Hér er ritgerð er ég gerði fyrir sögu í MK. Þetta var valáfangi sem fjallaði um áhrifavalda mannkynssögunnar. Ég fékk líka 10 fyrir þessa :), og var sú einkunn áunnin, því ég hef aldrei lagt eins mikla vinnu í ritgerð.
Ég var líka með nokkuð mikið af myndum og nokkrar tilvitnanir, sérstaklega í Gunnar Dal.
Ritgerðin er nokkuð löng, en hún er fræðandi og ég vona að þið njótið góðs af henni.
Hún byrjar með lítilli örsögu eftir sjálfan mig……..




Ég geng eftir götum Aþenu, dýrlegustu borg veraldar. Veður er gott og allir eru hæstánægðir, því nýtt ár er gengið í garð (399 f. Kr.) og spámennirnir sögðu að Krónos og Demetra hefðu lofað góðu árferði.
Ég kem að Agóru, stórtorginu í Aþenu, og sé þar samankominn mikinn mannskara. Er þar mikið háreysti, menn tala ofan í hvern annan og eru mjög alvarlegir á svip. Uppi á ræðustalli stendur gamall maður, með mikið grátt hár og skegg. Hann klæðist slitnum, hvítum kufli og er almennt illa til fara. Við hlið hans situr ungur maður og skrifar allt það er gamli maðurinn segir. Greinilegt er að fólkinu líkar ekki við ræðu hans, og láta margir óyrði dynja á aumingja gamla manninum. Ég spyr þann sem er næst mér um hver þessi maður sé. Hann segir að sá gamli sé kolruglaður, hafi stundað það óralengi að áreita íbúa Aþenu með skrítnum spurningum og afkáralegum fullyrðingum. En nú hafi hann gengið of langt, farinn að heilaþvo unglinga okkar með þessari vitleysu. Menn eru orðnir ansi þreyttir á honum. Samt sem áður eru einstaka furðufuglar sem taka mark á honum, eins og þessi sem situr hjá honum og skrifar.
Nokkrum vikum síðar frétti ég að gamli maðurinn hafi verið tekinn af lífi, og er ég spurði um ástæðu þess, var svarið: „fyrir að spilla grískri æsku“.

Gamli maðurinn í örsögu þessari er Sókrates, hinn mikli heimspekingur, og skrifarinn er Platón, lærisveinn hans. Sókrates var ekki sá hefðbundni fræðimaður eins og þekktist á þessum tíma: að eyða öllum sínum stundum djúpt inni í bóksöfnum og grúska. Í staðinn var hann ávallt á götum úti og ræddi við menn um heima og geima.
Hann var með öðruvísi skoðanir og allt aðra lífssýn en annað fólk. Allar hans hugmyndir byggðust á efasemdum og leitinni eftir skilningi á manninum sjálfum og umheimi hans. Þessar hugmyndir voru byrjunin á heimspekinni, eins og við þekkjum hana í dag.
En eins og fram kemur í sögunni hér að ofan var hann tekinn af lífi. Ekki vitum við hvort ástæðan hafi verið skoðanir hans og áróður, eða hvort hann hafi verið að „spilla grískri æsku“, en eitt vitum við fyrir víst: hann lagði allt í sölurnar fyrir heimspekina, lét jafnvel lífið fyrir hana. Hann var frumkvöðull að henni og ruddi brautina fyrir komandi fræðimenn.
Sókrates skildi ekki nein rit eftir sig, heldur var það Platón, lærisveinn hans, sem skrifaði allt upp eftir honum
og festi síðan hugmyndir hans og kenningar á rit. Platón þróaði hugmyndirnar og bætti síðan við eigin kenningum. Var það síðan hlutverk besta og efnilegasta lærisveins hans að þróa þær enn frekar. Lærisveinninn var Aristóteles.

