Ég fann í pússi mínu aðra ritgerð eftir snillinginn sjálfan mig og ákvað að deila meistaraverkinu með ykkur. Þetta er hroðaleg langloka og sennilega nennir ekki nokkur lifandi maður að lesa þetta allt en “well, whatever nevermind” eins og skáldið sagði. Því miður falla allar neðanmálsgreinar og þar með heimildatilvísanir út í pastinu inn á huga.

góðar stundir.
obsidian


* Aðdragandi síðari heimsstyrjaldar *


Efnisyfirlit

1. Inngangur
2. Friðarsamningarnir 1919
3. Atburðir í Evrópu á árunum 1918-33
4. Framvinda mála í Evrópu á árunum 1933-39
5. Meginkenningar fræðimanna
6. Kenning A. J. P. Taylors
7. Niðurstöður
Heimildir



1. Inngangur

Það virðist stundum svo að saga mannkyns sé saga átaka og styrjalda fyrst og fremst. Þegar sagan er skoðuð virðast menn alltaf bera niður á átök einhvers staðar í heiminum. Jafnvel hellaristur frummanna greina frá miklum bardögum manna fyrir þúsundum ára. Maðurinn virðist því oft hafa tilhneigingu til að leysa deilumál sín með ofbeldi, fremur en með friðsamlegum hætti.

Orsakir þessa eru af ýmsum toga. Ekki er rúm til að fjalla um þær almennt hér, enda væri það efni í heila ritgerð, heldur er ætlunin að greina frá aðdraganda einna mestu átaka er orðið hafa á seinni tímum, heimsstyrjaldarinnar síðari. Einblínt verður á atburði í Evrópu á tímabilinu 1918 til 1939 en ekki fjallað um upptök átakanna annars staðar á jarðkringlunni.


2. Friðarsamningarnir 1919

Þegar “Ófriðnum mikla”, styrjöldinni sem háð var til að binda endi á allar styrjaldir, lauk árið 1918 með því að Þjóðverjar báðu um vopnahlé var meginland Evrópu sundurtætt af hans völdum. Norðurhéruð Frakklands höfðu orðið verst úti og skotgrafir hlykkjuðust þar um milli sprengjugíganna í kílómetratali. Blómi þjóðanna hafði látið lífið í átökunum en alls er talið að um 8.5 milljónir hermanna hafi fallið í stríðinu og eru þá ótaldir allir þeir borgarar sem létust. Að lokinni þessari slátrun var það hlutverk stjórnmálamanna sigurvegaranna að ákveða makleg málagjöld fyrir þá sigruðu en það var hvorki létt verk né löðurmannlegt þar sem þjóðirnar greindi á um hvaða stefna væri rétt í þeim málum. Friðarsamningarnir, ef svo skyldi kalla, voru skilmálar sem sigurvegararnir, Bretar, Frakkar Bandaríkjamenn, Belgar og Ítalir buðu hinum sigruðu, Þjóðverjum að samþykkja eða hafna skilyrðislaust. Ekkert samráð var haft við Þjóðverja um skilmálana, ekki var einu sinni reynt að koma á málamyndaviðræðum við þá. Skilmálarnir voru algerlega einhliða og ekki var reynt að dylja það.

Frakkar voru geysiharðir í afstöðu sinni til Þjóðverja og töldu að það eina raunhæfa í stöðunni væri að mylja þá efnahagslega og hernaðarlega. Bretar voru ekki eins óvægnir í afstöðu sinni en fylgdu frumkvæði Frakka og mæltu ekki móti sjónarmiðum þeirra þó þeir drægju nokkuð úr. Bandaríkjamenn með Woodrow Wilson og hans frægu 14 punkta fremstan í flokki létu á endanum allt undan Frökkum og var fátt í skilmálunum sem samræmdist punktum Wilsons. Samningarnir miðuðust við efnahagslegt og hernaðarlegt niðurbrot Þýskalands.

Skilmálarnir sem bornir voru á borð fyrir Þjóðverja árið 1919 fólu aðallega í sér fernt sem þeim var erfitt að sætta sig við.

Í fyrsta lagi var Þýskaland svipt landi á alla vegu. Í vestri voru héruðin Elsass og Lothringen (á frönsku Alsace og Lorraine) færð til Frakka á ný en þau höfðu lengi verið bitbein þjóðanna tveggja (síðast hertekin af Þjóðverjum 1871), og héruðin Eupen og Malmédy fengu Belgar. Í austri fengu Litháar hafnarborgina Memel, og Pólverjar fengu Posen og hluta af Austur-Prússlandi. Hafnarborgin Danzig (á pólsku Gdansk) var gerð að frjálsri borg undir vernd Þjóðabandalagsins til að Pólverjar fengju aðgang að Eystrasalti. Alls minnkaði Þýskaland um 65.000 ferkílómetra og íbúum fækkaði um hartnær sjö milljónir. Auk þessa var nýlendum Þýskalands skipt milli sigurvegaranna eða þær settar undir stjórn Þjóðabandalagsins.

Í annan stað var þýski herinn takmarkaður við 100.000 manns og engin þungavopn mátti hann hafa. Sjóherinn var takmarkaður við skip undir 10.000 tonnum og enga kafbáta máttu Þjóðverjar eiga. Þeir máttu ekki hafa flugher og til að kóróna þetta allt saman var þýska herráðið leyst upp, að sögn til að eyða síðustu leifum þess sem almennt var kallað ‘prússneskur hernaðarandi’. Þessi takmörkun á herstyrk Þýskalands var í samningunum réttlætt með því að hún væri nauðsynleg til að hægt væri að koma á alþjóðlegri afvopnun. Ekkert slíkt fylgdi þó á eftir.

