Sæl veri þið.
Ein af mínum fyrstu greinum á þessu áhugamáli snérist um það hvernig best væri að stofna til fyrstu kynna með einstaklingi af hinu kyninu. Núna hinsvegar, þá langar mig að skrifa um hvernig gott væri að finna sér slíkan einstakling til framtíðar. Ég fékk hugmynd að þessari grein þegar ég var að svara notanda hér á huga.is varðandi nátengdan hlut, og ákvað útfrá því að gera ýtarlegri skrif um sama efni.
Vonandi hafið þið gagn og gaman af.
———————————————————————————————-
Þegar kemur að því að finna sér maka til framtíðar þá eiga margir til með að beita sömu aðferðum og þeir beita vanalega í að kynnast einstakling af hinu kyninu. Staðreyndin er hinsvegar sú, að þegar leitast er eftir einhverjum til þess að eyða ævinni með, þá eru allt önnur gildi sem skipta máli heldur en þegar leitast er eftir ást eða ævintýrum í núinu.
Þegar við erum ung og áhyggjulaus, þá snýst leitin oftar en ekki um það sem uppfyllir núverandi gildi og viðmið, s.s. hvað það er einna helst sem maður sækir eftir hverju sinni; en þegar leitað er eftir maka sem skal standa við hlið manns til lífstíðar, þá verða gildin og viðmiðin oftast allt önnur.
Þegar við leitum að maka án þess að þurfa að taka tillit til langtímagilda, þá er valið oftast einfaldara, eða allavega öðruvísi (fer eftir kröfum hverju sinni). Að þurfa ekki að hafa áhyggjur af fjárhagslegum stöðugleika eða beinu líkamlegu heilbrigði (einstaklingur reykir og drekkur óhóflega) gerir það að verkum að úr mun fleirum er að velja þegar kemur að því að velja sér maka í núinu. Þegar til framtíðar er litið, þá er hinsvegar margt sem tekur breytingum í vali og væntingum.
Þau gildi sem oft er leitast eftir eru meðal annars:
Fjárhagslegur stöðugleiki,
Líkamlegt heilbrigði (vímuefnanotkun, bæði lögleg sem og ólögleg)
Félagsstaða (glæpaferill, gjaldþrot og fl.)
Fyrri menntun sem og áætluð (oft beintengt fjáhagslegum stöðugleika)
Persónuleiki (ljúfur, sterkur, barngóður, traustvekjandi og fl. og fl.)
Staðsetning (nám erlendis, erlendur uppruni og fl.)
Þessi gildi meðal margra annarra eru eitthvað sem flestir þurfa að hafa í huga þegar kemur að því að velja sér framtíðarmaka.
En að vita þessi gildi er ekki nóg. Til þess að maður teljist samkeppnishæfur í leitinni miklu að hinum rétta maka, þá verður maður að uppfylla þau hin sömu gildi og maður vill að maki sinn upfylli.
Eins og ég sé heiminn, þá eru margar mismunandi leiðir til að lifa lífinu. Flestar þessar leiðir hafa sína kosti og galla, en að mínu mati, þá er ein ákveðin leið sem hefur langflesta kosti og langfæsta galla. Að fara þá leið er aðeins hægt ef haldið er á ákveðnum lykli, og sá lykill er persónulegur metnaður.
Drifkraftinn bak helstu væntingar til framtíðarmaka má finna í persónulegum metnað, allavega þeim gildum sem maður hefur hvað mest stjórn á að móta og betrumbæta.
Við skulum skoða fjórar af áætluðum aðal-væntingum sem fólk ber til framtíðamaka sinna:
Fjárhagslegur stöðugleiki & menntun
Til þess að uppfylla eina af þeim helstu væntingum sem fólk ber til maka sinna, þá ber manni að öðlast og geta boðið fjölskyldu uppá fjárhagslegt öryggi. Til þess að öðlast fjárhagslegt öryggi í vestrænum heimi, þá er einhverskonar menntun oftast nauðsynleg. Eins og staðan er í dag á vinnumarkaðnum í langflestum greinum, þá dugar ekki að „ná“ öllum námsgreinum, heldur þarf maður að ná það góðum einkunum að líklegt sé að maður verði valin yfir alla hina sem munu vera að sækja um sömu stöðu og maður sjálfur.
Eina helsta leiðin til þess að uppfylla þessa kröfu með nokkurri vissu er að leggja hart að sér í námi & starfi.
