Það er nefnilega þannig að ég stend á svolitlum krossgötum í lífi mínu þessa stundina og gæti þegið dálitla hjálp því ég veit ekki alveg hvað ég get gert í þessu.
Á minni grunnskólagöngu (sem lauk síðasta vor) var ég með ákveðinni stelpu í bekk í mörg ár og fór ég að verða hrifinn af henni síðustu árin.
Núna er ég nýbyrjaður í menntaskóla og vildi það svo til að við lentum í sama skólanum.
En undanfarna mánuði áður en ég vissi þetta var ég eiginlega farinn að gefa hana upp á bátinn vegna ákveðinna efasemda um kynhneigð mína.
Ég hef hugsað mikið um þetta mál og veit ekki ennþá hvoru kyninu ég laðast meira að.
Hinsvegar veit ég að frá því að ég frétti að hún myndi fara í sama menntaskóla og ég og frá því að ég hitti hana fyrst, hef ég hreinlega ekki getað hætt að hugsa um hana og verð mjög stressaður (verð skjálfhentur og fæ hraðan hjartslátt) þegar ég hitti hana (get samt alveg haldið sjálfstraustinu).
Ég er búinn að hitta hana nokkrum sinnum síðan ég byrjaði í skólanum og hef spjallað við hana en ég hef ekki hugmynd um það hvort hún hafi einhvern áhuga á mér því að ég kynntist henni aldrei mjög mikið á meðan við vorum saman í grunnskóla.
Þar sem ég hef aldrei verið með stelpu og hef enga reynslu að svona málum bið ég ykkur kæru Hugarar um að veita mér einhverjar ráðleggingar í þessu máli og bið ykkur vinsamlegast að vera ekki með nein skítköst.