Í þriðja lagi var kveðið á um að Þjóðverjar skyldu greiða stríðsskaðabætur til bandamanna og skyldu þær samkvæmt samningunum ekki einungis vera bætur fyrir veraldlegt tjón, svo sem á mannvirkjum og landi, heldur var einnig leyfilegt að krefjast bóta til greiðslu á stríðseftirlaunum (‘war pensions’). Til að ákveða upphæð bótanna var sett á laggirnar nefnd skipuð fulltrúum sigurvegaranna og komst hún að þeirri niðurstöðu (er kynnt var 1921) að fjárhæð skaðabótanna skyldi vera 132 milljónir gullmarka. Ekki voru allir sammála um að þetta væri rétta leiðin til bjartrar framtíðar og einn þeirra var breski hagfræðingurinn John Maynard Keynes, sem gagnrýndi stríðsskaðabæturnar 1919 og taldi þær allt of háar miðað við raunverulegt tjón. Þýskaland gæti ekki greitt þvílíkar fjárhæðir og yrði því í eilífum vandræðum með greiðslur. Afleiðingar þess gætu orðið að ekki reyndist mögulegt að endurreisa það markaðs- og hagkerfi sem Evrópuþjóðir bjuggu við fyrir 1914 því að mikilvægasti burðarásinn í slíku kerfi þyrfti að vera sterkt Þýskaland. Síðar kom á daginn að Keynes hafði á réttu að standa, skaðabæturnar voru allt of háar og á árunum milli stríða var eitt aðalviðfangsefnið fólgið í því að létta greiðslubyrði Þýskalands og lækka fjárhæðina frá upphaflegu tillögunum.

Síðast en ekki síst var í samningunum ákvæði, sem var grundvöllur kröfu bandamanna um stríðsskaðabætur, og kvað á um ábyrgð Þjóðverja og bandamanna þeirra á stríðinu og öllu því tjóni sem bandamenn urðu fyrir á meðan á því stóð. Fyrirlitning á þessu ákvæði átti sér engin takmörk og þýska þjóðin taldi að sökin lægi jafnframt hjá bandamönnum. Ekki leið á löngu þar til almenningsálitið varð gersamlega andsnúið samningunum og margir töldu að þjóðin hefði verið svikin af veiklyndum stjórnmálamönnum. Þjóðverjar höfðu beðið um vopnahlé en ekki gefist upp og sýndist þjóðinni sem herinn hefði horfið af vígstöðvunum ósigraður. Þetta var rangt því að herráðið hafði tjáð keisaranum að stríðið væri tapað áður en farið var fram á vopnahlé. Þegar herinn marseraði heim af vígstöðvunum virtist almenningi samt sem áður að þar færi ósigraður her og að sjálfsögðu gerðu ráðamenn í Þýskalandi ekkert til að draga úr þeirri trú manna. Í ljósi þessa er vel skiljanlegt að þjóðinni hafi þótt súrt í broti að þurfa að gangast undir Versalasamningana. Þjóðverjar hófu því strax að reyna að draga úr áhrifum þeirra og fá bandamenn til að endurmeta þá. Svo virtist sem Frakkar væru þeir einu sem vildu viðhalda samningunum. Bandaríkjamenn skiptu sér lítið af framkvæmd og efndum samningsins eftir 1920 og Bretar voru hliðhollir endurmati. Samningarnir voru því byggðir á veikum grunni og Þjóðverjar voru í sterkri stöðu gagnvart Frökkum hvað varðaði endurmat þeirra.

En friðarsamningarnir 1919 snerust ekki einungis um Þýskaland. Einnig varð að gera eitthvað í málum Austur-Evrópu þar sem allt var gerbreytt frá því sem áður var. Austurríki-Ungverjaland var fallið, Rússaveldi hafði dregið sig út úr stríðinu og vantraust ríkti milli ráðstjórnarinnar þar og ‘auðvaldsríkjanna’ í vestri. Komið var á nýrri ríkjaskipan í Mið- og Austur-Evrópu við friðarsamningana og eftir þá breytingu voru engin landamæri í Austur-Evrópu eins og þau voru fyrir 1914. Átta ríki skiptu nú milli sín því sem hafði verið land eða áhrifasvæði stórveldanna þriggja fyrir stríð: Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Tékkóslóvakía, Finnland, Ungverjaland og Asturríki. Serbar, Króatar og Slóvenar á Balkanskaganum voru sameinaðir undir merkjum Júgóslavíu og önnur ríki eins og Rúmenía og Búlgaría annaðhvort juku við sig landi eða misstu land í hendur hinna nýju ríkja. Allt var þetta gert til að ná jafnvægi og stöðugleika í Evrópu. En það var hægara sagt en gert og fljótlega eftir samningana logaði Austur-Evrópa í landamæradeilum.


3. Atburðir í Evrópu á árunum 1918-33

Þegar vopnahléssamningarnir sem bandamenn settu fram í Versölum höfðu verið undirritaðir var styrjöldinni formlega lokið. Þó voru ekki allir endar hnýttir enn. Samningarnir voru ekki byggðir á nægilega traustum grunni til að geta verið grundvöllur friðar í álfunni, enda fór svo að um varanlegan frið var ekki að ræða. Þó að Þýskaland og Ráðstjórnarríkin væru ekki til stórræðana fyrst eftir stríðið þá höfðu þessi stórveldi (ásamt Austurríki-Ungverjalandi) haft mikil áhrif og ítök í Austur-Evrópu og þótti Vestur Evrópumönnum ekki ólíklegt að í framtíðinni reyndu þau að sölsa hana undir sig á ný. Eftir því sem leið á millistríðsárin og stórveldin tvö sóttu í sig veðrið, varð því nauðsynlegra fyrir Pólverja og Tékkóslóvaka að standa saman gegn þeim. Það virtist hins vegar vera þeim um megn vegna innbyrðis deilna þeirra um landamæri.

Ríki Vestur-Evrópu voru efnahagslega illa á vegi stödd. Þeim stóð ógn af hröðum uppgangi Þýskalands, vegna þess að þau óttuðust að Þjóðverjar yrðu ríkjandi í Evrópu og til þess máttu t.d. Frakkar ekki hugsa. Bretar, sem ætíð höfðu verið andsnúnir því að eitt ríki stjórnaði meginlandinu, töldu að halda bæri Þjóðverjum niðri. Á hinn bóginn töldu þeir að Þýskaland væri nauðsynlegt ef evrópskt markaðskerfi átti að rísa úr öskunni og því mætti ekki ganga of langt í lömun efnahags þess.

