Sæl öllsömul.
Að þessu sinni ætla ég að skrifa um afbrýðisemi og þær ástæður er ég tel að liggi að baki henni. Að venju vil ég minna á að
hér er einungis um mínar persónulegu skoðanir að ræða, engar óhrekjanlegar staðreyndir.
Vonandi hafi þið gagn sem gaman af.
———————————————————
Til að byrja með ætla ég að taka það fram að um tvær tegundir af afbrýðissemi er að ræða í minni bók: Afbrýðissemi í heilbrigðu sambandi og „tálsýndar afbrýðisemi“.
Afbrýðissemi í heilbrigðu sambandi
Þegar um afbrýðissemi í heilbrigðu sambandi er að ræða, það er að segja sambandi þar sem báðir einstaklingar virðast vera hamingjusamir með hvor öðrum, ekkert brot á trausti hefur átt sér stað eða annað slíkt; þá er nánast hægt að telja það öruggt að vandamálið liggur í einu eða báðu af eftirfarandi, annað hvort hjá öðrum einstaklingum innan sambandsins eða báðum:
1. lágu sjálfstrausti
2. vandamáli úr fortíðinni
Þessar ástæður geta staðið einar og sér, eða verið algjörlega samspunnar. Þegar þessi vandamál eru til staðar liggur vandamálið nánast eingöngu hjá þeim sem á við afbrýðisemina að stríða - og ber þeim einstakling að gera sér grein fyrir því, samþykkja að vandamálið liggi hjá honum og takast á við það.
Ástæðurnar tvær
Að takast á við lágt sjálfstraust er meira en að segja það. Ef lága sjálfstraustið er beintengt vandamáli úr fortíðinni, það er að segja einu atviki, er nauðsynlegt að gera hvað sem hægt er til að takast á við það. Vandamál af slíku tagi eru oftar en ekki framhjáhald fyrri maka, framhjáhald einstaklingsins sjálfs (sem þar af leiðandi upplifir öryggisleysi þar sem einstaklingurinn veit að slík hegðun er „raunveruleg“) og svo framvegis.
Hvað svo sem vandamálið er mun lausnin felast aðallega í samskiptum við maka sinn; tjá honum vanlíðan sína varðandi svik fyrri maka eða mistök af eigin hálfu - eða hvað annað sem kyndir undir núverandi öryggisleysi í sambandinu. Ef vandamálið er það erfitt eðlis að samskipti við maka eru ekki fullnægjandi vegna einhvers (samskiptaörðugleika, mismunandi viðhorfa o.s.frv.) er möguleiki að leita sér utanaðkomandi aðstoðar, sem dæmi hjá sálfræðingi.
Ef vandamálið liggur aðallega í litlu sjálfstrausti, sem og á til með að vera í einu eða öðru formi: „ég er ekki nógu góð/ur fyrir maka minn – hann/hún mun fara frá mér“, er nauðsynlegt að komast að rót vandans; hvar ástæðan fyrir svo litlu sjálfstrausti liggur. Besta leiðin til þess að komast yfir slíka vöntun á sjálfstrausti er líkt og áður samskipti, annað hvort við maka eða vini (þó skal maki ávallt fá að vera að fullu „inní“ málunum, hvort sem hann er aðal ráðgjafi til úrlausnar eður ei). Oft mun vandinn þó reynast talsvert flókinn og rótgróinn og getur reynst nauðsynlegt að leita sér fagmannlegrar aðstoðar hjá sálfræðingi ef engin framför á sér stað með maka eða vinum.
Að laga umræddar ástæður getur reynst erfitt og flókið - en fólk skal muna að ef þessar ástæður eru ekki teknar fyrir og leystar munu þær hrjá öll samskipti kynjanna hjá tilteknum einstakling, jafnvel ævilangt, sama hver framtíðar maki mun vera.
Tálsýndar afbrýðisemi
Eins og ykkur hefur eflaust dottið í hug kalla ég þetta tálsýndar afbrýðisemi vegna þess að hér er ekki um raunverulega afbrýðisemi að ræða, heldur um annað hvort ósamræmi í viðhorfum eða óæskilega og óviðeigandi hegðun.
