Þótt það séu 10 mánuðir síðan hann sagði mér upp, er ég ennþá yfir mig ástfangin af honum. Eftir tveggja ára og níu mánaða samband og sambúð í u.þ.b. ár sagði hann mér upp án ástæðu. Ég velti því stundum fyrir mér hvað gerðist, hvað gerði það að verkum að hann sagði mér upp. Þetta kom eins og þruma úr heiðskýru lofti, án nokkurra viðvarana eða neitt. Allt í einu stóð ég uppi ein og yfirgefin. Ég sem hefði gert allt fyrir hann.
Hann veldur því að ég fæ fiðring í magann þegar ég hugsa um hann, ég sakna hans á kvöldin þegar ég fer að sofa, ég ýminda mér lyktina sem er af honum og rúmfötunum hans, lyktina sem ég fann alltaf áður en ég sofnaði á kvöldin og þegar ég vaknaði. Þegar ég hitti hann yfir daginn og þegar við gerðum eitthvað skemmtilegt saman. Ég sakna hans og hann virðist ekki ætla að hverfa. Í 10 mánuði hef ég upplifað helvíti. Ég get ekki gleymt honum, ég get ekki fengið hann en samt þrái ég hann svo mikið.
Ég hitti hann 28. desember, í fyrsta sinn í 3 mánuði. Bara það að sjá hann gerir þetta allt svo erfitt, en samt er svo gott að hitta hann. Ég finn til í hjartanu því ást mín til hans er svo sterk. Ef þetta er ekki ást sem ég finn fyrir í hans garð, hvað er þá ást? Ég myndi fórna öllu fyrir hann og flytja með honum á heimsenda ef honum dytti það í hug! Ég myndi gera allt fyrir hann!
En samt, þegar hitti hann sá ég það greinilega að hann er breyttur, hann er ekkert líkur þeirri manneskju sem ég varð hrifin af fyrir þremur og hálfu ári… hann er breyttur, mikið breyttur… en samt! Ég hef ennþá þessar sterku tilfinningar til hans, og þær virðast bara aukast og aukast, þótt ég geri mér alltaf meiri og meiri grein fyrir því að hann er breyttur, að hann er ekki sama manneskjan og ég var með, að þetta verði aldrei eins. Þetta er eins og vítahringur sem ég er föst í og veit ekkert hvað ég á að gera.
En þótt svo að við yrðum saman aftur myndi það líklegast ekki ganga upp. Hann hefði líkelga ekki þann kjark sem hann þyrfti til að standa með mér gagnvart ásökunum fjölskyldu hans og vina, sem einhverra hluta vegna þola mig ekki og rakka mig niður eins og þau fái borgað fyrir það. Og hingað til hefur hann alltaf staðið til hliðar og látið mig eina standa á móti þeim öllum. Það yrði að breytast svo við gætum verið ánægð saman, og það er það sem ég vil. En þetta er samt sem áður eitthvað sem ég held að hann gæti ekki gert, hann hefði ekki kjark til þess þótt hann vildi. Og á meðan við getum ekki verið saman verð ég að reyna að leggja ást mína til hans til hliðar svo ég geti haldið áfram að lifa…
Og þótt hann væri tilbúinn í að reyna upp á nýtt, verð ég að byggja sjálfa mig upp á nýtt áður en ég gæti stofnað til sambands við einhvern. Ég var gjörsamlega í rústi en er að ná mér upp úr því hægt og rólega.
Og sú tilhugsun að vera með einhverjum öðrum en honum skelfir mig. Ég hef einungis verið með honum og honum einum. Aðrir karlmenn hræða mig, ég verð óörugg og veit ekkert hvað ég á að gera. Ég er hrædd um að verða særð aftur. Mér finnst ég mjög brothætt, en mig vantar samt félagskap og náin samskipti við einhvern. Mér fyndist ég svíkja hann ef ég væri með einhverjum öðrum, það sem við áttum var svo sérstakt og ég er svo hrædd um að missa það ef ég væri með einhverjum öðrum. En kanski er þetta bara vitleysa í mér, eflaust.
Ég veit við erum hætt saman en einhvernveginn finnst mér ég tilheyra honum, að hjarta mitt tilheyri honum og honum einum. En þetta er svo erfitt. Ég þrái hann svo mikið en samt ekki. Hann hefur ekki sýnt á neinn hátt að ég skipti hann einhverju máli, og það kremur hjarta mitt. Það eitt að hugsa um hann veldur mér bæði sorg og gleði.
Ég varð að koma þessu frá mér… hér er enginn sem getur hlustað. Takk fyrir lesninguna og öll comment eru vel þökkuð