Í Þýskalandi var almenningur þeirrar skoðunar að þjóðin hefði verið svikin þegar skrifað var undir Versalasamningana. Jafnaðarmenn sem voru við völd á fyrstu árum Weimarlýðveldisins misstu fylgi vegna Versalasamninganna og hægri öfl sem ekki duldu andúð sína á samningunum juku styrk sinn.

Engin ríkisstjórn Weimarlýðveldisins viðurkenndi hin nýju landamæri í austri við Pólland og Tékkóslóvakíu og í norðri við Danmörku. Við undirritun Locarnosáttmálans var talið að friði væri loks náð en það gleymdist að gera ráð fyrir áætlunum Þjóðverja í austurátt. Gustav Stresemann, sem var utanríkisráðherra Þýskalands er Locarnosáttmálinn var undirritaður, þvertók fyrir að gefa nokkra skriflega tryggingu fyrir því að Þjóðverjar sæktust ekki eftir leiðréttingu á landamærum sínum í austri. Róaði hann ráðamenn annarra ríkja með því að skrifað var undir samning þess efnis að Þjóðverjar myndu aðeins sækjast eftir leiðréttingu á friðsamlegan hátt, en ekki hljómaði það sennilega í eyrum Pólverja og Tékkóslóvaka.

Þrátt fyrir það sýndaröryggi sem Locarnosáttmálinn fól í sér voru Austur- Evrópuþjóðirnar og Frakkar, uggandi um öryggi sitt. Vitað var að Rússar litu hýru auga til landvinninga í Austur-Evrópu og þar fóru hagsmunir þeirra og Þjóðverja saman að mörgu leyti. Áhyggjur vegna þessa jukust að mun þegar Þjóðverjar og Rússar gerðu með sér gagnkvæman aðstoðarsamning sem kenndur hefur verið við Rapallo á Ítalíu. Í honum fólst m.a. að Þjóðverjar veittu Rússum efnahagsaðstoð gegn því að Rússar hjálpuðu þeim að fara í kring um Versalasamningana. Þjóðverjar fengu því að setja upp hergagnaverksmiðjur og herskóla innan landamæra Ráðstjórnarríkjanna án þess að Vesturveldin gætu nokkuð að gert.

Endurreisn Þýskalands gekk hraðar en flestir höfðu búist við og þá sérstaklega Frakkar. Árið 1924 var Dawes-áætlunin um greiðslu stríðsskaðabóta sett fram og í kjölfar hennar fengu Þjóðverjar mikið lán frá Bandaríkjamönnum til að auðvelda þeim að standa í skilum með þær. Þetta renndi nýjum stoðum undir þýskt efnahagslíf, skaðabæturnar voru greiddar árlega samkvæmt áætluninni og þjóðin rétti úr kútnum. Það var því gríðarlegt áfall þegar heimskreppan skall á 1929 og efnahagslíf í Þýskalandi hrapaði niður í nýja lægð verðbólgu og atvinnuleysis. Með Young- áætluninni öðlaðist uppbyggingin nýjan grundvöll og þó að hægt færi í fyrstu mjakaðist Þýskaland upp á við á ný.

Það var við þessar aðstæður sem Adolf Hitler og flokkur hans sáu tækifæri til athafna og þýska þjóðin var svo sannarlega móttækileg fyrir boðskap nasista eftir hremmingar undangenginna ára. Í forsetakosningum 1932 tókst Hitler að knýja fram aðra umferð vegna þess að Paul von Hindenburg fékk ekki tilskilinn meirihluta og fjórum mánuðum seinna fékk Nasistaflokkurinn 13.7 milljónir atkvæða og 230 þingsæti í þingkosningum. Sigurvegurum kosninganna þótti rétt að bjóða einum eða tveimur forkólfum flokksins til þátttöku í ríkisstjórninni til að sefa lýðinn og flokkinn. Eftir vangaveltur var ákveðið að bjóða Hitler að taka sæti kanslara í samsteypustjórn með hægri mönnum og þóttust menn aldeilis hafa fengið góðan blóraböggul sem auðvelt væri að hafa stjórn á og kenna um það sem miður fór.


4. Framvinda mála í Evrópu á árunum 1933-39

Valdataka nasista í Þýskalandi var áfall fyrir Evrópu. Hitler hafði fyrir löngu sett fram markmiðin með stjórnmálastarfi sínu í bók sinni Mein Kampf er hann skrifaði í fangelsi eftir hina misheppnuðu Bjórkjallarauppreisn nasista árið 1923. Má segja að markmið hans hafi verið í þremur stigum. Fyrsta stigið var að losa þýsku þjóðina úr hlekkjum Versalasamninganna. Þegar því markmiði hefði verið náð taldi Hitler að næsta stig væri að losa þjóðina við óæskilega kynstofna eins og Gyðinga, Sígauna og Slava svo að hinn aríski kynstofn gæti blómstrað ómengaður. Síðasta stigið væri að vinna land og lífsrými í austri svo að þýska þjóðin gæti verið sjálfri sér nóg um allar nauðsynjar. Stríð var því óumflýjanlegt að mati hans ef aríski kynstofninn átti að búa við þann kost sem hann verðskuldaði. Þegar Hitler slapp úr prísundinni hóf hann að róa öllum árum að því að koma þessum hugmyndum sínum í verk. Hann fékk svo loks tækifæri til þess er hann var gerður að kanslara Þýskalands árið 1933 og á næsta áratug fékk veröldin að kenna á hugsjónum hans.

Eitt fyrsta verk Hitlers er hann var sestur í kanslarastólinn var að boða til nýrra kosninga og var öllum ráðum beitt til að hala inn atkvæði. Úrslitin urðu þau að nasistaflokkurinn fékk 44% atkvæða og um sumarið 1933 höfðu allir aðrir flokkar verið bannaðir eða leystir upp. Nasistaflokkurinn stóð uppi sem eini löglegi flokkurinn og þingið var einungis leikvöllur þeirra. Er Hindenburg forseti Þýskalands lést sumarið 1934 útnefndi Hitler sjálfan sig forseta og upp frá því urðu allir hermenn Þýskalands að sverja honum persónulega hollustu. Síðasta mótspyrnan var brotin á bak aftur aðfaranótt 30. júlí 1934 þegar fjöldinn allur af mönnum í SA-sveitum nasista, er voru undir stjórn Ernst Röhm, voru myrtir og þar á meðal Röhm sjálfur. Kynþáttalögin alræmdu voru síðan sett 1935 og voru allir aðrir en aríar samkvæmt þeim sviptir ríkisborgararétti í Þýskalandi og sambönd aría við fólk af öðrum kynstofnum bönnuð.

