Hér er bréfið:
Sæl veriði, ég er rétt rúmlega tvítugur strákur og á í smá vandamáli sem ég vona að þið getið hjálpað mér að leysa. Ég fékk um daginn ástarbréf frá einni bestu vinkonu minni sem ég er búinn að þekkja í svolítinn tíma. Þegar við kynntumst fyrst hafði hún áhuga á mér en ekki ég á henni þannig ég gerði henni grein fyrir því og við urðum bara vinir. Af og til eftir djamm býður hún mér heim til sín sem vinir en reynir alltaf að kyssa mig þegar við förum að sofa. Ég er núna búinn að ýta henni þrisvar í burtu. Ég hef aldrei litið á hana öðruvísi en vinkonu mína en þetta bréf gjörbreytti viðhorfi mínu til hennar til hins verra.
Í þessu bréfi tjáði hún ást sína á mér þar sem hún segist ekki þora því í persónu við mig og segir að við eigum ótrúlega vel saman sem er satt þar sem við erum alveg eins nánast. Hún segist vera búin að fatta að allt sem hún hafi verið búin að leita að hafi alltaf verið fyrir framan sig. Hún segir að henni langi ekkert að tala við aðra stráka því það er nóg að vera með mér.
Núna veit ég alveg ekkert hvað ég að gera þar sem í mínum augum er hún bara mjög góð vinkona mín og ég hef engan þannig áhuga á henni. Ég hef alltaf vitað að hún væri hrifin af mér og það kemur oftast best í ljós þegar við erum á djamminu þegar hún er ölvuð en þegar hún er edrú hagar hún sér bara eðlilega og ég tek ekkert eftir því að hún sé hrifin af mér. En núna segist hún vera ástfangin af mér! Ég veit bara ekkert hvað ég a´að gera!
Í gær sendi hún mér sms um morguninn og ég þorði ekki að svara. Svo sendi hún mörg sms í viðbót og kallaði mig ömurlegan fyrir að geta ekki talað við sig og ég hélt áfram að svara henni ekki þar sem ég vissi ekki hvað ég átti að segja þar sem hún vissi að ég væri búinn að lesa bréfið! Svo þegar ég kom heim sendi ég henni sms að ég hefði verið í vinnunni og gleymt símanum heima. Svo í gær vildi ég ekki tala við hana þannig ég sendi henni sms að ég ætlaði að leggja mig. Svo sendi ég henni ekkert eftir það og sendi henni bara í dag að ég hefði sofnað alveg og ekkert vaknað fyrr en núna um morguninn.
Ég sagði henni á endanum að ég þyrfti tíma frá henni og hún skildi það svo sem en þetta er búið að rústa vináttu okkar!
Með von um góð svör!
Gaui