Sæll Fróðleiksmoli.
Ég á við smávegis leiðindi að stríða. Ég og önnur stelpa vorum saman í 2 mánuði fyrir akkúrat ári síðan, og vá.. það var það besta sem ég hef nokkurntíma upplifað.. Við höfðum oft djammað saman áður en við byrjuðum saman, fann alltaf eitthvað til hennar og hún til baka. 17 júní semsagt byrjuðum við saman og get varla lýst þessari tilfinningu.
Eg semsagt bjó á Akureyri þá, ég var að fara að flytja eftir 2 mánuði til Reykjavíkur, eg vissi það en samt byrjaði eg með henni.. hun vissi það líka að ég væri að fara að flytja en við ákváðum bara að gera þetta, veit ekki hvort það hafi verið mistök en þetta hefur haft áhrif a mig síðan. Eg get ekki talað við aðrar stelpur, eg bara get það ekki, það er útaf því það er engin eins og fyrrverandi mín.. engin hún er svo einstök og ógeðslega yndisleg :( Og ég er svo viss að ég eigi aldrei eftir að finna neina eins og hana. Samt alltaf þegar eg fer norður á ak þá förum við a djammið saman og þá gerist alltaf eitthvað, get ekki sleppt því.. En það mundi vera betra fyrir mig að sleppa því því þá hætti eg að hugsa um þetta alltaf.. Eg sjálfur veit ekki ástæðuna afhverju eg get ekki talað við aðrar stelpur? Er það útaf því eg er ekki enn komin yfir hana, það hlýtur að vera, langar samt svo að geta það. Varð bara að létta þessu af mer. Takk.
———————
Sæll [nafnlaus].
Við spurningu þinni er til bæði mjög einfalt og talsvert flókið og/eða ítarlegt svar eftir því hvað hverjum og einum finnst. Ég ætla að reyna við það síðara.
Við sem félagsverur göngum í ákveðið hlutverk í hvert skipti sem við eigum í samskiptum við aðra. Þegar þú ert með vinum þínum ertu í einu hlutverki og þegar þú ert með fjölskyldu þinni ertu í öðru. Þú gerir þér eflaust grein fyrir því sem ég er að tala um því öll vitum við hversu mismunandi við hegðun okkur eftir því í hvaða félagshóp við erum hverju sinni. Þú talar ekki eins við vini þína og foreldra o.s.frv.
En hvað hefur það með þetta að gera?
Þegar þú kynnist stúlku þar sem möguleiki er fyrir rómantískum hugleiðingum ykkar á milli, gangið þið bæði inn í ákveðið hlutverk, ef hún ber sama hug til þín, til þess að láta þá þróun sambands ykkar ganga sem einfaldast. Í þessu hlutverki dregur maður fram það allra besta í fari manns til þess að heilla og höfða til hinnar manneskjunnar þar sem framtíðarkynni og samband eru takmarkið hjá ykkur báðum. Þetta er eðlileg hegðun og skal ekki talin grunnhyggin.
Málið er, að á þeim stutta tíma sem þið hafið þekkt hvort annað eru þið enn í því hlutverki í garð hvors annars, þar sem þið gerið sem mest af því að vera sem mest heillandi og elskuleg að öllu leyti, gerandi hvað sem er til að styrkja og auka við nautnina sem fylgir aðstæðunum. Þessi tími er það sem margir „gráta“ þegar hann „endar“, því þessi tími getur verið mjög skemmtilegur, uppfullur af losta, spennu og ævintýraþrá hjá báðum aðilum.