Hitler hafði þannig á þeim stutta tíma sem liðinn var síðan hann varð kanslari öðlast einræðisvald yfir öllu Þýskalandi og flokkur hans hélt uppi ógnarstjórn með ofbeldi af þvílíku offorsi að enginn andstæðingur nasista var óhultur. Það var því ekki að undra að ráðamönnum annarra ríkja litist lítið á þróun mála í Þýskalandi. Þrátt fyrir að svona væri ástatt voru þeir ekki vissir um hvaða stefnu skyldi taka, og hvað þá heldur sammála. Frakkar héldu enn sinni hörðu stefnu en Bretar töldu að árangri yrði fremur náð með vinsamlegum samningum. Báðar þjóðir höfðu það að markmiði að forðast aðra styrjöld í lengstu lög og með öllum ráðum. Þær greindi aðeins á um þær aðferðir er vænlegastar væru til að ná þessu markmiði.

Á meðan bandamenn deildu hóf Hitler að hrinda áformum sínum um endur- hervæðingu Þýskalands í framkvæmd. Hann tilkynnti að hann væri tilbúinn til að ræða afvopnun við Breta og Frakka en ef þeir þekktust ekki boðið myndi hann hefja uppbyggingu eigin hers í trássi við alla samninga. Að svo búnu hófst hervæðingin. Hún olli bandamönnum miklum áhyggjum og þá sérstaklega flugherinn nýstofnaði, Luftwaffe. Flugher í þessum mæli var nýtt fyrirbæri og var ekki laust við að það slægi óhug á ráðamenn bandamanna, sem ímynduðu sér að slíkur her væri svo sterkur að hann gæti í einni árás lagt stórborgir þeirra í rúst.

Ekki má líta svo á að einungis Þjóðverjar hafi hervæðst á þessum árum. Bandamenn gerðu það einnig, en þeir stóðu frammi fyrir þeim vanda að þurfa að réttlæta að peningar færu í hergögn á krepputímum þegar skortur var á atvinnu og nauðsynjum fyrir alþýðu manna í ríkjum þeirra.. Í lýðræðisríkjunum gátu stjórnmálamennirnir ekki dælt peningum í hergögn og látið fólkið líða skort, einkum ef þeir höfðu áhuga á endurkjöri.

Á meðan þessu fór fram var Benito Mússolini á báðum áttum hvorn aðilann hann ætti að styðja. Hann hafði að sjálfsögðu hugmyndafræðileg tengsl við Þýskaland en var ekki viss um að félag við Adolf Hitler væri það rétta í stöðunni. Hann hélt því áfram að biðla til bandamanna en heldur gekk honum erfiðlega að fá þá til lags við sig. Mússolini voru efst í huga landvinningar í Abbessiníu. Hann átti hinsvegar í þeim vanda að bæði Ítalía og Abbessinía voru í Þjóðabandalaginu og því bundin friðarsamkomulagi hvort við annað. Til að tryggja aðgerðaleysi helstu bandalagsþjóðanna tókst honum að semja við Breta og Frakka um að þeir létu sér eftir stóra sneið af Abbessiníu. Samkomulag Breta og Frakka um þetta (Hoare-Laval samningurinn) komst svo í hámæli í báðum löndum og vakti almenna hneykslun því þar höfðu stjórnmálamenn fullvissað almenning um að þeir myndu berjast hart gegn slíkum áformum Ítala. Að lokum gat Mússolini því hertekið alla Abbessiníu án þess að Þjóðabandalagið hreyfði legg né lið.

En fleira varð til að spilla samstarfi bandamanna. Í maí 1935 gerðu Frakkar gagnkvæman aðstoðarsamning við Ráðstjórnarríkin. Þó að hann ætti einungis að gilda á grundvelli Þjóðabandalagsins og Locarnosamningsins olli hann Bretum miklum áhyggjum því þeir voru þess fullvissir að þeir einu sem hagnast gætu á styrjöld við Þýskaland væru Ráðstjórnarríkin. Samningur Breta og Þjóðverja um sjóheri ríkjanna og jafnstóran kafbátaflota varð til þess að stórmóðga Frakka og Ítali. Hann gerði það að verkum að Þjóðverjar gátu byrjað að byggja stór herskip og kafbáta í mun meiri mæli en fram að því og án nokkurrar leyndar. Vegna alls þessa logaði allt í deilum milli stórveldanna þriggja í Vestur Evrópu í lok árs 1935 og því voru þau engan veginn í stakk búin til að veita Hitler trúverðuga mótspyrnu. Þó að Ráðstjórnarríkin hefðu gengið inn í Þjóðabandalagið 1934 álitu flestir að Rússum væri ekki treystandi að neinu marki og að sumu leyti var það rétt. Jósef Stalín boðaði að vísu herför gegn fasisma í orði en jafnframt reyndi hann að finna leiðir til að semja við Hitler á einhvern hátt. Við sama sat því í samskiptum bandamanna og Rússa.

Hitler notaði tækifærið á meðan Þjóðabandalagið einblíndi á herferð Mússolinis í Abbessiníu til að endurhervæða Rínarlöndin. Hann tilkynnti ráðamönnum vesturveldanna að hann teldi nýgerðan samning Frakka og Ráðstjórnarríkjanna fara gegn Locarnosáttmálanum og því liti hann svo á að hann væri fallinn niður. Var þessu mótmælt harðlega af bandamönnum. Ekkert var samt að gert. Almenningsálitið var með Þjóðverjum, og flestir álitu Rínarlöndin í raun vera lítið annað en bakgarðinn þeirra, og fannst því lítið að því að þeir völsuðu þar um eins og þá lysti. Þó voru uppi gagnrýniraddir og einna hæst lét í Winston S. Churchill sem vildi að Þjóðverjum væri sýnt í verki að slík samningsbrot væru ekki liðin. En það var ekki nóg og árið 1936 voru Frakkar ekki tilbúnir til að standa einir á móti Þjóðverjum án stuðnings Breta. Hitler fékk því að fara sínu fram.

