Fyrst og fremst finnst mér það skipta máli að vera hreinskilin við hvort annað. Reyndar tel ég þetta eiga við um öll sambönd, og samskipti almennt, ekki bara ástarsambönd. Það þarf alls ekki að vera sammála, en að geta sagt makanum hvað sem er tel ég hjálpa mjög mikið í sambandi. Til dæmis í sambandi við kynlíf; mér finnst það skipta rosalegu máli að geta sagt við makann „nei, ég er ekki tilbúin/nn í þetta“ eða „mér finnst þetta ekki gott, en kannski ef þú prófar svona“. Ef þú getur ekki sagt maka þínum svoleiðis hluti, þá er möguleiki (og jafnvel líklegt) að þér finnist kynlífið aldrei jafn gott og þú myndir vilja að það væri (eða veist að það getur verið). Samskipti á milli einstaklinga eru líka oft erfið ef þér finnst þú alltaf þurfa að passa það sem þú segir, það er svo auðvelt að samþykkja allt sem hinn aðilinn segir af því að þú ert hrædd/ur um að sá reiðist eða hlæji að þér.
Mér finnst líka skipta máli að vera vinir. Að geta talað saman um daginn og veginn, horfa saman á mynd, eða spila tölvuleiki saman finnst mér mikilvægt. Líklega hafa báðir aðilar ekki gaman af því nákvæmlega sama, það er eðlilegt, en um að gera að finna eitthvað sem þið getið gert saman annað en að kyssast og stunda kynlíf (sem er líklega stór hluti af sambandinu, og ekkert að því!), þó að það sé ekki nema bara til þess að geta talað um það seinna.