Sæl verið þið

Ég skrifaði grein ekki fyrir ekki svo löngu sem ég kallaði: „Almenn ráð til farsælla samskipta við hitt kynið (stílað á karlmenn)“. Það sem ég gerði mér síðar grein fyrir var að þessi grein átti (fyrir utan nokkra punkta) jafn vel við bæði kynin; ekki eingöngu karlmenn. Þess vegna ákvað ég að endurskrifa hana að parti til þess að bæði kynin geti lesið hana og haft sérstaklega gagn og einnig gaman af. Ég tek það fram að einnig leynist margt nýtt í þessari grein, þannig að þótt þið hafið litið yfir fyrri grein mína legg ég til að fólk lesi einnig þessa.

En nóg um það hefjum skriftir.

E.s. - Ég tek það fram að sumir partar þessarar greinar eru óbein/bein afrit úr fyrri grein minni.

E.e.s.– Samkynhneigðir ættu einnig að geta notfært sér flesta (ef ekki alla) punkta innan þessarar greinar þótt hún sé skrifuð með gagnkynheigð í huga.

———————————————————————————————————————

Þegar engin er reynslan af samskiptum kynjanna getur verið erfitt að taka fyrstu skrefin, enda er það alls ekkert skrýtið. Hvernig er best að nálgast einstakling af hinu kyninu er alveg gífurlega flókið og inniheldur svo margar breytur að það mun teljast ómögulegt að gera „allt rétt“ og verður fólk að sætta sig við hin ýmsu mistök. Sem betur fer erum við mennsk og þar af leiðandi gerum við öll mistök og „fyrirgefum” þau einnig. Í þessari grein ætla ég ekki að koma með hina „einu réttu“ aðferð til þess að nálgast hitt kynið, heldur bjóða nokkur ráð í átt að farsælum „fyrstu kynnum“. Þessi ráð geta verið frekar almenn og fólk getur eflaust hugsað með sér: „Þetta vissi ég nú sjálf/ur”; en það er alveg ótrúlegt hvað fólk getur „látið það vera“ að fylgja þeim, jafnvel þótt það sé sammála um gildi þeirra.

Áður en við fjöllum um „nálgunina” sjálfa, þá verður að skoða ýmis atriði sem þurfa að vera í lagi áður en sjálf samskiptin eiga sér stað. Hér á eftir koma nokkur af þessum atriðum er fólk skal ávallt reyna að hafa í lagi áður en lengra er haldið í samskiptum kynjanna:

Hreinlæti: Ég tel að það sé nokkuð öruggt að hreinlæti sér stór þáttur í langflestum tilfellum er kemur að hinu kyninu. Að halda sér hreinum og vel snyrtum er eitthvað sem er nánast alltaf heillandi og hreint og beint nauðsynlegt ef þig langar til þess að eiga farsæla sögu í samskiptum þínum við hitt kynið. Þetta hljómar ótrúlega „sjálfsagt“, en það myndi eflaust koma mörgum á óvart hversu oft hreinlæti „liggur á milli hluta” hjá sumum. Hlutir eins og langar neglur hjá okkur strákunum eða vanhrirðing á skeggi (fer af vísu eftir stúlkunni í sumum tilfellum; stúlkur eiga það til að heillast af miklum og óhirrtum skeggvexti, en tel ég það nokkuð óalgengt nú til dags) geta til dæmis verið mjög fráhrindandi í aumum sumra kvenna, sérstaklega er „fyrstu kynni“ eiga sér stað. Einnig skal reynt að vinna í „lýtum" á líkama, eins og bólum og þessháttar. Húðsjúkdómslæknar geta gert kraftaverk er kemur að slíkum vandamálum. Að leysa slík vandamál gerir til dæmis kraftaverk fyrir sjálfstraustið sem er gífurlega mikilvægur þáttur er kemur að því að mynda til nálægðar við hitt kynið.

