Fann hérna gamla ritgerð um Gústa gamla Svíakonung, tilvísanir sjást ekki heimildarsskráin er í lokin.

Gústaf II Adolf

Svíþjóð telst sjaldnast til helstu stórvelda veraldarinnar í augum nútímamannsins og íburðarmiklar sögur af herstyrk Svía eru fáheyrðar. Sú var þó tíð að Svíar gátu með stolti talið sig meðal stórþjóða Evrópu, sú tíð var hins vegar stutt og mestmegnis einum manni að þakka. Sá maður hét Gustavus Adolphus, betur þekktur sem Gústaf II Adolf.

Gústaf II Adolf fæddist þann 9.desember 1594 og var elsti sonur Karls IX og seinni eiginkonu hans Kristínar af Holstein. Eins og aðrir konungssynir Evrópu hlaut hann einstakt uppeldi. Hann lærði meðal annars grísku, latínu, trúfræði og hernaðarfræði. Einkum hreifst hann þó af sögu og dáðist hann mjög af þeim sögum sem fóru um forfeðra hans, hina miklu víkinga, sem jafnan voru búnir að drýgja eina ef ekki tvær hetjudáðir fyrir morgunmat. Þeir höfðu vakið ótta hvar sem þeir fóru og verið í fararbroddi í hinum ýmsu efnum. Það má því segja að strax á unglingsárum hafi mátt greina hvert framhaldið yrði, því Gústaf Adolf fór snemma að dreyma um eigin hetjudáðir, og sjá fyrir sér mikla landvinninga í syðri hlutum álfunnar. Þetta voru þó fyrst um sinn aðeins draumórar heldur en nokkuð annað því staða Svíþjóðar var á þessum tíma mjög veik og landið ekki líklegt til stórræða.
Bæði á 16. og 17.öld má segja að Svíþjóð hafi verið á milli tveggja elda. Sífellt var hætta á stríði eða átökum við annars vegar Norðmenn í vestri og Dani í suðri og hins vegar Rússa í austri. Svíar áttu oft á tíðum lítið land að sjó og þurftu þá gjarnan að greiða Dönum og/eða Rússum tolla fyrir aðgang að helstu höfnum og siglingaleiðum í nágrenninu.
Er Karl IX, faðir Gústaf Adolfs, féll frá árið 1611 var staða Svíþjóðar allt annað en góð, og hann eftirlét syni sínum erfið verkefni. Landið var í styrjöld gegn Dönum og vegnaði hörmulega. Sænsku herirnir reyndust algjörlega ófærir um að mæta þeim dönsku, hvort sem á landi eða á láði. Ekki bætti svo úr skák að í Rússlandi barðist stór hluti hersveita Svía við Pólverja, hersveit sem var sárlega saknað á heimavígstöðvunum.
Gústaf II Adolf var aðeins á sautjánda aldursári er faðir hans féll frá, og því ekki enn orðinn lögráða. Kom það því í hlut ríkisráðs Svíþjóðar að stjórna landinu, og hafa hyggjuvit fyrir hinum unga konungi fyrstu árin. Formaður þessa ráðs hét Axel Oxenstierna og var hann upp frá þessu einn nánasti ef ekki sá nánasti stuðnings –og aðstoðarmaður Gústafs II Adolfs.
Fyrsta verkefni hins nýkrýnda konungs var að draga landið úr þeim styrjöldum sem það var þáttakandi í, áður en þær myndu ríða landinu að fullu. Fyrst í forgangsröðinni var að semja frið við Dani áður en sjálfstæði landsins yrði ógnað. Friður náðist á þeim vígstöðvum á endanum en það kostaði Svía miklar fórnir sem kostuðu bæði háar peningaupphæðir og mikið land.
Í austri áttu Svíar ennþá í barráttu við Pólverja og var mönnum orðið ljóst að sú barrátta myndi litlum árangri skila. Bæði voru Pólverjar of erfiðir viðureignar og einnig voru Rússar, þótt þeir væru of veikburða til að geta aðhafst eitthvað, farnir að líta þennan stríðsrekstur á þeirra landi óhýru auga. Grunnt var einnig á því góða milli Rússa og Svía eftir að hafa eldað grátt silfur saman um árabil. Lá því mikið á fyrir Svía að stöðva sókn Pólverja og búa svo um hnútana að ekki þyrfti að hafa stórlegar áhyggjur af austurvígstöðvunum, í bili að minnsta kosti. Eftir mikið japl við samningaborðið þar þeir kumpánar Gústaf II Adolf og Axel Oxienstierna stóðu hart á sínu, árið 1617 náðust loksins friðarsamningar við Rússsa og Pólverja, sem síðar voru kenndir við borgina Stolbov.
Það má því segja að hinn ungi konunugur hafi farið vel af stað og náð að bjarga Svíþjóð úr hinum miklu ógöngum sem faðir hans hafði komið landinu í. Fékk nú Svíþjóð nokkur ár til að sleikja sárin en sá tími var þó fljótur að líða. Trúarbragðarstyrjöld var nú komin í gang í Evrópu sem setti Svía en á ný í klípu. Átti Gústaf II Adolf sem mótmælandi að koma til hjálpar trúbræðrum sínum sem áttu undir högg að sækja, einkum í Þýskalandi, eða átti hann fyrst og fremst að vera sínum eigin þegnum trúr og bera hag Svíþjóðar fyrir brjósti? Þetta virðist hafa vafist nokkuð fyrir Gústaf II Adolf og má telja líklegt að ef friðurinn við Dani og Pólverja hefði verið á traustum grunni byggður hefði Svíþjóð gengið til liðs við trúbræður sína sunnar í álfunni. En eins og staðan var ákvað Gústaf II Adolf að halda sig til hlés, og má fyrir því helst telja tvær ástæður: landið var undir stöðugri ógn frá Dönum og Pólverjum, og var heldur engan veginn búið undir að taka þátt í stórstyrjöld.
En árið 1621 fór lukkuhjólið að snúast Svíum í vil. Danir höfðu ákveðið að blanda sér í áðurnefnda trúarbragðastyrjöld, sem er betur þekkt sem Þrjátíu ára stríðið, og Pólverjar höfðu flækst í styrjöld við Tyrki og beðið þar mikinn ósigur. Tækifærið sem bauðst var of gott til að láta það framhjá sér fara, Danir voru ekki áhyggjuefni lengur og án þess að hika réðist Gústaf II Adolf með heri sína á vængbrotna Pólverjanna og hafði þar auðvelda sigra, og náði brátt Riga, einni mikilvægustu borg Eystrasalts, á sitt vald. Er þetta almennt talinn fyrsti mikli sigur Gústafs II Adolfs, og markar hann upphafið á þeirri miklu sigurgöngu sem hans beið. Og til þess að gera langa og viðburðaríkasögu stutta, þá unnu Svíar á næstu árum fjölmarga stórglæsilega sigra.
Á næstu árum magnaðist styrjöldin í Evrópu og brátt fór að verða augljóst að Svíþjóð myndi fyrr eða síðar dragast inn í hana. Gústaf II Adolf var þó varkár í öllum slíkum hreyfingum, sérstaklega eftir að hann sá hvernig Dönum vegnaði, en þeir biðu þar mikinn ósigur árið 1626. Auk þess hafði styrjöldin við Pólverja nú tekið sig upp aftur.
Árið 1629 var það þó ekki umflúið lengur. Uppgangur kaþólikka í Þýskalandi, eða Hinu heilaga rómverska keisaradæmi, eins og það hét þá, var orðin mikill og mótmælendur farnir að horfa í kringum sig eftir hjálp. Þar á meðal horfðu þeir norður til Svíþjóðar, en Gústaf II Adolf taldi landið enn ekki reiðubúið til að blanda sér í málið. Þá barst hjálp úr óvæntri átt. Richeliau kardináli, sem var kaþólskur, fannst orðið nóg um uppgang trúbræðra sinna í Þýskalandi og óttaðist að völd keisarasans yrðu of mikil, og með pólitísk sjónarmið að leiðarljósi fremur enn trúarleg, kom hann á vopnahléi milli Svía og Pólverja og útvegaði kardinálinn svo Gústaf II Adolf fjármagn til að hann gæti skorist í leikinn.
Í fyrstu voru markmið Svíakonungs einungis þau að verja mótmælendahéruðin í Þýskalandi, en eftir stanslausa sigurgöngu fyrstu árin kom að því að hann þurfti að endurmeta aðstæður, hann hafði lagt undir sig stóran hluta Þýskalands og var því spurningin hvort hann ætti núna að nema staðar eða halda áfram. Hann valdi síðari kostinn og setti stefnuna á að komast til Vínar árið 1633.
Þýskalandskeisari virðist hafa grunað að Gústaf konungur hefði sett stefnuna á Vín því að hann kallaði aftur til starfa Wallenstein hershöfðingja, sem hafði verið honum drjúgur nokkrum sinnum áður, og sendi hann á móti Svíakonungi. Herirnir tveir mættust við Lutzen í byrjun nóvember árið 1632. Svíar höfðu þar sigur eftir hatramma barráttu, en sá sigur var dýru verði keyptur. Þann 6.nóvember hafði Gústaf II Adolf, fallið í bardaga eftir að hafa leitt riddaralið sitt fram á vígvöllinn. Tveimur árum síðar leið veldi Svía undir lok.

