miðhópi og austur á melana milli Steinness og Haga og síðan út Ásagötur vestan Þingeyra og yfir um Húnavatn hjá Geirastöðum. Fyrir vestan Sveinsstaði liggur Hagavegur, fyrrum reiðgötur munka í Þingeyrarklaustri. Hann lá áfram fyrir norðan túnið á Þingeyrum og út á Þingeyrarsand.
Heiðargötur lágu frá Þverá upp Þverármúla og hjá eyðibýlinu Heiðarbæ. Síðan niður þar sem Kattarrófa heitir og með Katadalsá að bænum Katadal og áfram að Tjörn á Vatnsnesi. Vegur þessi þótti blautur og seinfarinn í múlanum. Kattarrófu nafnið er talið til komið vegna þess hversu vegurinn teygði úr sér líkt og rófa á ketti.
Úr Katadal lá leið um Engjabrekkur yfir í Þorgrímsstaðadal. Inn Þorgímsstaðadal lágu götur og um Miðtungu, en hún er á milli Ásgarðsdals og Ambáttardals. Um Miðtungu liggja gamlar götur suður Vatnsnesfjall um Háheiði, Leirkamb og Þrælsfell og kemur á leiðina að vestan og á Breiðabólsstað í Vesturhópi á miðjum Langahrygg.
Vestan í Háheiði og Leirkambi er Bani þverhnípt fyrir botni Gulldals. Þar á kirkjufólk frá Katadal 18 manns að hafa hrapað til bana.
Breiðabólsstaður í Vesturhópi er fornfrægt höfuðból og prestssetur. Þar bjó um aldamótin 1100 höfðinginn Hafliði Másson. Hann lét fyrstur manna færa íslensk landslög í letur. Þeir deildu hann og Þorgils Oddason á Staðarhóli í Saurbæ. Á Alþingi eitt sinn hjó Þorgils af Hafliða þrjá fingur. Vegna þessa krafðist Hafliði hárra fébóta. Af þessu tilefni varð til orðtakið: “Dýr myndi Hafliði allur, ef svo skyldi hver limur.”
Seinna var prentsmiðja á Breiðabólsstað en það var Jón Arason Hólabiskup, sem fékk hana hingað til lands og var hún first staðsett á Hólum. Með henni fylgdi sænskur prentmeistari Jón Matthíasson. Jóni þessum var veittur Breiðabólsstaður árið 1535 og flutti hann prentsmiðjuna með sér frá Hólum.
Á korti Björns Gunnlaugssonar frá 1844 virðist vera teiknuð leið frá Breiðabólsstað yfir að bænum Hamarsá á Vatnsnesi vestanverðu og eins frá Þverá að Hamarsá.
Heydalsleið lá frá Breiðabólsstað um Heydal og Langahrygg hjá Káraborg og niður að Hvammsbæjum. Þarna var gamla fjárrekstrarleiðin úr Vesturhópi yfir að Hvammstanga á haustin með fé til slátrunar.
Annar vegur lá vestur yfir fjallið frá Ósum og vestur að Katadal í Tjarnarsókn. Þarna var bæði bratt og grýtt og víða blautt.
Friðrik Sigurðsson sá sem myrti Natan Ketilsson til fjár var frá Katadal. Hann var ásamt vitorðskonu sinni Agnesi hálshöggvinn í Vatnsdalshólum 12. janúar árið 1830. Hún var 35 ára gömul en Friðrik tvítugur.
Þrístapar heitir þar sem þau voru tekin af lífi og eru þeir fyrir norðan aðal þjóðveginn. Þetta var síðasta aftakan á Íslandi. Síðan þá hefur mönnum ekki þótt viðeigandi að dæma fólk til dauða hér á landi. Hvernig er líka hægt að dæma fólk í eitthvað sem við vitum ekki hvað er? Við vitum svona nokkurn veginn hvað 16 ára fangelsi þýðir, en við vitum ekki hvað dauðinn er.
Natan Ketilsson bjó að Illugastöðum á Vatnsnesi vestanverðu. Um tíma bjuggu þau saman hann og Vatnsenda-Rósa og áttu þau börn saman. Hann þótti lagtækur smiður en virðist hafa tamið sér nokkuð kaldhæðnislegt lífsviðhorf ef marka má þessa vísu eftir hann.
Hrekkja spara má ei mergð,
manneskjan skal vera,
hver annarrar hrís og sverð.
Hún er bara til þess gerð.
Böðull við hina síðustu aftöku var Guðmundur Ketilsson bróðir Natans. Hann tók við jörðinni á Illugastöðum og var annálaður jarðabótamaður.
Ormsdalsleið lá upp frá Harastöðum í Vesturhópi um Ormsdalinn fyrir suðvestan Sótafell um Þröskuld og á Langahrygg. Þar mætti hún Heydalsleið.
Séra Ögmundur Sigurðsson lýsir götum á Vatnsnesi árið 1840. Hann kvartar undan því að þjóðarandinn til vegabóta sé ekki enn lífgaður þar um slóðir. Hann fullyrðir að fljótur hestur og seinfær geri sama gagn, menn komist hvort eð er ekki úr sporunum.
Ungur maður var undirritaður í brúarvinnu í Þorgrímsstaðadal yst á Vatnsnesi. Þar sem við vorum að vinna við brúargerðina kom stundum í heimsókn til okkar bróðir séra Sigurðar í Hindisvík, viðkvæmur gáfumaður. Hann spilaði listavel á orgel.