Klæðnaður: Klæðnaður gerir meira en að hlífa þér frá umhverfinu. Klæðnaður er mjög oft „yfirlýsing“ þín á þínum innri manni, s.s. ákveðin hugmynd um hverskonar manneskja þú flokkar sjálfan þig sem; þess vegna ber að hafa það sterklega í huga þegar maður velur sér fatnað. Með þeim klæðnaði sem þú velur þér ertu að „auglýsa” sjálfan þig fyrir heiminum, þannig að ég ráðlegg að hafa þessa „auglýsingu" í samræmi við persónuleika einstaklings hverju sinni. Ekki leyfa sjálfum þér að ganga um í fatnaði sem á ekki við þig. Með því ertu að gefa ranga mynd af sjálfum þér og þar af leiðandi minnka
líkurnar á því að draga af þér einstakling af hinu kyninu sem heillast af þeirri réttu mynd sem þú hefur dregið fram af sjálfum þér í gegnum fatnað.

Mannasiðir: Já, mannasiðir. Einnig nokkuð „sjálfsagður“ hlutur, en það er alveg ótrúlega algengt að sjá fólk sem virðist algjörlega hafa sniðgengið nokkuð uppeldi í mannasiðum. Langflestar stúlkur og strákar heillast að fágaðri og kurteistri framkomu. Það þýðir lítið að klæða sig vel og snyrta ef maður mætir svo á stefnumótið og er ekkert nema ókurteis og með ruddaskap. Almenn kurteisi gerir manni gott í langflestum aðstæðum og er alveg gífurlega mikilvæg í samskiptum við hitt kynið. Fágaðir borðsiðir eru einnig mikilsmetinn hæfileiki og gera stefnumót á fínu veitingahúsi að ánægju í stað martraðar. Munið þó að ganga ekki of langt í hlutum eins og „yfirborðskurteysi”. Sumar stúlkur vilja t.d. lítið sjá til gamaldags herramennsku eins og að opna fyrir þær hurðir og annað þessháttar, því það á til með að gera loftið ópersónulegt og formlegt. Oft er betra að bíða með þessháttar hegðun þangað til að í samband er komið; þá getur þetta oft „slegið í gegn“ og verið rómantískt. Í þeim tilfellum er stákur býður stúlku á stefnumót ættu stúlkurnar að hafa bak við eyrað að mörgum stráknum finnst ekki við hæfi að stúlkan „ætlist“ til þess að borgað sé fyrir sig þótt oft sé sú hefðin (nema þeim hafi sérstaklega verið boðið) og ættu ávallt að bjóðast til að borga fyrir sig sjálfa; þótt enn þann dag í dag tíðkist partur af gömlu „herramennskunni” líkt og að strákurinn „bjóði“ stúlkunni flest á fyrsta stefnumóti (sem mörgum finnst alveg viðunnandi og skemmtileg „hefð” í samskiptum kynjanna). Það boð ýtir líka undir ánægju stráksins því honum finnst hann vera „göfugur" í gjörð sinni að borga og styrkir þar af leiðandi sjálfstraust hans, sem gerir jákvæða niðurstöðu stefnumótsins líklegri.

Ef þessir hlutir er voru nefndir hér fyrir ofan eru í lagi eru líkurnar á vel heppnuðu fyrsta stefnumóti líklegri að mínu mati. Að hunsa fyrrnefnda möguleika getur leitt til þess að persónuleikinn fái lítið sem ekkert að njóta sín þar sem það er staðreynd að útlit er mikilvægur partur í samskiptum kynjanna, þótt persónuleikinn sitji oftast ofar í forgangslistanum þegar fólk leitar sér að maka.

Aðra hluti er ber að hafa í huga áður en til „fyrstu kynna“ er stofnað eru huglægir hlutir er oftast reynist nauðsynlegt að hafa í góðu formi. Þótt þeir huglægu hlutir er reynast merkilegir í samskiptum kynjanna séu fjölmargir, þá eru nokkrir hér fyrir neðan sem ég myndi telja að væru mjög ofarlega á merinni og gott væri að rýna dálítið í.

Sjálfstraust: Sjálfstraustið er og verður alltaf númer 1, 2 og 3. Að hafa gott sjálfstraust er svo gífurlega mikilvægt í öllum samskiptum að það er nánast ekki hægt að lýsa því nægilega sterklega með orðum einum. Sjálfstraust er lykilinn að flestri velgengni í lífinu og í samskiptum kynjanna er þar engin undantekning. Ef maður hefur lágt sjálfstraust er best að leita til allra þeirra ráða sem til eru til þess að bæta úr því (fíkniefni eru algjör undantekning). Besta leiðin til þess að bæta sjálfstraust sitt er að vinna í fyrrnefndum hlutum sem bæta sjálfstraust manns eins og hreinlæti og útliti almennt. Að vera sáttur við útlit sitt er í mjög mörgum tilfellum lykillinn að góðu sjálfstrausti og vellíðan. Munið samt að láta sjálfstraustið aldrei hlaupa með ykkur í gönur og gera ykkur að „ego-istum".