Líkamlegt heilbrigði
Til þess að einhver að hinu kyninu sé líklegur til þess að velja þig sem móður/föður barnsins síns, þá ber okkur að reyna að vera í hvað bestu líkamlegu ástandi og iðka sem fæsta óholla siði, líkt og ýmis konar fíkniefni. Fáir taka það í mál að velja sér framtíðarmaka sem líklegt er að látist af sökum óhollra siða/vanræktun á líkama um fertugt.
Líkamlegt heilbrigði ber einnig oftar en ekki í för með sér fallegan og vel sniðinn líkama, sem er án efa bónus þegar kemur að því að heilla einstakling af gagnkvæmu kyni til fyrstu kynna. Til þess að uppfylla þessa kröfu er nánast nauðsynlegt að rækta líkamann og minnka óhollustu/óvenjur ýmislegar.
Samfélagsleg staða
Félagsleg staða getur haft gífurleg áhrif á framtíð einstaklings. Sem dæmi má nefna einstaklinga sem leyfa sér slíkt kæruleysi eins og að taka þátt í afbrotum ýmislegum. Að lenda á sakaskrá getur gert það að verkum að þegar maður loks gerir sér grein fyrir mistökum sínum, þá er það um seinan. Sakaskrá fylgir þér ævilangt, og ef þú kemur einhverju inná hana sem fyrnast ekki, þá mun það fylgja þér að eilífu og gera það að verkum að þú gætir átt erfitt eða jafnvel ómögulegt með að fá vinnu, sama hversu vel menntaður þú ert.
————
Útlit, heilbrigði, menntun og fjárhagslegur stöðugleiki. Allt þetta er partur af hinum „eftirsótta“ vestræna pakka. Ef við erum með allt þetta „á hreinu“, þá erum við mun líklegri en ella til þess að „ná langt“ í hinum vestræna heimi.
En afhverju skiptir þetta svona miklu máli þegar kemur að því að finna framtíðarmakann? Afhverju þarf ég t.d. að vera með fjárhagslegan stöðugleika svo að einhverji vilji vera með mér til framtíðar?“
Að sjálfsögðu er ekkert af þessu algilt. Allt sem ég nefni hér fyrir ofan eru viðmið sem eru ætluð fyrir fjöldann, en ekki til þess að nota bókstaflega í einstökum aðstæðum. En staðreyndin er hinsvegar sá að í flestum tilfellum veljum við maka okkar á eftirfarandi hátt:
1. Eru „ytri“ eiginleikar tiltekins einstaklings nægilega heillandi og eftirsóknarverðir til þess að leitast eftir nánari kynnum?
2. Hefur atriði 1. verið uppfyllt? Einungis þá mun möguleiki á framtíðar kynnum, sambandi, ást, trúlofun, o.s.frv. eiga rétt á sér.
Til þess að við höfum úr nægilega mörgu að velja þegar kemur að því að finna sér maka sem þarf að passa sem nákvæmast við eins sérhæfar kröfur og við höfum öll búið okkur til varðandi okkar framtíðar maka, þá þurfum við einnig að gera okkar besta í að passa við þeirra sérhæfðu kröfur.
Ein sú besta leið sem við höfum til þess er sú, að fullkomna þær væntingar sem við vitum að flestir einstaklingar af sama menningarheim með sömu félagsgildi bera í brjósti sér til maka sinna (sem eru einmitt þau gildi sem ég nefndi hér fyrir ofan og fleiri til). Ef við værum á Indlandi, þá væru væntingarnar sem dæmi allt aðrar.
———————————————————————————————-
Að finna maka til framtíðar reynist flestum allt annað en einfalt. Til þess að líkurnar á því séu hvað bestar í öllu því hafi einstaklinga sem fyrir finnast, þá er best að gera hvað sem maður getur til þess að líkurnar á því að sá hinn sami einstaklingur taki eftir manni og finnist jafn mikið til manns koma (svo líkurnar á óendurgoldinni hrifningu séu hvað minnstar (sjá, persónulegur metnaður).
Það getur ekki talist slæmur hlutur að það sem gerir það að verkum að manni gengur hvað best í framtíðinni er einmitt sá hinn sami hlutur og gerir það að verkum að maður finnur einmitt þann maka sem maður hvað helst vildi finna og eyða ævinni með; er það nokkuð?
Hér með lýk ég mínum skriftum.
Ég vona að þið hafið haft gagn og jafnvel gaman af.
Kær kveðja,
Fróðleiksmoli
E.s - Nánari útskýringu á innihaldi greinarinnar má finna í svari mínu til “teapot” hérna fyrir neðan.