Ævi og störf Aristótelesar
Aristóteles fæddist árið 384 f. Kr. í borginni Stagira (Starró), á austurströnd Makedóníu, Þrakíu. Borgin var í raun grísk, því hún var byggð af grískum landnemum frá Andros og Kalkís. Hann var af mjög ríkum menntamannaættum í báða ættliði. Faðir hans hét Nikómakos og var læknir konungs Makedóníu, Amyntas II (einnig er talið að móðir Aristótelesar hafi verið læknir). Aristóteles var því í miklu sambandi við konungsfjölskylduna, og kom það honum vel síðar.
Frá 17 ára aldri, stundaði Aristóteles nám og kenndi við Akademíu Platóns í Aþenu í 20 ár. Platón, sem skrifaði meðal annars Ríkið, var mikilsvirtur heimspekingur og fræðimaður, hafði verið lærisveinn Sókratesar. Aristóteles lagði sig allan fram í Akademíunni, því hann vildi samboðinn öðrum menntamönnum, þar sem Aþenubúar litu á utanaðkomandi fólk sem barbara (villimann), hvort sem þeir voru af ríkum eða fátækum ættum. Aristóteles las svo mikið að Platón var farinn að kalla hann „gáfur“ skólans. Ekki leið á löngu þar til hann var farinn að vita meira en lærifaðir sinn, og aðrar hugmyndir og kenningar farnar að læðast inn í huga hans. Brátt fór hann að vera ósammála læriföður sínum um hinar ýmsu hugmyndir og kenningar. Sérstaklega var sá munur á þeim að Platón taldi yfirnáttúruleg öfl stjórna heiminum og manninum, en Aristóteles var miklu jarðbundnari, og taldi að allt ætti sér orsök og afleiðingu.
Eftir dauða Platóns (347 f. Kr.) fluttist Aristóteles til Assos, borgar í Litlu-Asíu. Maður að nafni Hermias réði þar ríkjum, en hann var góðvinur Aristótelesar, og hafði einnig verið lærisveinn Platóns. Aristóteles vann sem ráðgjafi hans um nokkurt skeið, og leiddi það til þess að hann giftist frænku Hermiasar, Pyþíu (auk þess að vera frænka hans var hún líka ættleidd dóttir hans). Pyþía var einungis 18 ára gömul, en Aristóteles 37 ára. Hún ól honum einn son, er þau nefndu í höfuðið á föður Aristótelesar.
Sömmu eftir brúðkaup þeirra fékk Aristóteles fékk bréf frá Filippusi II Makedóníukonungi (syni Amyntasar II) um að hann hefði eignast son. Bréfið segir m.a.: „Filippus til Aristotelesar, heilsan. Vitið að mér er fæddur sonur. Því er ég þakklátur guðunum, ekki eins mjög fyrir að drengurinn fæddist, sem hitt, að hann fæddist á yðar dögum.
Ég er að vona, að þér kennið honum og þjálfið hann, þá muni hann reynast oss verður viðviðtakandi kórónunnar.“
Hinn umræddi sonur Filippusar konungs var enginn annar en Alexander mikli. Aristóteles gerðist lærifaðir hans, en það hafði verið ákveðið löngu áður að hann skyldi verða lærifaðir sonar konungs. Frá 13 ára aldri til ca. 20 ára aldurs, lærði Alexander hjá Aristótelesi. Á þeim tímamótum tók hann við völdum í Makedóníu.
Aristóteles fór þá, eftir langt hlé, aftur til Aþenu. Vonaðist hann til þess að fá stöðu hjá Akademíunni, en var þar fyrir við stjórnvölinn maður að nafni Xenókrates. Sá var mikill spekingur og hafði áunnið sér traust Aþenubúa. Aristóteles lét ei hendur fallast, heldur stofnaði sinn eigin skóla Lykeion undir fjallinu Lykabettos. „Orðið lyceum, sem oft er notað í merkingunni menntaskóli, á uppruna sinn að rekja til þessa nafns.“ Þar kenndi hann nánast allt til dauða dags. Áður en hann lést, fór hann til fæðingarborgar sinnar, þá orðinn mjög sjúkur maður.