Samskiptahæfileikar: Að kunna að halda uppi skemmtilegum samræðum er gulls ígildi þegar kemur að hinu kyninu. Ekkert er betra á fyrsta stefnumóti en sá hæfileiki að halda hinni „vandræðalegu þögn“ í algjöru lágmarki. Góðir samskiptahæfileikar eru oftast fylgifiskar góðs sjálfstrausts sem leggur enn meiri áherslu á það hversu nauðsynlegt það er að byggja upp sjálfstraustið og hafa það í góðu lagi. Til þess að standa sig vel á þessu sviði er einnig gott að kynna sér þann einstakling af hinu kyninu sem bjóða skal út áður en að sjálfu boðinu er komið. Gott er að komast að því hvað áhugamál sá einstaklingur hefur og hverjar skoðanir hans eru á hinum ýmsu málefnum er hann hefur áhuga á. Með því að kynna sér hann örlítið áður en að stefnumóti er komið er nánast hægt að tryggja það að alltaf sé um nóg að tala og forðast „árekstra” í samskiptum upp að ákveðnu marki (aldrei skal þó ljúga neinu til þess eins að ganga í augun á honum). Einnig er gott að komast að því hvað honum (s.s. einstaklingum) leiðist og dvelja því stutt á því umræðuefni ef það kemur upp.

Innsæi: Þrátt fyrir að innsæi sé oftast ekkert sem hægt er að þjálfa upp eða þróa með sér er gott að nefna það hér eingöngu til þess að gera fólki grein fyrir því og jafnvel leiða hugann að því meira en það hefur gert áður. Að kunna að „lesa" manneskju getur aðstoðað gífurlega. Með góðu innsæi er hægt að taka eftir hinum ýmsu hlutum sem maður myndi eflaust ekki taka eftir án þess; sem dæmi má nefna líðan, langanir og atferli. Einnig gefur gott innsæi manni möguleika á að lesa táknmál líkamans betur en ella (snýr persónan er um ræðir í áttina að þér og horfir beint í augun þín (bjóðandi stelling)? Hallar hún sér í átt að þér eða er hún með hendur og/eða fætur í kross? (lokuð stelling/varnarstelling) o.fl).

Mun fleiri atriði spila part í samskiptum kynjanna; því miður get ég ekki talið þau öll upp hérna.

En núna er loksins komið að því hvernig skal standa að nálguninni sjálfri. Hvernig best er staðið að „fyrstu kynnum“ er margþætt og byggist aðallega á þeim persónum er spila aðallhlutverk í þeim kynnum.

Fyrsta stefnumótið.

Fyrsta stefnumótið er mjög mikilvægt, því það er í eðli mannsins að dæma persónu sterklega eftir „fyrstu kynnum“ og getur verið úrslitavaldur í þeirri ákvörðun hvort að um framtíðar kynni verði að ræða eður ei. Hér ætla ég að henda fram nokkrum hugmyndum sem hafa reynst vel í að láta í ljós áhuga sinn á tilteknum einstakling, teljast algeng og eru þekkt aðallega vegna þess að þau bera oftar en aðrar í flestum tilfellum eitthvað gott af sér.

Bjóða á „rúntinn": Að bjóða einhverjum á rúntinn hefur ýmsa kosti í för með sér. Bíll bíður upp á töluvert lítið og lokað svæði sem hefur mikla nálægð í för með sér. Einnig býður rúnturinn uppá útvarp sem hægt er að stjórna að vild og þar af leiðandi undirbúa ákveðna „stemningu“ með viðeigand tónlist. Hvaða tónlist reynist best verður einnig að teljast persónubundið, en ef fólk er í vafa þá mun „Létt FM” oftast sinna hlutverkinu með ágætum ef haft er nægilega lágt stillt í því. Rúnturinn býður einnig upp á spjall án þess að þurfa að stofna til augnsambands fyrir þá sem feimnari eru til að byrja með, þar sem bílstjórinn skal ávallt hafa augun á veginum. Einnig býður rúnturinn upp á fjölbreitt útsýni og möguleikann á að leggja á rómantískum stað, svo sem sólsetur á Gróttu og annað í þeim dúr.