Þegar brúin var fullgerð var haldið kaffiboð fyrir okkur að Þorgrímsstöðum og spilaði Jóhannes þar á orgel undir borðum. Það snerti viðkvæman streng að sjá ellihruma fingur hans fikra sig eftir nótnaborðinu.
Sagt er að Jóhannes hafi verið í Menntaskólanum á Akureyri og dottið í höfnina þar nyrðra. Hann dó en var lífgaður við aftur að sögn.. Í staðinn fyrir ungan, efnilegan skólapilt vaknaði flugnæmur listamaður. Undir því oki lifði hann til hárrar elli.
Á efri árum gekk Jóhannes fjörur á Vatnsnesi og safnaði rekaviðarspýtum. Þeim raðaði hann kyrfilega í fjöruna, vildi hafa þar allt í röð og reglu rétt eins og á nótnaborðinu á orgelinu að Þorgrímsstöðum.
Niðurlag.
Kynni mín af Vestur-Húnavatnssýslu ná eins og að ofan greinir til unglingsáranna er ég var þar í brúarvinnu. Auk þess var ég í símavinnu í flokki Kjartans Sveinsssonar símaverkstjóra eitt sumar. Þá gengum við með símalínum heim á alla bæi alveg frá Brú í Hrútafirði og norður að Blönduósi. Það var þá sem ég náði fyrir alvöru tökum á kaffidrykkju sem var þó engan veginn eini drykkur okkar. Við drukkum líka mjólk auk annars. Mér telst til að þetta sumar hafi ég drukkið ekki minna en 450 kaffibolla gratís á sveitabæjum, sem við komum heim á til að líta á símtækið. Kleinurnar sem ég borðaði þetta sumar hafa ekki verið færri en 200 og annað eins af jólakökusneiðum. Þeir sem nenna geta svo umreiknað þetta á verði bensínstöðva. Það þætti áreiðanlega dágóð launauppbót í dag. Þetta var í þá daga og við sváfum í tjöldum heilu sumrin í síma- og brúarvinnunni, unnum, borðuðum og sváfum í miðri viku, en fórum á böll um helgar. Þess háttar æskuminningar eru dýrmætar.
Því meira sem ég kynnist pappírstígrum þjóðfélagsins í dag þeim mun vænna þykir mér um gömlu sveitamenninguna. Samt þurfti mannafla til að halda mér í sveit í nokkur sumur þegar ég var strákur af því að ég hafði svo gaman af að spila fótbolta.
Í þessari grein hefði ég viljað lýsa ánægjulegum stundum sem ég átti með Borgfirðingum á þessum slóðum sumarið 1997. Við komum ríðandi norður Grímstunguheiði og að Hnjúki í Vatnsdal. Síðan að Þingeyrum og við riðum um Þingeyrarsand og tókum land í Vaðhvammi. Svo riðum við hjá Aðalbóli og suður Tvídægru. Dagleiðir voru svona:
23. júlí Frá Húsafelli í Álftakrók.
24. júlí Úr Álftakrók í Haugakvíslarskála.
25. júlí Frá Haugakvíslarskála að Hnjúki í Vatnsdal. Gist í Galtanesi í Víðidal.
26. júlí Hvíldardagur og ekið um Vatnsnesið. Gist í Galtanesi.
27. júlí Frá Hnjúki í Vatnsdal um Þingeyrar og Þingeyrarsand hjá Borgarvirki að Galtanesi.
28. júlí Frá Galtanesi að Bjargarstöðum í Austurárdal.
29. júlí Frá Bjargarstöðum að Úlfsvatni.
30. júlí Frá Úlfsvatni að Húsafelli.
31. júlí Frá Húsafelli niður Bugana meðfram Reykjadalsá hjá Giljafossi að Hurðarbaki í Reykholtsdal.
Þarna uppi á heiðunum blasti við okkur Tröllakirkja í vestri og Eiríksjökull og Krákur á Sandi. Og mikið var gott að koma í skálann hjá Úlfsvatni eftir langan dag á hestbaki. Drottinn minn dýri, kaffisopinn og kræsingar undir lágnætti.
Kvöldfagurt var þarna við vatnið og veiðisælt mun það vera enda leituðu útilegumenn gjarnan þangað. Frá því segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er Hafliða á Aðalbóli lenti saman við útilegumann á Úlfsvatni.
Löngum þótti reimt þarna í gamla skálanum en okkur létu draugar í friði nema hvað einn sá til þess að sprakk á trússbílnum þannig að kvöldmatnum seinkaði.
Úr því minnst er á útilegumenn þá rifjast upp fyrir manni hversu margir urðu auðnuleysinu að bráð þegar svarf að þjóðinni. Þá var gott fyrir þetta fólk að leita í matarkistuna þarna uppi á heiðunum, glænýr silungur í forrétt og lambakjöt í aðalrétt. Margur stórborgarflækingurinn, sem sækir sér í dag súpudisk í góðgerðareldhúsin hefði sjálfsagt þótt sér vel borgið á Arnarvatnsheiðinni nema hvað svo kom veturinn, sauðfé allt komið til byggða og vötn ísilögð. Hvílíkt heljarmenni hlýtur Fjalla-Eyvindur að hafa verið að lifa af við þessar kringumstæður.