Sæl öll sömul.
Ég var að líta yfir /romantik eins og vani liggur fyrir þegar ég sá korkinn hennar Miracle. Þar sem púlið er í smá lægð langaði mig endilega að skrifa smávegis um ástina og hvort það sé í raun þess virði að elska.
Miracle lýsir því yfir að hún sé næstum hætt að trúa á ástina og öllu því sem henni fylgir. En því miður verð ég að vera henni ósammála – og er ég nánast fullviss um að hún muni breyta um skoðun með tímanum – sérstaklega þegar fiðrildi gleði og hrifningar fara aftur að fljúga um í maga hennar :)
———————————-
Að mínu mati er það engin spurning að það er ávallt þess virði að láta reyna á ástina, sama hversu oft maður hefur lent í ástarsorg – jafnvel þegar um missi (dauðsfall) á elskhuga/ástvin er að ræða.
Afhverju finnst mér þetta?
Vegna þess að þrátt fyrir að það sé hryllilega sárt að missa ástina, þá er það oftast jafn yndislegt – og oft á tíð yndislegra að finna hana aftur, hvað þá ef maður er svo heppinn að finna hana til framtíðar!
Að mörgu leyti myndi ég segja að ástin er það sem lífið snýst um. Hvað erum við annað en summa reynslu okkar og tilfinninga? Hvaða tilfinning getur fangað hjarta okkar sterkar heldur en ástin – og ástin ein?
Ef þið spáið í líf mannskepnunnar, þá er ekki margt sem okkur býðst í formi upplifunnar á þessari jörð sem lætur okkur „lifa“ eins mikið og það að vera ástfangin – eða fyllir hjarta okkar og sál af eins mikilli hlýju og nánd líkt og ástin getur gert.
Persónulega finnst mér ég aldrei beint vera að lifa lífinu að fullnustu nema þegar ég er að deila því með elskhuga mínum – og skil þess vegna mjög vel þegar fólk talar um ástina sína sem „betri helminginn“. Hver einasta upplifun er sterkari, eftirminnilegri og yndislegri heldur en þegar maður er einn á báti – sama hvort um kúr upp í sófa eða stjörnubjartan himinn á ísköldu vetrakvöldi er að ræða.
Og eitt það yndislegasta sem ástin á það til að hafa í för með sér er að bjóða nýju lífi velkomnu inn í þennan heim. Og ef ástin funheit kyndir líf þeirra sem stíga það skref í sameiningu – þá mun barnið mun líklegra en ella eiga farsæla framtíð fyrir sér.
———————————-
Já – þessi veröld er oft á tíð grimm og ljót á næstum hvaða sviði sem er. Samskipti kynjanna eru þar engin undantekning. En staðreyndin er sú að ekkert af þessu væri þess virði ef ekki væri jafnvægi til staðar.
Hvað væri ást ef ekki væri til hatur? Hvað væri gleði ef ekki væri til sorg?
Hugsið málið. Ef samskipti kynjanna væru ekki eins gífurlega sársaukafull, margsnúin og erfið líkt og þau raunverulega eru, haldið þið að það væri eins eftirsóknarvert og yndislegt að finna að lokum hinn „eina sanna/einu sönnu?“
Við vitum öll af reynslu hvernig við virkum. Allt sem við fáum upp í hendurnar er eitthvað sem við fáum fljótt leið á metum lítið – því án þeirrar baráttu sem fylgir því að eignast það „góða“ – yrði það góða að hinu venjubundna og þreytta.
Ef allir væru í góðu sambandi og ættu „hinn fullkomna maka“, yrði hinn fullkomni maki ekki lengur fullkominn, heldur vanabundinn og leiðinlegur – og það sem myndi vekja áhuga okkar og láta okkur finnast við „lifandi“ væri eflaust hinn „ófullkomni“ maki (eins og við myndum líta þann maka augum í dag útfrá okkar núverandi sýn á lífið).
———————————-
Haldið áfram að berjast fyrir ástinni!
Við sem höfum virkilega upplifað hana vitum innst inni að hún er ávallt þess virði – sama hversu erfitt það virðist vera að finna hana til framtíðar! Þið hin sem ekki enn hafið orðið þeirrar ánægju aðnjótandi – þið verðið bara að trúa okkur hinum ;)
Með ástarkveðju,
Fróðleiksmoli