Hitler hafði löngum haft augastað á að búa til Stór-Þýskaland þar sem bæði þýsku ríkin, Þýskaland og Austurríki, væru sameinuð í eitt. Hann fékk nú tækifæri til þess er Mússolini var orðinn honum hliðhollur. Með þrýstingi og hótunum tókst Hitler að hræða kanslara Austurríkis, Dr. Kurt von Schuschnigg, svo rækilega að á endanum sagði hann af sér og skildi nasistann Arthur Seyss-Inquart eftir í embætti innanríkisráðherra. Hann útnefndi sjálfan sig kanslara og bað um hjálp Þjóðverja til að endurreisa lög og reglu í ríkinu. Dyrnar stóðu því opnar þegar þýski herinn þrammaði inn í Vín þann 12. mars 1938.

Þegar innlimun Austurríkis gekk svo vel var Tékkóslóvakía næst á dagskrá Hitlers og hann þrýsti á Vesturveldin að eftirláta sér Súdetahéruðin sem byggð voru fólki af þýskum uppruna. Endaði sú rimma með því að Neville Chamberlain, forsætisráðherra Bretlands, kom á fundi Þjóðverja, Breta, Frakka og Ítala um Tékkóslóvakíuvandann í München 1938 og var samningur undirritaður þar, þess efnis að Þjóðverjar fengju Súdetahéruðin gegn því að það væru síðustu landakröfur þeirra í Evrópu.

Í mars 1939 lögðu Þjóðverjar svo undir sig afganginn af Tékkoslóvakíu og hafnarborgina Memel í Litháen. Þetta voru landvinningar af öðrum toga en innlimun Austurríkis og Súdetahéraðanna því það hafði verið réttlætanlegt út frá reglunni um sjálfsákvörðunarrétt þjóðanna. Tékkar höfðu hins vegar engan áhuga á sameiningu við Þýskaland og hernám Tékkóslóvakíu var skýrt brot á Münchenarsamningnum og alþjóðalögum. Við þetta virðist sem ljós hafi runnið upp fyrir ráðamönnum Vesturveldanna og þeir tóku nýjan pól í hæðina. Bretar, sem aldrei vildu neitt hafa að gera með varnir Austur Evrópu og höfðu alla tíð fylgt þeirri stefnu að binda sig ekki á meginlandinu, sneru nú allt í einu við blaðinu og hétu Pólverjum hernaðaraðstoð ef á þá yrði ráðist. Hitler misreiknaði þessa stefnubreytingu Breta og taldi að þeir myndu ekkert aðhafast frekar en fyrri daginn þó að hann réðist á Pólland. Fyrstu dagana í september 1939 fór svo allt í bál og brand og Evrópa átti í styrjöld í annað sinn á öldinni.


5. Meginkenningar fræðimanna

Ekki er hægt að fjalla um þetta efni án þess að gera skil tveim megin- kenningum um þetta tímabil. Annars vegar er kenningin um að stríðin tvö í Evrópu og árin á milli þeirra hafi í raun verið svo nátengd að þau verði ekki í sundur skilin og hafi því verið um að ræða nokkurs konar þrjátíu ára stríð, með vopnahléi árin 1918-1939. Hins vegar er sú kenning sem gerir ráð fyrir að Evrópa hafi í raun stefnt í átt til stöðugs friðar á árunum milli stríða en kreppan mikla, efnahagslegar og pólitískar ástæður hafi breytt ástandinu svo mikið að þær vonir urðu að engu.

· Þrjátíu ára stríð
Kenningin byggir á gerbreyttum aðstæðum í Evrópu eftir fyrri heimsstyrjöld. Efnahagur allra ríkja, jafnt sigurvegara sem sigraðra stóð mjög höllum fæti og öll ríki skulduðu stórar fjárhæðir, Þýskaland stríðsskaðabætur en hin ríkin höfðu flest fengið stríðslán, aðallega hjá Bretlandi og Bandaríkjunum. Flest þessi ríki áttu við vanda að etja þegar kom að því að borga skuldirnar og kom þar margt til. Stríði fylgir eyðilegging og þjóðirnar á meginlandinu fóru ekki varhluta af henni, sérlega Frakkland og Belgía. Stór landsvæði sem verið höfðu blómleg héruð fyrir stríðið voru aðeins rjúkandi rústir og engum nýtileg 1918. Ríkin sem þátt höfðu tekið í ófriðnum áttu það sameiginlegt að hafa orðið fyrir miklu mannfalli í stríðinu, misst bæði hermenn og borgara, og sum þeirra áttu erfitt með að rétta úr kútnum eftir þvílíkt áfall. Versta dæmið um þetta var Frakkland. Iðnaður og framleiðsla minnkaði og því fylgdi mikil verðbólga sem herjaði á alla Evrópu á styrjaldarárunum og eftir stríð. Má leiða að því getum að það sem erfiðast var fyrir ríkisstjórnir og almenning í Evrópu á þessum árum hafi einmitt verið verðbólgan því með henni misstu gjaldmiðlarnir stöðugleika sinn.

Stjórnmálaásýnd Evrópu breyttist mjög frá 1914 til 1918. Um gervalla Mið- og Austur-Evrópu var ekki ein einasta stjórn við lýði sem hafði verið 1914. Þrjú stórveldi höfðu fallið af stalli sínum í Evrópu, Rússland í hendur bolsévika, Austurríki-Ungverjaland hafði verið hlutað sundur í mörg minni ríki, og Þýskaland var í hlekkjum Versalasamninganna. Þannig höfðu þrjú keisaradæmi fallið en lýðræðisríkin stóðu uppi sem sigurvegarar. Tæplega var þó hægt að segja að lýðræðið sem slíkt hafi hagnast eða sigrað. Sigurinn var unninn á kostnað einstaklingshyggju og frjálshyggju, því allur stríðsrekstur er í eðli sínu miðstýrður af ríkinu og verður að vera það eigi einhver árangur að nást í styrjöld svo stórri í sniðum sem fyrra stríðið var. Einstaklingurinn hafði því verið settur til hliðar í ríkinu og leituðu margir því ásjár í öðrum mögulegum stjórnarformum, svo sem fasisma og kommúnisma. Þannig jukust áhrif byltingarógnarinnar fremur en minnkuðu og í Rússlandi og Þýskalandi höfðu byltingar þegar farið fram. Stjórnmálalega var Evrópa því mjög veikburða og virðist lítið hafa þurft til að auka fylgi byltingarafla.

