Sælir og blessaðir hugarar!

Þegar ég spurði hugara fyrir nokkru um hvað ég ætti að skrifa í næstu grein, þá vildu flestir fá að vita hvernig best væri að hegða sér í sambandi, s.s. hvað hægt sé að gera til að koma eins vel fram við maka* sinn og unnt er.
Ég mun að vísu ekki fjalla um allar hliðar sambanda þar sem það mun teljast ómögulegt, en ég mun reyna að ná fram ákveðnu yfirliti um þá helstu þætti er ég tel mikilvæga að fólk „hafi á hreinu“ í samskiptum við sinn lífsförunaut.

En nóg um það, hefjum skriftir.

———————-
*maki –a, -ar K 1 eiginmaður, eiginkona, annað hjóna. 2 Jafningi - Úr íslenskri orðabók
Ég tala um maka sem jafningja (þá á rómantískum grundvelli) en ekki eiginmann/eiginkonu, því ég hef ekki enn fundið orð sem hentar betur um bæði kynin og á við fólk á öllum stigum rómantísks sambands.



Manneskjan sem huglæg vera

Við erum öll félagsverur og öll höfum við mismunandi erfðir og uppeldi. Hvert og eitt okkar er einstakt bæði frá móður náttúru og umhverfistengdum þáttum og gerir það að verkum að við hugsum og hegðum okkur öll mismunandi.

Þetta leiðir til þess að þegar tveir einstaklingar fella hug hvor til annars; þá mætast tvær einstakar og sérstakar persónur hvor með sína hugmynd um lífið og tilveruna og hvernig skuli hegða sér í einstökum aðstæðum. Útfrá þessu verðum að vera einstaklega skilningsrík þegar kemur að venjum og hegðunarmynstri maka okkar.


Rifrildi og afleiðingar þeirra

Rifrildi fara oft á tíð gífurlega ílla með sambönd. Þegar fólk rífst þá er rökhugsun lítil sem engin; fólk særir hvort annað iðulega og fátt með viti kemur frá hvorum einstakling fyrir sig. Þegar fólk á við ágrening að stríða er nauðsynlegt að reyna að halda hlutum rólegum og sjá hvort ekki sé hægt að beita rökræðum til að leysa vandann.

Ein þau sterkustu tól sem við höfum í baráttunni við rifrildi eru: afstæð hugsun og málamiðlun.


Afstæð hugsun:

Að hugsa afstætt er eitthvað sem við verðum öll að þróa með okkur hæfileika til þess að gera. Að geta sett okkur í spor maka okkar og hugsað: „afhverju vill maki minn þetta?“ eða „afhverju lætur hann svona við mig?“
Ef við getum þetta og beitum þessari aðferð reglulega munu þær óskir eða kröfur sem maki okkar setur fram í sambandinu oft reynast auðskiljanlegri og þar af leiðandi á eftir að reynast einfaldara að vinna úr þeim árekstrum er myndast útfrá ágreiningarefnum innan sambandsins.

Málamiðlun:

Að finna málamiðlun á ágreining er eitthvað sem öll pör þurfa að geta gert. Stundum koma upp aðstæður þar sem báðir einstaklingar hafa hagsmuna að gæta og vilja fá sínu framgengt, en aðstæður bjóða einfaldlega ekki upp á það. Þegar sú er raunin er nauðsynlegt að pör beiti málamiðlun, s.s. að þau finni leið til þess að báðir einstaklingar fái eitthvað í sinn skerf.



Skynsamlegt atferli í rómantísku sambandi

Það er margt sem hægt er að gera til þess að forðast ágreining í sambandi. Staðreyndin er sú að ef við værum ekki mannleg og gerðum ekki mistök, þá gæti rétt atferli innan flestra sambanda líklega leitt til sambanda án alvarlegra ágreininga. Hér fyrir neðan ætla ég að nefna nokkra punta er gætu aðstoðað fólk í að „koma rétt fram“ í samskiptum við maka sinn.


Makann í fyrsta sætið:

Maki þinn skal ávallt koma fyrstur og vera mikilvægasta persónan í lífi þínu; að meðtöldum fjölskyldumeðlimum. Jú, fjölskylda og vinir skipta gífurlegu máli, en maki þinn er sá einstaklingur sem er þér nánastur og þú hefur plön um að deila æfinni með; og skal þar af leiðandi ávallt skipa fremstan sess í lífi þínu.