Áhrif Aristótelesar, fyrr og síðar
Allir sem hittu Aristóteles heilluðust af speki hans og visku.
Hann var mjög vinsæll meðal fólks og átti marga nána vini. Hann stundaði Symposium mikið (samdrykkjan, þar sem menn drukku saman og skeggræddu hlutina), og skrifaði rit um það.
Dæmi um áhrif hans á menn má nefna þegar Hermias, tengdafaðir hans, var handtekinn af Persum og pyntaður til þess að uppljóstra um áætlanir Makedóníukonungs. Það gekk ekki sem skildi því Hermias þagði sem steinn.
Var hann þá krossfestur og voru síðustu orð hans: „ „Segið vinum mínum félögum, að ég hafi ekki gert neitt, sem ekki er samboðið heimspekinni.“ Hermías lét lífið fyrir þá hugsjón Aristótelesar, um að grísk heimspeki bærist um heiminn í kjölfar grískra sigra.“
Aristótelesar hafði mikil áhrif á Alexander, fyrir utan það að Alexander var mjög erfiður viðureignar. Aristóteles þurfti að beita ýmsum brögðum til þess að hafa Alexander góðan. T.d. blekkti hann Alexander með því að láta sem hann hefði átt hugmyndir að kenningum og uppgötvunum sjálfur. Í rauninni bætti það gráu ofan svart, því alla ævi byggðist mikilmennskubrjálæði Alexanders upp á því að hann væri guð og yfir alla aðra hafinn. Talið er að móðir hans, Ólympía, hafi sagt honum að snákur hefði barnað hana, og því væri hann af guðum borinn. Einnig er talið að dauði Filippusar II, föður Alexanders, hafi verið að undirlagi Alexanders og móður hans.
Segja má að Alexander hafi verið erfiðasta verkefni Aristótelesar, því hann taldi sig bera ábyrgð á honum þegar Alexander herjaði á aðrar þjóðir. Aristóteles fylgdist með fréttum af landvinningum Alexanders. Hann varð stoltur þegar hann heyrði að Alexander lagði áherslu á að breiða út gríska menningu, en það var eitt af því sem hann hafði lagt höfuðáherslu á að kenna honum. En þegar fór að líða á stríðið fór Alexander út fyrir mörkin. Hann varð fyrir öðrum menningaráhrifum, fór að líta á sig sem guð og lét aðra tilbiðja sig sem slíkan. Þegar Aristóteles frétti þetta varð hann mjög þungur í skapi og veiktist. Hann hafði miklar áhyggjur af Alexanderi, því hann hafði kennt honum allt sem hann kunni, bæði stjórnmálalega, heimspekilega og trúlega einnig herkænsku.
Alexander mikli lést árið 323 f. Kr., aðeins 33 ára gamall. Margar kenningar eru til um orsök dauða hans. Ein er sú að hann hafi fengið áfengiseitrun, því hann drakk óstjórnlega mikið. Önnur er sú að hann hafi dáið af völdum sjúkdóma, lungnabólgu eða malaríu. Þó er til ein kenning sem segir að honum hafi verið byrlað eitur, að undirlagi Aristótelesar og öðrum fræðimanni, er hét Antipater.
Aristóteles hafði sem sagt gífurleg áhrif á samtíma sinn m.a. með því að uppfræða eitt mesta mikilmenni sögunnar.
Eftir dauða Alexanders þurfti Aristóteles að þola ofsóknir, því bylting var gerð í Aþenu. Hann þurfti brátt að flýja, eins og áður hefur verið sagt, til fæðingarborgar sinnar, Stagiru. Þar lést hann árið 322 f. Kr.
Með ósigri Alexanders hvarf sá draumur Aristótelesar um að útbreiða gríska menningu, og tók hann þau vonbrigði með sér í gröfina. Það hafði örugglega ekki hvarflað að honum að rit hans og kenningar ættu eftir að umbreyta heiminum.
Öldum saman voru kenningar Aristótelesar, og annarra grískra spekinga, grunnur að þekkingu í Evrópu, og hélst það þannig langt fram eftir miðöldum. Það var ekki fyrr en í endurreisninni á 16. og 17. öld að menn fóru að bæta ofan á framlag grísku heimspekinganna.
Í dag er grunnur nánast allra fræðigreina byggður á ritum Aristótelesar. Kenningar hans eru ennþá fullgildar í okkar nútímasamfélagi.