Stríðið hafði breytt Evrópu svo um munaði, og það valdajafnvægi og viðskiptasamband sem fyrir stríð var milli ríkjanna var farið út um þúfur. Við friðarsamningana 1919 hefðu samningsaðilar átt að reyna að leiðrétta þetta ójafnvægi en sú varð ekki raunin. Samningarnir urðu fremur til þess að auka á þetta ójafnvægi en minnka það. Óstöðugleikinn fólst meðal annars í því að Bandaríkin drógu sig út úr málefnum Evrópu þegar repúblikanar komust þar til valda 1920. Það var staðreynd að Þýskaland hafði staðið fullkomlega uppi í hárinu á fjórum Evrópuþjóðum samtímis og það þurfti íhlutun stóra bróður handan Atlantshafsins til að snúa stríðinu bandamönnum í hag. Þegar bandarískur stuðningur hvarf, Rússland var í höndum bolsévika og breskur almenningur jafnt og ráðamenn vildi endurskoða Versalasamningana stóðu Frakkar einir eftir til að verja þá fyrir ásókn Þjóðverja. Við þetta bættist svo ástand mála í Austur-Evrópu, landamæradeilur og þjóðernisátök.

Millistríðsárin voru því allt annað en friðsæl og skipan mála í Evrópu stóð höllum fæti. Vel má líta svo á að utanríkisstefna Þjóðverja hafi á árunum milli stríða verið heildstæð í mikilvægum þáttum og því hafi önnur styrjöld verið óumflýanleg. Varlega ber þó að líta svo á, því að þrátt fyrir að Gustav Stresemann hafi viljað leiðrétta landamæri Þýskalands er ekki hægt að líkja stefnu hans við útþenslustefnu nasista. Ákveðnir sameiginlegir þættir voru samt sem áður til staðar og ef svo er litið á öðlast þessi kenning nokkurn stuðning.

Ef litið er svo á að Þýskaland hafi fylgt einni og samri stefnu öll millistríðsárin, en ekki hafi tekið við nýtt tímabil 1933 er Hitler komst til valda, virðist síðasti bitinn falla inn í raðmyndina. Þýskaland hafði styrk og vilja til að berjast við fjögur Evrópuríki í fjögur ár og það þurfti utanaðkomandi aðstoð til að sigra það. Fátt er þá sem mælir á móti því, að þegar Þýskaland hefði náð sínum fyrri styrk og Bandaríkin höfðu dregið sig út úr málefnum Evrópu, hefðu Þjóðverjar verið tilbúnir til að heyja annað stríð jafnvel án atbeina Adolfs Hitlers og Nasistaflokksins.



· Efnahagslegir þættir
Þetta eru sterk rök sem erfitt er að mæla gegn, en þó eru þeir til er hafna þessarri kenningu og telja að seinna stríðið hafi ekki verið óhjákvæmileg afleiðing þess fyrra heldur hafi efnahagslegar og pólitískar breytingar á árunum kringum 1930 snúið friðarþróun í Evrópu í ófriðarátt.

Þegar leið á þriðja áratuginn leit út fyrir að Evrópa væri loks að öðlast langþráðan frið. Villurnar í Versalasamningunum voru ekki taldar óyfirstíganlegar og nokkuð hafði verið gert til að leiðrétta þær, stríðsskaðabótagreiðslum hafði verið breytt og Þýskaland tók aftur þátt í samskiptum þjóðanna.

Að lokum leit einnig út fyrir að komist hefði verið yfir efnahags- og félagslegar afleiðingar styrjaldarinnar: Gjaldmiðlar voru stöðugir á ný, iðnaðarframleiðsla náði og fór fram úr því sem hafði verið 1913, byltingarógnin rénaði, og hin nýju ríki festust í sessi. Það var ekki ótrúleg bjartsýni að trúa því að hlutirnir væru á uppleið.


Helsta merki þessara breytinga í milliríkjasamskiptum var samningur sá er undirritaður var í London 1. desember 1925, og gengur undir nafninu Locarno- sáttmálinn. Sáttmálinn hefur oft verið talinn vera það sem Austen Chaimberlain þáverandi utanríkisráðherra Breta kallaði: “hin raunverulegu skil milli ára stríðs og friðar” , og var hann að jafnaði talinn vera það á sínum tíma. Í sáttmálanum fólst að landamæri Frakka og Þjóðverja annars vegar og Belga og Þjóðverja hins vegar voru tryggð innbyrðis af ríkjunum þrem og einnig af Bretlandi og Ítalíu. Einnig fólst í sáttmálanum frekari trygging á því að her yrði ekki staðsettur í Rínarlöndunum. Kveðið var á um það í Versalasamningunum, en nú féllust Þjóðverjar sjálfviljugir á þessa kvöð. Einnig voru Þjóðverjar teknir inn í Þjóðabandalagið sem fullgild þjóð meðal þjóða og var vaxandi styrkur bandalagsins eftir brotthvarf Bandaríkjamanna 1920 eitt vonarljósið enn um frið í hinni stríðshrjáðu álfu.

Locarno-sáttmálinn og þeir samningar sem honum fylgdu voru gríðarlega mikilvægir fyrir endurreisn samstarfs Evrópuríkja. Allir gengu ánægðir frá borði og svo virtist sem mikilvægum markmiðum hefði loks verið náð. Frakkar höfðu loksins fengið langþráða tryggingu Breta á landamærum sínum við Þýskaland, tryggingu sem Bretar höfðu skotið sér undan að veita allt frá lokum fyrra stríðsins og í ofanálag virtist sem Frakkar og Þjóðverjar væru að bæta sambúð sína . Skrifað var undir samning milli þeirra um járn- og stálsamband 1926 og flestir voru vongóðir um að úr myndi rætast enn meir. Locarnosáttmálinn tók einnig til Austur-Evrópu og voru í honum m.a. gagnkvæmar hernaðartryggingar milli Frakka og Pólverja annars vegar, og Frakka og Tékkóslóvaka hins vegar. Tékkóslóvakar og Pólverjar virtust ekki geta komið sér saman um neitt á þessum árum ef vantraust á Þjóðverjum er undanskilið.

