Örlögin eða einskær tilviljun?

Saga sem mamma mín sagði mér þegar hún var nýkomin úr jarðaför fyrrverandi samstarfsfélaga og hljómaði einhvern vegin svona:

Maðurinn sá, er var verið að jarða, var að norðan og var í ungmennahreyfingu þegar hann var yngri og þegar hann var 13 ára fór hann til Reykjavíkur á svona landsmót og þar hitti hann stelpu.
Þau urðu ágætis vinir og þegar hann fór heim aftur héldu þau sambandi og skrifuðust á.

Svo þegar þau komust á menntaskólaaldurinn, þá fór hann að sjálfsögðu í MA en hún í Húsmæðraskóla í Eyjafirði og í þeim skóla var hefð að strákunum úr MA var boðið yfir í Húsmæðraskólann og haldnir ýmsir skemmtilegir leikir.

Og svo í enda kvöldsins var fólk parað saman (veit ekki hvað var gert svo, hvort þau áttu að dansa eða hvað það var), en til að para saman þá dró fólk miða sem á var fyrri hluti úr frægri vísu eða ljóði og svo átti að finna þá manneskju sem hafði seinni hluta vísunnar.

Og maðurinn sem um ræðir fékk:
“Augun þín og augun mín,
ó þá fögru steina,..”


Og stúlkan úr Reykjavík fékk:
"Mitt er þitt og þitt er mitt,
þú veist hvað ég meina..
"
[Vísur Vatnsenda-Rósu]

Og þegar hann dó höfðu þau verið gift í 60 ár.
Hvort það voru örlögin sem leiddu þau saman, eða einskær tilviljun, þá finnst mér þetta æðisleg saga og hún er sönn.

Þó bendi ég á að ég gæti hafa ruglast á einhverjum smáatriðum eins og með staðsetninguna og hvort fékk hvaða hlut í vísunni en á heildina litið er þetta dagsatt svo best ég veit.