Með þessu er ég ekki að segja að vinir og vandamenn skuli ávallt „sitja á hakanum“ heldur að forgagnsröð atvika verður að vera rétt. Þegar eitthvað skiptir maka þinn máli sem hann vill að þú takir þátt í, skal það ávallt sitja efst í forgangslistanum.
Ef maki þinn vill eiga rómantíska kvöldstund með þér, þá ferð þú ekki og spilar tölvuleik með vinum þínum eða á rúntinn með vinkonunum.
Auðvitað verða báðir einstaklingar í sambandi að sýna svipaða skynsemi og tillitssemi og gera sér grein fyrir að aðrir hlutir eiga einnig rétt á sér líkt og vinir og áhugamál; en ef (sem dæmi) einstaklingur er búinn að sinna sínu áhugamáli eða vinum tvö eða þrjú kvöld í röð og makinn kallar á nána stund, þá skal sú beiðni ávallt virt.


Maki skal vera þinn besti vinur:

Ef maki þinn er ekki þinn besti vinur sem þú metur hvað mest; þá er eitthvað að. Sú persóna sem þú velur sem þinn lífsförunaut skal vera einmitt það: lífsförunautur.
Að velja sér manneskju til þess að eyða æfinni með er ekki einfalt val og skal þetta því ávallt haft í huga. Ef maki þinn er ekki þinn besti vinur, þá muntu á endanum taka þinn besta vin fram yfir maka þinn og fara að sinna maka þínum minna og minna; sem mun leiða til óánægðs maka og sambandsslita.
Einstaklingur verður að finna sig best með sínum maka; svo vel að honum líður betur í náveru hans heldur en í náveru annarra. Ef áhugamál þín og þess sem þú „féllst fyrir“ eru ekki þau sömu skulu þið finna ykkur sameiginleg áhugamál svo þig getið ávallt skemmt ykkur og átt saman góðar stundir.


Að rækta sambandið:

Að rækta sambandið er gífurlega nauðsynlegt ef þú villt ekki sjá það enda. Samband er lifandi vera; ef það fær ekki næringu, þá deyr það. Ef fólk man ekki eftir að gera eitthvað reglulega saman sér til tilbreytingar, þá verður flest annað en að eyða tíma saman skemmtilegra.
Hvers konar dagamunur getur gert alveg ótrúlega gott fyrir sambandið: að fara saman út að borða, að fara saman í leikhús, að taka sér göngutúr á fallegu vetrarkvöldi; svo eitthvað sé nefnt.
En slíkar athafnir eru ekki eitthvað sem endilega þarf til að eiga góða stund saman. Ekki meira en að kúra saman undir teppi og horfa á skemmtilega bíómynd getur leitt af sér nána og rómantíska stund sem kyndir undir ástarelda sambandsins.


Að vera rómantískur:

Rómantík er eitthvað sem fólk gerir iðulega of lítið af, þótt það sé gífurlega einfalt að gleðja sinn nánasta án mikillar fyrirhafnar.
Rómantík krefst ekki flugferðar til ítalíu, 50.000 kr. hálsfestar eða leðurjakka; heldur eitthvað fallegt og óvænt frá hjartanu.
Að kaupa eina rós eða geisladisk og gefa maka sínum getur gert svo margt fyrir svo lítið.
Að bíða með kertin kveikt, mynd í tækinu og matinn tilbúinn þegar maki manns kemur heim eftir erfiðan dag er einnig eitthvað sem ávallt ætti að falla í góðan farveg og gefa af sér sældarbros og ástríkt hjarta.


Að skipuleggja tíma sinn:

Að skipuleggja tíma sinn rétt er eitthvað sem þörf er að ná tökum á þegar maður á í rómantísku sambandi við aðra persónu. Sumir hafa gífurlega mikið að gera og þar af leiðandi getur tími sem fólk hefur aflögu til að eyða með hvort öðru oft verið að skornum skammti.
Til þess að maka líði ekki eins og hann fái enga athygli verður að skipuleggja tíma sinn þannig að þegar maður hefur tíma aflögu, þá fer hann að mestu, ef ekki öllu leyti í manns nánasta. Í þessu er einnig gífurlega nauðsynlegt að gera sér grein fyrir forgangsröðun, s.s. að ef þú hefur lítinn tíma aflögu þá getur þörfin orðið sú að lítill sem enginn tími fer í vini og áhugamál. Við þessu er ekkert að gera og hver sem telur sig í alvörunni ástfanginn af maka sínum ætti ekki að eiga erfitt með að framfylgja þessu.