Dawes-áætlunin var grundvöllur Locarnosáttmálans því að án lausnar á stríðsskaðabótavandamálinu hefði sáttmálinn verið óhugsandi. Á næstu árum greiddu Þjóðverjar samviskusamlega skaðabæturnar samkvæmt áætluninni eða allt fram til hrunsins í kauphöllum Wall Street 1929 og kreppunnar miklu er fylgdi í kjölfarið.

Kreppan og verðbréfahrunið í Bandaríkjunum var köld gusa framan í hagvöxt Evrópuríkja. Fram til 1929 hafði verið í gangi einkennileg hringrás fjárstreymis milli Bandaríkjanna og Evrópu sem gerði mögulegar greiðslur Þjóðverja á skaðabótum. Segja má að ferlið hafi hafist með miklu láni Bandaríkjamanna til Þjóðverja 1924 í sambandi við Dawes- áætlunina, sem ætlað var að koma fótunum undir þýskan fjárhag til að þeir gætu borgað skaðabæturnar eins og sagt var fyrir um í áætluninni. Þjóðverjar borguðu þannig Bretum, Frökkum og Ítölum með bandarísku fjármagni, og það gerði þessum þjóðum kleift að greiða Bandaríkjamönnum upp í lánin sem þær höfðu fengið til stríðsrekstursins1914-1918. Þegar kreppan hófst stöðvaðist allt fjárstreymi frá Bandaríkjunum til Evrópu og þar með allt þetta ferli. Áhrifin voru einna verst í Þýskalandi og þar jókst atvinnuleysi og verðbólga eftir nokkurn stöðugleika undanfarinna ára. Nefnd var skipuð til að endurmeta greiðslubyrði stríðsskaðabótanna 1929 og var Young-áætlunin tekin í gagnið 1930.

En skaðinn var skeður og mikilvægur þáttur í þýskum efnahagsbata var horfinn með öllu. Þetta gerðist á besta tíma fyrir Nasistaflokkinn, sem kunni að notfæra sér aðstæður og snúa málum sem þessum sér í hag. Atvinnuleysið og verðbólguna vildi þýskur almenningur með öllum ráðum losna við og Hitler virtist mörgum sannarlega vera maður athafna sem gæti snúið þróuninni við. Flokkurinn vann sífellt á, enda notaði hann óspart óánægju almennings sér til framdráttar og svo fór að hann náði völdum í Þýskalandi 1933 eins og fyrr er lýst. Eftir það var erfitt að snúa til friðar í Evrópu á ný. Eða eins og Wiston Churchill orðaði það: “inn í eyðuna stikaði vitfirrtur snillingur, persónugervingur mesta haturs og illmennsku sem nokkru sinni hefur tært mannkynið - korporállinn Hitler.”


6. Kenning A.J.P. Taylors

Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar og á fyrstu áratugunum eftir hana voru skoðanir sagnfræðinga á orsökum ófriðarins nokkuð einhlítar. Álitið var að Adolf Hitler hefði verið ofstækismaður sem stefndi að stríði leynt og ljóst alveg frá því hann komst til valda og ekkert hefði verið hægt að gera til að hefta hann. Talið var að nasistar hefðu haft nákvæma áætlun um það hvernig stefna skyldi að styrjöld og þeir hafi þannig ætlað að ná yfirráðum í Evrópu allri. Það var því töluvert áfall þegar A. J. P. Taylor gaf út bók sína The Origins of the Second World War árið 1961.

Taylor setti fram í bók sinni kenningu sem kollvarpaði hugmyndum manna um Hitler og var á skjön við allt sem ritað hafði verið um aðdraganda stríðsins fram að því. Hann fullyrti að Hitler hefði einungis verið snjall tækifærissinni sem hefði gripið gæsina þegar ráðamenn bandamanna gáfu færi á henni. Með misklíð sinni og sundurþykkju hefðu þeir gefið Hitler hvert tækifærið á fætur öðru til að útfæra ríki sitt. Taylor telur ennfremur að stríðið hafi mátt rekja beint til vanmáttar friðarsamninganna 1919 og þess að Versalasamningarnir gerðu hvorugt, að veita Þjóðverjum algera uppreisn æru eða mala þá gersamlega. Eða með orðum Taylors sjálfs: “Þýskaland háði seinni heimstyrjöldina til þess eins að leiðrétta dóm hinnar fyrri og til að eyðileggja samningana sem fylgdu í kjölfarið.”

Því verður ekki á móti mælt að Versalasamningarnir voru ekki eins og best varð á kosið. Bandamenn voru klofnir í afstöðu sinni til þeirra. Ítölum var nokkurn veginn sama um þá, Frakkar vildu halda fast í þá en Bretar vildu endurmeta þá. Taylor segir að Hitler hafi einungis notað þetta ósætti þeirra sér til framdráttar.

Neville Chamberlain og friðþægingarstefna hans (á ensku appeasement) hafa af mörgum verið óvægið dæmd fyrir ragmennsku og liðleskjuhátt. Satt er að mikið var látið eftir Hitler en líta verður á málið út frá forsendum þeirra tíma manna. Chamberlain var enginn auðtrúa raggeit sem Hitler stjórnaði að vild, eins og sumir vilja halda fram. Hann var maður sem vildi framar öllu tryggja áframhaldandi frið í Evrópu. Chamberlain trúði því að Hitler væri í raun friðsamur maður sem hægt væri að semja við um friðsamlegar lausnir deilumála. Hitler lék á þessa trú og kom ætíð fram sem maður friðar og vona milli þess sem hann byggði upp her sinn og lagði undir sig nágrannalönd Þýskalands. Friðþægingin var að áliti Chamberlains betri kostur en að veita Hitler mótspyrnu og hætta þannig á að annað stríð brytist út.