Gústaf II Adolf var hvorki venjulegur konungur né venjulegur hermaður. Hann gerði ríki sem hafði út litlu að moða að hernaðarlegu stórveldi sem hafði um tíma örlög Evrópu í hendi sér. Til þessa liggja margar ástæður, en sú helsta er sú að hann notaði herlið sitt á allt annan máta heldur en aðrir og hefur oft verið nefndur faðir nútíma hernaðar. Hann raðaði liði sínu öðruvísi og færanlegar upp, hann þjálfaði hermenn sína í meðferð skotvopna þannig að þeir gátu skotið tveim til þrem skotum meðan aðrir skutu einu, og svo notaði hann minni fallbyssur sem auðvelt var að hlaða og færa úr stað, meðan aðrir notuðust við þunglamalega og stóra járnklumpa. Hann var því mikill hugsuður að viðbættu því að hann naut hylli manna sinna og var nær því að vera goð í augum þeirra heldur en nokkuð annað. Eftir dauða Gústafs II Adolf ákvað sænska þingið að hann skyldi vera þekktur undir nafnbótinni Gústaf II Adolf hinn mikli.

P.S. Ég á flotta ritgerð um uppreisnina á Kúbu, sem ég gæti sent inn, en hún er nokkuð löng, svo ég myndi vilja vita hvort einhver áhugi væri fyrir henni fyrst.


Heimildaskrá

Göransson, Göte. Svensk Historia. Bokhuset. Höganas, 1984.
Roberts, Michael. Gustavus Adolphus. 2.útgáfa. Longman. London og New York, 1992.
Weibull, Jörgen. Swedish History in outline. The Swedish Institute. Stokkhólmur, 1993.
http://www.fortunecity.com/victorian/riley/787/30/
htt p://www.users.wineasy.se/dg/gustafad.htm


Kveðja, Prair.