Þegar um ósamræmi í viðhorfum er að ræða liggur ástæðan í fortíðinni, þá aðallega uppeldi og annarri félagslegri mótun. Sem dæmi er snerting ýmiskonar mjög mismunandi milli fjölskylda. Þetta gæti leitt af sér að þú eða maki þinn gæti talið ákveðna snertingu viðeigandi/vinalega á meðan hinn aðilinn telur hana óviðeigandi/kynferðislega (hér skal þó taka fram að auðvitað eru ákveðin mörk sem allir úr vestrænu samfélagi kunna og vita hvar línan liggur, sem dæmi brjóst eða kynfæri o.s.frv.).
Ef vandamál af þessu tagi kemur upp er lausnin líkt og áður samskipti. Ræða verður í rólegheitum hvers vegna tiltekin hegðun átti sér stað og hverjar ástæðurnar eru fyrir að aðilum finnst sú hegðun viðeigandi jafnt sem óviðeigandi. Markmiðið með þeim samræðum er að skilja viðhorf maka síns og komast að sameiginlegri niðurstöðu um framtíðar hegðun sem báðir makar eru sáttir með og spilar ekki gegn þeirra skynsemi.
Ef um óæskilega og óviðeigandi hegðun er að ræða er staðan önnur. Til að byrja með getur línan milli óæskilegrar og óviðeigandi hegðunar og ósamræmi í viðhorfum verið þunn og erfið að greina, en hún er til staðar. Sem dæmi hef ég í aðstoð minni oft fengið til mín fólk (þó oftast stúlkur) sem hefur lent í því að finna/komast að „MSN hössli“ hjá maka sínum. Þeir einstaklingar sem hafa átt í slíkri hegðun hafa oft reynt að fela sig á bak við ósamræmi í viðhorfum - en eins og ég nefndi áður, þá eru ákveðnar athafnir sem almenn vestræn skynsemi gerir okkur kleyft að setja tiltekna hegðun réttu megin við línuna - og slík hegðun sem „MSN hössl“ er fellur einfaldlega í flokk með óæskilegri og óviðeigandi hegðun. Það er einfaldlega aldrei hægt að réttlæta með einu eða neinu móti þá hegðun að vera að reyna við aðra í gegnum netið og fela slíka hegðun frá maka sínum.
Þótt reglur um samskipti kynjanna séu að mestu óskrifaðar eru þær þó ansi skýrar varðandi ósæmandi hegðun í sambandi í augum þeirra sem hafa eðlilega greind. Sem dæmi ertu ekki að segja vinkonu kærustunnar þinnar hvað hún sé „geðveikt hot“ og að þú værir til í að hitta hana einhvern daginn - og reynir svo að fela það bak við ósamræmi í viðhorfum þegar að útskýringu kemur í samskipum við maka þinn.
Hver lausnin er þegar maki er sekur um óæskilega og óviðeigandi hegðun er mismunandi, en felur oft í sér sambandsslit (þó fer það eftir eðli og alvarleika hegðunarinnar). Það sem ég vil hér hinsvegar koma á hreint er að aldrei skal vanlíðan eða áhyggjur af slíkri hegðun vera talin sem afbrýðisemi. Því miður kemur það oft fyrir að fólk á það til með að réttlæta óæskilega hegðun maka síns fyrir sjálfu sér og jafnvel halda að það sé að vera afbrýðisamt, eða trúa maka sínum þegar hann segir að þetta sé bara afbrýðisemi og ekkert annað.
——————————————
Afbrýðisemi er aldrei tilefnislaus og byggir ávallt á vandamáli sem ber að leysa, hvort sem það vandamál er í höndum þess sem er afbrýðisamur (þá í formi lágs sjálfstrausts eða vandamáli úr fortíðinni), í höndum maka sem er að sýna óæskilega og óviðeigandi hegðun eða í formi mismunandi viðhorfa. Hvert svo sem vandamálið er, er það vandamál sem þarf að leysa til þess að sambandið geti orðið hamingjusamt á ný.