Margvísleg gagnrýni kom fram á Taylor og kenningu hans og einn hatrammasti andstæðingur hans var sagnfræðingurinn Hugh Trevor-Roper. Hann hélt því fram að Taylor hefði gert grundvallar mistök við rannsóknir sínar með því að líta aðeins á það sem styður kenningu hans.. Telur Trevor-Roper að mörg þau skjöl sem Taylor nefnir til stuðnings kenningu sinni gefi einmitt til kynna þveröfuga niðurstöðu, þ.e. að Hitler hafi allan tímann stefnt að stríði og drottnun yfir Evrópu. Nefnir hann meðal annars því til stuðnings túlkun Taylors á svonefndu Hossbach-skjali sem var notað sem eitt aðal sönnunargagnið við Nürnberg réttarhöldin.

Trevor-Roper heldur því fram að Hitler hafi sýnt það mörgum sinnum í gerðum sínum og orðum, þar á meðal skipunum til hershöfðingja sinna, að hann hafi verið ákveðinn í að hefja stríð í Evrópu. Til vitnis um það hafi meðal annars verið hernaðaráætlanir sem herráð hans hafi gert á árunum milli striða sem beinst hafi gegn öðrum ríkjum Evrópu. Taylor svarar gagnrýni á kenningu sína í viðauka við aðra útgáfu bókar sinnar. Þar segir hann meðal annars um þetta atriði að öll Evrópuríki hafi gert slíkar áætlanir á millistríðsárunum. Hann segir að það sé einfaldlega hlutverk og starf herráða að gera slíkar áætlanir og þær geti einfaldlega talist fyrirbyggjandi aðgerðir. Betra sé að áætlanirnar séu tilbúnar ef til stríðs komi heldur en að herráðið þurfi að byrja á því að semja þær í miðjum átökum. Nefnir Taylor sem dæmi að flestallar hernaðaráætlanir Breta sem samdar voru á millistríðsárunum hafi beinst gegn Þýskalandi en þrátt fyrir það hafi þær aldrei verið túlkaðar þannig að Bretar hafi einsett sér að hefja styrjöld við Þjóðverja.

Vafasamt er að telja aðra kenninguna eiga rétt á sér eða vera algóða og afneita hinni algerlega. Best er að skoða þær í sameiningu og reyna þannig að komast að niðurstöðu um hvað raunverulega hafi gerst. Tæplega er hægt að neita því að Hitler hafi haft uppi áætlanir um landvinningastríð í austri þar sem slík hugmynd kemur skýrlega fram í bók hans Mein Kampf og var ein aðalhugsjón nasista. Hins vegar verður að fallast á að hann hefur tæplega ætlað sér að koma Þýskalandi í sömu aðstöðu og í fyrra stríði, þar sem það barðist við fjögur ríki Evrópu í einu og síðar Bandaríkin einnig. Vitað er að það sem Hitler og hershöfðingjar hans vildu forðast í lengstu lög var stríð á tvennum vígstöðvum. Því má telja líklegt að stríðið við Vesturveldin hafi verið mistök af hálfu Hitlers, afleiðing af misreiknuðu landvinningastríði í austur. Að minnsta kosti bendir margt til þess að Hitler hafi ætlað að forðast átök við Breta og Frakka þar til endurhervæðingu Þýskalands væri lokið um árið 1945.


7. Niðurstöður

Af því sem á undan er sagt má draga þá ályktun að tvennt hafi það verið sem aðallega stuðlaði að því að Evrópa steyptist út í styrjöld á ný. Í fyrsta lagi bágur efnahagur og pólitískar afleiðingar hans. Efnahagur Evrópuríkja á millistríðsárunum stóð mjög höllum fæti. Verðbólga var mikil og atvinnuleysi einnig, og þetta ástand var sérlega slæmt í Þýskalandi eftir að kreppan mikla gekk yfir. Aðstæður voru því mjög hagstæðar fyrir nasista og það hagnýttu þeir sér vel. Þegar Adolf Hitler var einu sinni kominn til valda var erfitt að stöðva leit hans að lífsrými í austri fyrir þýsku þjóðina. Það var markmið hans og hugsjón og hann hefði væntanlega ekki gefið hana svo glatt upp á bátinn. Í öðru lagi voru Versalasamningarnir ekki nógu stöðugir og komu ekki því jafnvægi á í Evrópu er æskilegt hefði verið. Segja má að orð Macchiavellis sáluga eigi vel við er hann sagði: “Ef þú sérð óvin þinn í vatni upp að hálsi þá gerirðu vel ef þú ýtir honum í kaf; en ef hann er aðeins í vatni upp að hnjám þá gerirðu vel ef þú hjálpar honum uppúr. Versalasamningarnir gerðu hvorugt.

Árið 1939 var hervæðingu Þýskalands alls ekki lokið. Herinn hafði ekki enn náð þeim styrk sem Hitler taldi nægilegan til að heyja langt stríð við Vesturveldin. Líklegt verður því að teljast að innrásin í Pólland í septemberbyrjun 1939 hafi verið misreiknuð af hálfu Hitlers og að hann hafi talið að Vesturveldin myndu ekki hafast að fremur en við fyrri aðgerðir hans. Ef litið er á málin frá þeim sjónarhóli sýnist ólíklegt að Hitler hafi haft fastmótaða áætlun um að stefna að styrjöld í Evrópu, en úr því sem komið var þótti honum betra að halda frumkvæðinu og ráðast á Frakka og Breta áður en þeir næðu að fylkja sér gegn honum.



Heimildir



P. M. H. Bell:
The Origins of the Second World War in Europe,
Longman,
London 1986.

Ruth B. Henig:
The Origins of the Second World War 1933-1939,
Routledge,
London 1992.

Martin Kitchen:
Europe Between the Wars. A Political History,
Longman,
London 1988.

The Origins of the Second World War. Historical Interpretations:
Esmonde M. Robertson,
MacMillan Press Ltd.,
London 1978.

The Origins of the Second World War Reconsidered. The A. J. P. Taylor Debate After twenty-five Years:
Gordon Martel,
Allen & Unwin,
London 1986.
A. J. P. Taylor:
The Origins of the Second World War,
Fawcett Books,
Greenwich, Conneticut (USA) 1961

Gerhard L. Weinberg:
A World at Arms. A Global History of the World War II,
Cambridge University Press,
Cambridge (UK) 1994.