Sæl Hole
Svarið við þessari spurningu er flóknara en þú heldur.
Ástæðurnar fyrir því að sumir verða vinir en aðrir verða "eitthvað meira" eru margar og fjölbreytilegar. Ég ætla að telja upp nokkrar:
Aldur. Þegar maður er ungur og er að taka fyrstu skrefin í samskiptum kynjanna eru hlutir oft klaufalegir og skrítnir. Fólk veit ekki í hvora löppina það á að stíga og gerir ýmisleg mistök og tekur rangar ákvarðanir á við það hvernig þeim raunverulega líður. Eina leiðin til þess að vinna á þessu er með reynslunni, "þora", feta sig áfram í átt að árangri og í áttina að því sem maður raunverulega vill.
Viðhorf. Þegar við erum ung og nýbyrjuð að feta okkur í þessum málum höfum við oft frekar svart-hvítar skoðanir á því hvað það er sem við viljum. Oftar er ekki á þessum aldri geta þessi viðhorf verið yfirborðskennd (t.d. hann verður að vera svona hár með svona augu, svona vaxinn o.s.frv.) og kröfuhörð. Þetta gerir það að verkum að fólk lítur oft ekki við sumum ef þeir passa ekki nákvæmlega inn í það sem er þeirra þrönga mynd á hinum "fullkomna kærasta/kærustu".
Sjálfsmat. Öll höfum við miklar kröfur til okkar sjálfra, þá oft á tíð útlitstengdar. Við erum of grönn, of feit, með ljóta húð, of lítil, of stór, o.s.frv. Þetta gerir það að verkum að við þorum ekki oft á tíð að taka skrefin sem við þurfum að taka til þess að að sá sem við berum hug til taki eftir okkur og sjái okkur sem aðlaðandi og áhugaverð, þrátt fyrir að honum myndi finnast það ef við einungis þyrðum að "vera við" eins og við erum þegar okkur líður vel í eigin skinni.
Hvað gæti það verið í þínu tilfelli? Það er ómögulegt að segja með vissu. En miðað við þekkingu mína á huga unglinga þá eru það vanalega sjálfsmatið og viðhorfið sem hafa mest vægi.
Sem sagt:
- Ertu nógu frökk að sýna honum hvaða manneskju þú hefur upp á að bjóða? Ef ekki, af hverju ekki? Er eitthvað við sjálfsmatið sem varnar þig frá því að gera svo? Ef svo er, getur þú unnið í þeim þætti þar til að sjálfsmatið þitt batnar? Eru það raunhæfar kröfur sem virkilega eiga rétt á sér? Hér þarf oft að fara varlega því samfélagið er búið að búa til óraunhæfar kröfur til okkar, t.d. með útlit.
- Er viðhorf hans á þann hátt að þú passar kannski ekki inn í hans ímynd um þá kærustu sem hann vill? Eins og áður sagði, oft hafa unglingar svart-hvíta mynd af því hvernig kærastinn/kærastan þarf að vera, og oftast tengist það útliti fremur en persónuleika. Þetta breytist þó sem betur fer yfir í andhverfu sína með auknum aldri. Þá fer fólk að skilja að það er ekki útlitið sem skiptir máli, heldur þinn innri maður.
Kannski hefur þessi drengur kröfur til kvenmanna sem þú passar ekki inn í. Þá er komið spurning fyrir þig hvort þú viljir þá vera hans kærasta ef þú þyrftir að breyta þér til þess að hann vildi þig sem eitthvað annað en vinkonu?
Á maður að þurfa að breyta sér til þess að einhver kunni að meta mann? Flestir myndu segja nei við þessari spurningu. Ég segi einnig nei, en þó með viðauka. Þú átt aldrei að þurfa að breyta þér til þess að ganga í augun á manneskju, en stundum þarf maður að líta í eigin barm og spurja sjálfan sig hvað maður gæti gert betur? Gæti maður verið hressari? Er maður of feiminn þannig að fólk laðast ekki að manni (þá er gott að leita á sjálfstyrkingarnámskeið)? Gæti maður verið kurteisari? Gæti maður verið þæginlegri í umgengni? Gæti maður þurft að taka sig á í náminu (og fá þar af leiðandi betra sjálfsmat um eigin getu)? Gæti maður þurft að taka sig á líkamlega?
Öll höfum við miklar væntingar til maka. Áður en við förum að eltast við þær er oft gott að vinna með þær væntingar sem maður gerir til sín. Með því að vera ánægður með sjálfan sig í lífinu minnkar eða hverfur óöryggið og stefnuleysið í samskiptum kynjanna og fólk fær að sjá allt það sem maður hefur upp á að bjóða, án þess að það sé litað af kvíða eða öðru formi af vanlíðan sem gerir það að verkum að sá sem maður ber hug til fær aldrei að sjá fyllilega það sem maður hefur fram að færa.
Sjálfstraustið skiptir öllu. Með það að vopni eru manni flestir vegir færir.