Hefur þú einhverntímann horft á Hollywood ástarsögu þar sem par kynnist, verður dolfallið af hvort öðru og fær ekki að vera saman af eilífu? Þetta er svo sárt því þau eru svo ástfangin og aðstæðurnar eru svo dramatískar – og þegar þau eru slitin í sundur eyða þau ævinni í að gráta þetta frábæra samband sem þau fengu einungis að upplifa í stuttan tíma. Málið er hinsvegar að þegar samband fær að þroskast og vaxa tekur raunveruleikinn við og ævintýrakeimurinn dofnar. Við taka þeir hlutir sem raunveruleikinn krefst að við tökum á, svo sem: sjúkdómar, slys, veikindi, fjárskortur, rifrildi/ósætti um hitt og þetta, o.s.frv.. Þegar raunveruleikinn kallar dofnar ævintýraljóminn. Hinsvegar tekur við sterk og langvarandi ást og væntumþiggja, en einungis ef sambandið er það sterkt að það getur unnið í gegnum þá erfiðleika sem lífið hefur upp á að bjóða.
Svo kemur spurningin aftur, hvað hefur þetta allt með þína aðstöðu að gera?
Þú og þessi stúlka hafið einungis fengið að upplifa fyrsta hlutverkið af mörgum sem fylgja sambandi – og þar af leiðandi því hlutverki þar sem allt snýst um ævintýrið, lostann og upplifunina. Þar af leiðandi finnst þér að mörgu leyti að þú sért að missa af einhverju betra en allar aðrar stúlkur hafa upp á að bjóða, því þú hefur aldrei fengið að kynnast öðrum hlutverkum ykkar í sambandinu; þegar ævintýraljóminn hverfur og raunveruleikinn tekur við. Ég er alls ekki að segja að þessi stúlka geti ekki verið mjög frábær jafnvel ef þið hefðuð komist yfir á það skref, heldur er ég að segja að ef ég væri þú myndi ég ekki gráta hana sem eitthvað einstakt; eitthvað sem engin önnur stúlka hefur upp á að bjóða vegna þess einfaldlega að þú hefur aldrei fengið að kynnast henni í raun, heldur einungis part af henni; þann part sem segir í raun hvað minnst um manneskjur, því hversu mikið veistu um einhvern þar sem allt er ævintýri og fátt ef ekkert er erfiði?
Það sem virkilega segir til um hversu góður maki einhver reynist manni er í rauninni reynslan ein og sér af þeim maka og hversu vel sá maki reynist í blíðu jafnt sem stríðu.
Ég er að segja þetta allt saman til að þú gerir þér grein fyrir því að tilfinningin að þú eigir aldrei eftir að finna neina aðra sem er eins og hún er byggð á svo litlum upplýsingum og upplifunum, margar hverjar sem gætu verið einungis sykurhúðuð útgáfa af ævintýri í stað raunveruleika. Til þess að gráta eitthvað sem einstakt þarf maður að þekkja það til hlítar, eitthvað sem er ekki til staðar hjá þér og þessari stúlku.
Gráttu hana sem möguleika á einhverju frábæru, en ekki sem eitthvað einstakt sem þú átt aldrei eftir að finna aftur. Þú verður fljótari að jafna þig á slíku því það er hellingur af frábærum möguleikum í lífinu, trúðu mér.
Til að þú mættir gráta hana sem eitthvað einstakt hefðir þú þurft að vera með henni í langan tíma og gengið í gegnum þykkt og þunnt með henni. Þá fyrst veit maður hversu einstakur maki getur virkilega verið ef sá maki er stoð og stytta í gegnum allt sem lífið hefur upp á að bjóða.
Ef þú og þessi stúlka sjáið fram á möguleika að fá að prufa þetta af viti í framtíðinni, endilega reynið. En ef það er lítill sem enginn möguleiki á því myndi ég mæla með því að þú hættir að djamma með henni og „láta eitthvað gerast“ því að missa af frábærum möguleika líkt og hún virtist vera er eins og að vera með opið sár. Í hvert skipti sem þú hittir hana og þá sérstaklega ef „eitthvað gerist“ rífuru sárið upp þegar það var komið á góða leið með að gróa. Leyfðu sárinu að gróa og reyndu að gleyma henni og halda áfram með líf þitt ef það er ekki möguleiki á framtíð hjá ykkur. Annars muntu festast í vítahring sem erfitt getur reynst að brjóta sig úr.