Rit- og fræðistörf
Aristóteles var mjög afkastamikill á öllum sviðum. Maður að nafni Andrónikos frá Rhodos gaf út rit Aristótelesar um 60 f. Kr., og taldi hann þau vera um eitt þúsund að tölu. Ritin varðveittust, með einskærri heppni, því eftir dauða Aristótelesar arfleiddi hann öll rit sín einum lærisveina sinna, Þeófrastos. Eftir dauða hans fór maður að nafni Neleus með þau til Litlu-Asíu og gróf hluta þeirra í helli, þar sem þau skemmdust. Einnig seldi hann mikinn hluta til Egyptalands. Bókasafnari fann þau 200 árum eftir dauða Aristótelesar og komust þau síðan í hendur rómverks hershöfðingja. Flökkuðu þau vítt og breitt þangað til að Andrónikos gaf þau loks út.
Ritin sem varðveittust eru talin vera vísindalegir fyrirlestrar Aristótelesar við skólann við Lykeum. Textinn er hrár og glósukenndur, ólíkt ritum Platóns. Samt sem áður eru ritin mikilvægar heimildir og fræðibækur.
Kennsluaðferðir Aristótelesar voru einstakar. Hann var mikið úti fyrir með nemendum og stundaði rannsóknir með þeim. Saman komust þeir að niðurstöðu, kennarinn og nemandinn. Aristóteles rannsakaði og kenndi nánast allar fræðigreinar sem til eru, nema það að hann lagði minnstu áherslu á stærðfræði. Hann taldi að stærðfræðin gæfi okkur engin svör, við getum reiknað endalaust og leitað, en leitin endar aldrei. Það endar með því að maðurinn fer út fyrir sjálfan sig og gleymir því mannlega. Það er eitt af megininntökum í kenningum Aristótelesar, að maðurinn sé mannlegur, ekki yfirnáttúrulegur. Einnig kom hann fram með þá kenningu að allt væri gert úr svokölluðum frumefnum, og efnin væru stoð alls, þau væru byrjunin og endirinn.
Á meðan Alexander var í stríði fékk Aristóteles oft sendingar frá honum, ýmsar fræðibækur og náttúrugripi. Með því, og rannsóknum sínum og nemenda sinna, tókst honum að skrifa merk rit um nánast allt. Helstu fræðigreinar sem hann lagði áherslu á voru: læknisfræði, dýrafræði, jarðfræði, landafræði, guðfræði, fagurfræði, sálfræði, siðfræði, stjörnufræði, eðlisfræði, stjórnmálafræði, grasafræði, rökfræði og síðast eilítið um stærðfræði.
Rökfræðin telst vera hans helsta afrek, og er hann líka kallaður „faðir rökfræðinnar.“ Hann skrifaði sex binda verk um rökfræði er kallast „Oragon“ (skoðun). Rökfræðin byggist upp á þeirri hugmynd „að eðli heimsins sé þannig, að hægt sé að þekkja hann, og eðli mannsins sé þannig, að hann geti þekkt veröldina og mótað þessa þekkingu í skýr hugtök og orð.“ Sem sagt maðurinn getur ekki sagt hundur eða skilgreint hugtakið hundur fyrr en hann hefur séð hund. Fyrsta skrefið í átt að rökfræði lá hjá Sókratesi, því hann vildi skilgreina öll hugtök og hluti. Platón fékk tækifæri til að þróa rökfræðina, en hann var of huglægur, of upptekinn af yfirnáttúrulegum öflum. Rökfræðin er mjög flókið fyrirbæri, sem ómögulegt er að útskýra hér í stuttu máli.


Það er ótrúlegt hvað Aristóteles var afkastamikill, og framlag hans til allra fræðigreina gífurlegt. Fyrir 2300 árum sat hann og spáði í hluti sem er okkur nánast ógjörningur að skilgreina. Hann færði okkur mikla visku um manninn, huga hans og gjörðir. Hugmyndir okkar um samfélagið væru örugglega öðruvísi ef Aristóteles hefði ekki verið til, því flestar fræðigreinar eiga rætur að rekja í rit hans.
En hvernig gat þessi maður, fyrir svo löngum tíma, hugsað um og útskýrt þessa hluti? Var hann svona einstakur, eða bauð gríska menningarsamfélagið upp á það að geta afrekað þetta? Þetta er einmitt ráðgátan um Aristóteles, hvað viska hans og speki var dularfull og „ómannleg“, sérstaklega á hans dögum.
Þrátt fyrir það er hann einn af þeim mönnum mannkynssögunnar sem hefur fært okkur hvað mest, bæði andlega og fræðilega. Við eigum Aristótelesi margt að þakka, og er hann án efa einn mesti áhrifavaldur mannkynssögunnar.



Emil Hjörvar Petersen



Heimildaskrá

Aristóteles. 335-30 f. Kr. Um sálina. Sigurjón Björnsson íslenskaði og skrifaði formála og inngang. 1985. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.

Bárður Jakobsson. 1973. Afburðamenn og örlagavaldar. Æviþættir 20 mikilmenna sögunnar, II bindi. Ægisútgáfan, Reykjavík.

Cranston, Maurice, ritstjóri. 1988. Hugsuðir stjórnmála. Haraldur Jóhannsson íslenskaði. Akrafjall, Reykjavík.

Gunnar Dal. 1981. Grískir heimspekingar. Víkurútgáfan, Reykjavík.

Thomsen, Rudi. 1988. Saga mannkyns ritröð AB, 2. bindi. Samfélög hámenningar í mótun, 1200-200 f. Kr. Gísli Jónsson íslenskaði.
Almenna bókafélagið, Reykjavík.

Af netinu
http://www.bigeye.com/philoso.htm
http://www-g roups.dcs.st-and.ac.uk/~history/Mathematicians/Aristotl e.html
http://www.newadvent.org/cathen/01713a.htm
htt p://www.visindavefur.hi.is/index.asp?url=svor/svar_9059 .html
(hér má sjá útskýringu á rökfræði).