Deiling fjárhags:

Þegar fólk byrjar saman kemur oft upp sú umræða „hvor eigi að borga“ eða hvort allur fjárhagur skuli vera sameiginlegur.
Varðandi þetta málefni eru til margar skoðanir, en persónulega finnst mér að fólk eigi nærri ávallt að halda sínum eigin fjárhag; þegar það kemst upp með það.

Afhverju finnst mér þetta? Vegna þess að peningar eru gífurlega stór partur af lífinu og margt sem gerir okkur að sjálfstæðum einstaklingum er innifalið í fjárhagslegu sjálfstæði. Sem dæmi má nefna að þú gætir t.d. aldrei gefið maka þínum gjöf því það væri ávallt gjöf „frá ykkur báðum“ í staðinn fyrir að vera eitthvað sem þú getur gert til þess að gleðja maka þinn á eigin spýtur.
Að hafa „heimilsreikning“ er sniðugur hlutur sem ég mæli með að öll pör sem búa saman láti verða af. Heimilisreikninginn er svo hægt að nota til þess að kaupa allt fyrir heimilið; sem dæmi má nefna mat og „snyrtivörur.“

En auðvitað er þetta ekki alltaf hægt; sem dæmi má nefna þegar barn kemur í spilið og móðirin þarf að vera heima til að sinna því og vinnur ekkert á meðan; eða þegar annar einstaklingurinn er eingöngu í skóla og hinn er að vinna.
Þegar fólk er komið út i langtímasamband sem jafnvel innifelur barn og buru gilda náttúrulega engar reglur og fólk þarf að fara eftir eigin hentugheitum.


Deiling húsverka:

Algengt deilumál í samböndum eru húsverk og hver skuli sinna þeim. Um þetta málefni verður fólk auðvitað að beita skynsemi sinni og bestu vitund til þess að leysa.

Sem dæmi: þegar annar aðilinn vinnur eða lærir mestallan daginn, en hinn er mest heima til með lítið sem ekkert að gera (á ekki um heimavinnandi einstakling með barn/börn), þá skal nátturulega meirihluti húsverka falla í hlut þess sem minna hefur að gera.
Þótt þetta hljómi sem eitthvað sem eigi að „segja sig sjálft,“ þá er það alveg ótrúlegt hvað fólk getur kvabbað útaf þessu tiltekna máli.

Fólk þarf að muna að bera tillit til maka síns.

Ef þú eða maki þinn kemur frá heimili þar sem hreinlæti var ekki eins „nákvæmt“ og hjá hinum aðilanum, þá skal ávallt reyna að sýna þeim aðila er finnst meiri þörf á hreinlæti tillitssemi. Samt verður sá hinn sami einnig að reyna að „slaka á“ með hreinlætiskröfur sínar eins mikið og mögulega hægt er. Eins og í svo mörgum tilfellum í samböndum, þá er málamiðlun hérna lykilatriði.

———————-


Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er um ekkert annað að ræða en að vera ávallt að hugsa um hvernig maður kemur fram við maka sinn. Ef þú ert sífellt að gagnrýna og velta fyrir þér þínum eigin gjörðum í sambandi; þá sérðu það vanalega þegar þörf er á bótum af þinni hálfu.

Það sem fólk á of mikið til með að gera er sífellt að velta sér upp úr vankostum maka síns í stað þess að líta í eigin barm. Ef fólk gerði meira af því að vinna í sínum eigin takmörkunum og ekki sífellt einblína á það sem betur mætti fara hjá maka sínum; þá væru vandamál innan sambanda mun fljótari að leysa sig en ella.

Ég vona að þetta hafi verið jafnt fróðlegur sem skemmtilegur lestur, og að þið teljið ykkur hafa haft gott af.

Lifið heil og munið að sinna þörfum maka ykkar; þá sinnir hann ykkar.

Kær kveðja,
Fróðleiksmoli