Afbrýðisemi eftir samband - S6 Mér þætti voðalega vænt um það ef þetta yrði narfnlaust.

Málið er:
Ég og kærastinn hættum saman fyrir rúmum mánuðu.
Þetta var mjög vinsamlegur “skilnaður” og hittumst við oft enn bara í vinahópnum og allt gott með það.
En til dæmis þegar við hópurinn hittumst verð ég mjög sár og reið þegar ég sé hann tala við stelpurnar í hópnum.
Og til dæmis barst talað í því í dag að hann kunni utan að númar einnart stelpu(reynar er hann mjög glöggur með tölur,en samt!)
Þegar við vorum í sambandi þá treysti ég honum alveg,þanníg ég var ekkert með áhyggjur af því.
En núna verð ég alveg viti mínu fjær,en það sést auðvitað ekkert á mér(ég reyna að finna mér eitthvað annað að horfa á eða gera.)

Það sem vil fá samþykki þitt fyrir er að þetta sé bara tímabundið.
því mér líður svo ömurlega þegar ég fatta að ég sé að hugsa svona um hann og HANS líf…
:S

takk fyrirfram

—————————————————————-

Sæl [nafnlaus].

Margar ástæður geta legið að baki þessu. Til að nefna nokkrar: þú getur verið að sjá eftir því á einhverju sviði meðvitundar eða undirmeðvitundar að þið hættuð saman; hrædd um hversu erfitt það verður að sjá hann með einhverjum vinkonum í vinahópnum; hrædd um að þú hafir misst af einhverjum sem á eftir að blómstra með öðrum sem hann gerði ekki með þér o.s.frv.

Þegar um vinahóp líkt og í þessu tilfelli er að ræða getur staðan verið mjög erfið. Það eina sem er hægt að gera er að setjast niður og ákveða hvort er mikilvægara, vinahópurinn eða það að líða strax betur og hætta að hitta vinahópinn. En að slíta sterkum vinahóp fyrir eitthvað þessu líkt er ekki eitthvað sem margir eru tilbúnir að gera og velja því oftast að reyna að þola það að umgangast þann sem vekur upp viðkvæmar tilfinningar.

Það sem ég tel að þú verðir að gera til þess að þetta grói sem hraðast er að setjast niður með sjálfri þér og virkilega hugsa og spá í hvað það er sem er að kalla fram þessa afbrýðisemi. Af hverju telur þú þig vera að finna fyrir slíkum tilfinningum fyrir strák sem þú hættir með í góðu fyrir þó nokkru síðan; sambandsslit sem virðist ekki hrjá þig að öðru leyti en þessu (ekki satt)?

Að finna fyrir tilfinningum líkt og þú ert að finna fyrir núna er algengt og fólki finnst jafnvel sjálfsagt, líkt og það „eigi“ að gerast, en það er ekki mín skoðun. Það er alltaf ástæða fyrir tilfinningum, sama hvaða tilfinning og hvenær hún birtist. Til þess að geta gengið glöð inn í vinahópinn aftur verður þú að komast að því hvaða ástæða liggur að baki því að þú átt svona erfitt með þetta. Ertu enn skotin í honum? Ertu hrædd við að vinkonur ykkar dragi fram eitthvað æðislegt í honum; eitthvað sem ekki kom fram í ykkar sambandi og þar af leiðandi lætur þér líða eins og þú hafir verið ástæðan/gert mistök sem leiddu að sambandslitum ykkar? Eitthvað annað? Þú ein veist svarið og það mun mjög líklega ekki koma af sjálfu sér.

Ef það að sitja og hugsa ein með sjálfri þér kemur þér ekki nær niðurstöðu, fáðu vinkonu til að ræða þetta vel og lengi með þér þangað til að þú skilur tilfinningar þínar betur. Tilfinningar þínar eru það sem eru með þig í fangelsi í augnablikinu, ekki hann eða hans mögulega hamingja með annarri stúlku úr vinahópnum. Þegar þú loks kemst að því hver raunverulega ástæðan fyrir afbrýðiseminni er, ertu komin með eitthvað til að „vinna með“. Þá fyrst getur þú tekið viðeigandi skref til þess að þessi tilfinning hverfi; þá fyrst veistu hvernig hægt er að leysa málið.

Þú spurðir hvort þetta væri ekki tímabundið. Jú, mjög líklega er það svo. Tíminn græðir flest sár, allavega setur „stóran plástur“ á þau, en með því að skilja tilfinningar þínar einnig í stað þess að bíða einungis eftir að tíminn „geri sitt“ er því betra því sársaukinn mun dofna strax, jafnvel hverfa alveg – öfugt við það sem mögulega gerist ef þú lætur tímann einann um verkið. Einnig, með fyrrnefndri aðferð, ertu stóru skrefi nær því að „skilja sjálfa þig“ – vita af hverju þér líður eins og þér líður – og þar af leiðandi ertu að móta með þér einskonar „forvörn“ gegn því þegar/ef eitthvað svipað gæti gerst aftur.

Því virkari part sem við tökum í það að melta og vinna með tilfinningar okkar til hins ítrasta, því betur skiljum við okkur til framtíðar, sem og erum fastmótaðri og sterkari persónur fyrir vikið.

Skildu sjálfa þig – þá fyrst færð þú virkilega stjórn yfir þér og öllum þínum tilfinningum.