Bjóða í Keilu/Pool/o.fl: Að bjóða í einhverskonar tómstundun getur einnig reynst skemmtilegt og sniðugt. Að hafa eitthvað fyrir stafni á meðan stefnumótinu stendur getur oft komið í veg fyrir óþæginlegar þagnir og bíður upp á að athyglin þurfi ekki ávallt að vera á hinni persónunni. Einnig geta samskipti ávallt haldið áfram þar sem stöðugt er hægt að ræða um þá tómstund sem höfð er fyrir stafni og þar af leiðandi verður einfaldara að spinna upp ný umræðuefni þar sem tími gefst til umhugsunar.

Bjóða á kaffihús: Síðast en ekki síst er hægt að bjóða á kaffihús, sem er mitt persónulega uppáhald. Velja verður þó rétta stemningu fyrir tilefnið og þar af leiðandi rétt kaffihús. Best væri að reyna að finna lítið kaffihús með rólegri stefningu (róleg tónlist, lítið og frekar fámennt), kertaljósi og litlum borðum sem gerir nálægðina eins mikla og völ er á, án þess að valda fólki óþægindum. Eftir að fólk hefur spjallað í smá stund er feimnin að mestu farin ef samskiptin eru góð og líkurnar á framhaldi (öðru stefnumóti) ættu að aukast töluvert.

Á Íslandi er það töluvert algengt að bjóða í bíó á fyrsta stefnumóti. Persónulega tel ég það ekki besta valkostinn því að í bíó situr fólk hlið við hlið í um/yfir tvo tíma án þess að segja orð og án þess að kynnast nokkurn skapaðan hlut. Sumum finnst þetta þæginlegt því þeir telja að þetta minnki feimnina og stressið er fylgir fyrsta stefnumóti, en í minni reynslu er sú ekki raunin (persónubundið eins og flest annað).

„Djammið“ er annar staður sem fólk stundar mikið í von um að finna aðila af hinu kyninu til framtíðar kynna. Persónulega er ég ekki hrifinn af djamminu sem stað til þess að finna sér maka. „Djammið“ er bæði yfirborðskennt og uppfullt af hinum ýmsu göllum er kemur að þæginlegum og „arðbærum“ samskiptum kynjanna. Ég er ekki að segja að fólk hafi ekki fundið sér framtíðar maka þar, en persónulega tel ég að allar þær aðferðir er ég nefndi hér fyrir ofan reynist flestum mun betur í að kynnast einhverjum sem er líklegri að uppfylla löngunina um farsæl framtíðar samskipti (s.s „samband“). Ég lít að sumu leiti á „djammið“ líkt og ég lít á „lottó“: þú eyðir peningum í von um arð (býður líkama þinn í mörgum tilfellum sem „greiðslu“ fyrir möguleikann á „vinning“ (framtíðar kynnum)) og svo er það happ og glapp hvort miðinn þinn gefi eitthvað af sér (veist ekkert fyrir hvað þú varst að „greiða“ og þar af leiðandi gæti „vinningurinn“ verið enginn (og er samkv. minni bestu vitund langoftast raunin)).

Koss í enda stefnumóts.

Hér verð ég því miður að hrella ykkur því ég tel að ekki sé hægt að segja til um hvort koss eigi rétt á sér eður ei nema með því að lesa hinn aðilann í hvert skipti. Ekki er til neitt staðlað svar við hvort sniðugt sé að kyssa í lok stefnumóts. Oftast er hægt að sjá hvernig hinn aðilinn er stemmdur og hvort það séu góðar líkur á jákvæðum viðbrögðum eða ekki. Hér er ein góð regla: „Ef í efa, slepptu því frekar". Þú hefur ekki klúðrað neinu og persónulega tel ég að stefnumót númer tvö sé betur til þess fallið að smella af kossi heldur en númer eitt (nema kannski smá koss á kinn eða hendi; eftir því hversu „glettinn“ og sjálfsöruggur þú ert). En ekkert er heilagt er kemur að þessum þætti í stefnumótum.

Ekki verða skriftir mínar lengri í bili. Ég vona að þið hafið haft gagn og jafnvel gaman af og að ráð mín verði ykkur að einhverjum notum.

Kær kveðja,
Fróðleiksmoli