Það er kannski bara ég en mér þykir þú krota fullmikið í eyðurnar í þessari atferliseftirtekt þinni. Fyrir þér eru stelpur svo sannarlega frá Venus. "Stelpur" eru nefnilega ekki andstæðingurinn í kappleiknum ást, allar saman í liði gegn strákunum. Þær eru jafnfjölbreytilegar og þær eru margar, og því er einstaklingsbundið, alveg einsog hjá strákum, hvort hver og ein stelpa sé vel eða illa innrætt. Það er að vísu rétt að maður sér ekki í fljótu bragði, ekki frekar en með stráka, hvort hver og ein stelpa sé illkvittin, og því má maður alveg passa sig á því að vera ekki "notaður" einsog þú segir. Það er einnig frekar sjálfselskt að segja að stelpan sé sjálfselsk ef hún hugsar ekki um tilfinningar stráksins, því hennar tilfinningar skipta ekki máli. Það er rétt að maður ætti alltaf að hugsa um tilfinningar annarra, en það þýðir líka að strákurinn eigi að hugsa um tilfinningar stelpunnar. Það er sjálfselska að einbeita sér að eigin tilfinningum og ætla að allir aðrir einbeiti sér að þeim, því annað væri sjálfselska hjá öllum öðrum, að hugsa ekki um þig. Þú hlýtur að sjá sjálfselskuna í því hvernig þú orðaðir þetta, hvort sem þú meintir þetta af ómeðvitaðri sjálfselsku eða ekki.
Ég efast ekki um að þú sért ekki að reyna að gera á hlut stelpna sem hóps með þessari atferliseftirtekt, en ég held að það loði ómeðvituð hræðsla við þennan "óþekkta kynflokk", stelpur, sem þú skilur ekki. Engar áhyggjur, þú skilur stráka ekkert fremur. Kannski einstaka mann.
Kannski er ég á algerum villigötum. Þá vil ég bara afsaka það.