Mín saga er … soldið löng. Bear with it. Eða sleppið því að lesa. Gæti samt verið áhugaverður lestur ef þið hafið kynnst fjarlægðarsamböndum. ;)
—————–
Ég var að vísu búinn að gefa söguna í svona vague details áður… en spurning um að koma með eitthvað nákvæmara núna:
Árið 2004 fór ég til Japans sem skiptinemi. Ég er óttalega feimin manneskja og það síðasta sem ég var að búast við var að hitta kynnast einhverri stelpu sem hefði áhuga á mér. En það gerðist samt. Þegar ég var varla búinn að vera úti í mánuð er ég sendur á námskeið þar sem við 3 skiptinemarnir í héraðinu áttum að hitta innlenda skiptinema sem voru á leiðinni út… hún var í síðarnefnda hópnum.
Allaveganna, þarna var ég á námskeiðinu og við reyndar vorum ekkert að talast við fyrst um sinn, enda var ég lítið að pæla í stelpunum sem voru þarna… gat nær ekkert tjáð mig á japönsku (bara einfalda frasa) og þær kunnu lítið í ensku. En samt, um kvöldið var svo samkunda þar sem það var sameiginlegt hlaðborð og svo var fólk bara að skemmta sér, spjalla saman og jafnvel var fólk með skemmtiatriði. Hún og vinkona hennar reyndu að grípa nokkur tækifæri til þess að leika við einhvern pretty-boy frá Austurríki, en svo tóku þær upp á því að reyna að “stríða” mér eitthvað með sykurbráð. Upp úr þessari stríðni, þá fórum við að spjalla saman og vorum eiginlega óaðskiljanleg að spjalla saman og gera eitthvað sniðugt allt kvöldið. Skiptumst á e-mailum, en æ, ég vissi ekkert hvort þær myndu senda til baka.
Dagur tvö af námskeiðinu: Ég hélt þetta myndi ekki halda neitt áfram, en aftur hafði ég rangt fyrir mér. Enn og aftur vorum við tríóið óaðskiljanleg… sér í lagi ég og mín núverandi. Löbbuðum um borgina sem námskeiðið var haldið í og skoðuðum nokkra áhugaverða staði, borðuðum hádegisverð saman, skoðuðum fleiri staði, en svo kom að því að leiðir okkar skildu.
Ég kom heim þreyttur, enda búið að vera langur dagur, en svo smelli ég mér á póstinn minn um kvöldið og viti menn… þar biðu eftir mér tvö e-mail, eitt frá hvorri stelpunni, og við fórum að skrifa hvort öðru mails. Komumst að því að við notuðum öll þrjú MSN, og já. Fórum að tala saman, og það var mín núverandi sem var í rauninni meira áberandi í samskiptum mínum við þessar tvær stelpur.
Svo já, við byrjuðum að tala saman á fullu, e-maila hvort annað á fullu og hittumst einnig af og til, en það var samt erfitt þar sem hún bjó í 100km fjarlægð frá fósturfjölskyldu minni. Í eitt skiptið enduðum við á að fara á 9 tíma stefnumót (hefði verið 10 tímar ef við hefðum ekki beðið í klukkustund eftir hvort öðru á sitt hvorum staðnum), og það var það sem virkilega náði okkur saman. En þó svo að við vorum alveg ótrúlega ástfangin af hvoru öðru, þá var þetta ekki byrjunin á sambandi okkar, því 3 vikum eftir þetta þá fór hún til Bandaríkjanna. Í millitíðinni gátum við bara hitt hvort annað einu sinni í nokkra tíma þar sem það var allt brjálað að gera hjá okkur (hún í prófum og ég fór til Nagasaki yfir eina helgi og til Hiroshima í tæpa viku). Svo fór hún til Bandaríkjanna, en við héldum samt áfram að vera í e-mail samskiptum, ég ætlaði sko ekki að gefa hana upp á bátinn, jafnvel þótt það myndi líða LANGUR tími á milli þess sem við gætum verið saman.
Við héldum áfram samskiptum okkar þó svo að við værum í sitthvoru landinu (hún í Bandaríkjunum og ég í Japan), og hún hringdi nokkrum sinnum í mig á meðan ég var í Japan. Svo kom að því að ég færi aftur heim til Íslands, í byrjun febrúar, og þar ætlaði ég að halda áfram að vera í sambandi við hana, en samskiptum okkar hafði fækkað vegna þess að hún fór mun minna í tölvuna á meðan hún var hjá fjölskyldunni sinni úti. Svo kom að því að þegar ég hafði ekki fengið mail frá henni í tvær vikur var ég orðinn frekar áhyggjufullur. Þá var það sem ég fékk e-mail frá henni í gegnum pósthólf vinkonu hennar, þar sem hún sagði mér að fósturfjölskylda hennar hefði sett stólinn fyrir dyrnar gagnvart mér og núna mætti hún ekki hafa samskipti við mig þar sem „ég gæti haft þau áhrif á hana að henni myndi langa að fara aftur heim til Japans,“ sem var vitaskuld fjarstæða þar sem ég var staddur á Íslandi! En hún hafði engan atkvæðisrétt um þetta, og næstu fimm mánuðina heyrði ég nákvæmlega ekkert frá henni. Það eina sem heyrði af henni var í gegnum hina stelpuna af námskeiðinu (sem ég var búinn að nefna áður), sem hún fékk að vera í sambandi við, enda báðar skiptinemar þarna í Bandaríkjunum.
Ég heyrði næst í henni í lok júní, þegar fósturfjölskyldan „aflétti“ samskiptabanninu og lét hana m.a. fá pakkann sem ég hafði sent henni fimm mánuðum fyrr. Þegar hún kom aftur til Japan í byrjun júlí hringdi ég í hana og við töluðum saman alveg heillengi. Ég hringdi tvisvar enn í hana í sama mánuði, fyrir utan það að við héldum áfram að hafa samskipti við hvort annað í gegnum e-mail, og svo 30. júlí ræddum við um hvernig við stóðum frammi fyrir hvort öðru. Við vorum enn svakalega hrifin af hvort öðru, og það endaði á því að við ákváðum að byrja formlega saman, þó svo að þúsundir kílómetra aðskildu okkur enn.
Og núna, næstum því tveimur árum seinna, erum við enn saman og meira að segja búin að binda okkur saman enn frekar (nei, ekki þannig bundin…). Á þessum tveimur árum höfum við bara fengið að njóta þriggja vikna saman, en þessar þrjár vikur voru hreint æðislegar, enda fékk ég að kynnast henni mun betur og ég fékk að kynnast fjölskyldu hennar og vinum og þau fengu auðvitað tækifæri til að kynnast mér sem hefur í rauninni bara styrkt samband okkar tveggja.
Margir segja að ég sé alveg kolruglaður að vera að standa í þessu þegar við hittumst ekki nema á tveggja ára fersti, en þegar ég spyr sjálfan mig hvort það sé þess virði, þá er svarið alltaf já. Stelpan sem ég er með er alveg hreint yndisleg og mér finnst það samband sem við höfum í dag alveg þess virði að halda gangandi og reyna að láta ganga upp! Og þegar fólk spyr mig hvort ég óttist ekki að hún sé að halda framhjá mér þá segi ég nei, enda treysti ég henni alveg fullkomlega, alveg eins og hún treystir mér. Það er það sem hefur haldið þessu sambandi svona sterku allan þennan tíma: traustið góða!
Takk fyrir mig. :X