Ég er 16 ára strákur og er búinn að glíma við þunglyndi í um það bil 10-11 mánuði núna. Ástæðan var upphaflega sú að kærastan mín hætti með mér, en við vorum búin að vera saman í tvö og hálft ár. Við byrjuðum saman 13 ára og hættum saman í janúar í fyrra. Mig langar aðeins að segja frá því hvað hefur gerst síðan og hvernig þetta hefur komið niður á mér.
Eftir tveggja og hálfs árs samband hætti hún með mér og var tvær vikur að finna sér annan. Satt að segja var ég ekki hoppandi hissa vegna þess að akkúrat ári fyrr hætti hún líka með mér og var með öðrum í einn mánuð og kom svo aftur valhoppandi í fangið á blinda hálfvitanum mér.
Hvað um það, fyrst um sinn hélt ég fast í þá von að hún myndi átta sig á þessu, vegna þess að það gerði hún síðast. Ég hélt í þessa von í ca 7 mánuði þar sem ég er ekki týpan sem gefst upp þó á móti blási.
Ég missti sveindóminn með henni og hún missti meydóminn með mér. Það var ekkert nema ég og hún í meira en ár, þar sem við byrjuðum mjög ung að stunda kynlíf (alltof ung) og mynduðum mjög sterk tilfinningaleg tengsl og við gátum talað saman um ALLT. U.þ.b. einum mánuði eftir að hún hætti með mér var hún búin að sofa hjá hinum stráknum. Engin orð fá lýst þeirri reiði sem bullsauð innan í mér í margar vikur og mánuði á eftir og gerir raunar enn.
En samt sem áður gafst ég ekki upp. Ég var algjörlega blindaður af ást á henni og ég hugsaði sem svo að héðan í frá ætlaði ég að helga lífi mínu því að ná henni aftur og mér var alveg sama hvað ég þyrfti að bíða lengi eftir henni. Allan tímann var ég í sambandi við hana (þar sem við bjuggum u.þ.b. 30 km frá hvort öðru) í gegnum síma eða msn. Hún talaði alltaf við mig og ég kvaldist alltaf jafn mikið við að tala við hana. Hún sagði mér aldrei að láta mig vera eða neitt þó ég segði henni alltaf hvað ég elskaði hana mikið. Á þessum tíma var ég svo blindur og veikur fyrir innan í mér að ég sá ekki að auðvitað var bara þægilegt fyrir hana að geta alltaf haft mig sem vara, ef eitthvað skyldi nú koma upp á með hinn gaurinn.
Það fór svo að ég fór að loka mig inni í herberginu mínu dögunum saman og gerði ekki annað en að grenja, á milli þess sem ég reyndi allt hvað ég gat til að hugsa upp nýjar og nýjar leiðir til að fá hana aftur. Ég held að ég hafi reynt svo gott sem ALLT sem er mögulega gagnlegt. Hugmyndirnar virtust alltaf ætla að virka, þannig að ég fékk nýja von, svo fékk ég skellinn og hann var alltaf harðari en sá síðasti sem var á undan. Að sjálfsögðu fóru sjálfsmorðshugsanir á kreik og var ég oft kominn á ystu brún með það. Ég var hinsvegar svo heppinn að ég eignaðist vinkonu sem hafði barist við þunglyndi og komist út úr því og hún bjargaði lífi mínu algjörlega.
Ég fór að finna það að sterka og hrausta sálin sem ég hafði meðan ég var með henni var orðin eins og blóðugur vígvöllur og hún fór versnandi með hverjum deginum sem leið.
Það kom þó að því að þau hættu saman. Að sjálfsögðu gat ég ekki annað en að fyllast nýrri sterkri von. Eeen þau héldu áfram að vera bólfélagar. Skellurinn var svo svakalegur að ég hélt ég myndi missa vitið. Ég var við það að ærast úr reiði.
Upp úr því losnaði á endanum. Þetta var í júlí. Þá fór hún til útlanda og sagði mér áður en hún fór að hún ætlaði að reyna að hætta að hugsa um strákinn og fara út og reyna við einhvern þar til þess að gleyma honum. Sem var auðvitað alveg til þess að bæta mína líðan eða hitt þó heldur. Þegar hún kom heim fékk ég fátt upp úr henni annað en að hún hefði hitt strák og kysst hann.
Við þetta “lauslæti” lækkaði hún talsvert í áliti hjá mér. Ég fór líka að tala við aðra stelpu og varð mjög hrifinn af henni. Hún skildi mig líka fullkomlega og það var og er sjaldgæft. Ég tók þá stóru ákvörðun að ég skyldi gleyma minni fyrrverandi og vita hvað kæmi út úr þessu með hina stelpuna. Stuttu eftir að ég ákvað þetta hafði fyrrverandi kærastan mín samband og sagði að sér þætti þetta allt svo hrikalega leitt og hún sagði að hún hefði séð hvað hún elskaði mig mikið ennþá innst inni, hún sagði að hún hefði alltaf gert það innst inni. Ég var á báðum áttum. Átti ég að byrja nýtt líf með hinni stelpunni? Eða átti ég að sýna það af hverju ég hafði barist fyrir henni með kjafti og klóm í fleiri mánuði?
Ég hugsaði málið og þegar ég áttaði mig á því að hin stelpan hafði ekki áhuga á sambandi, ákvað ég að gefa minni fyrrverandi séns. Ég spurði hana af hverju hún vildi þetta. Hún sagði að hún væri ástfangin af mér sem persónu, mínum karakter. Hún lofaði mér því að gefa sig 110% í sambandið og lofaði því að ég þyrfti ekki að vera áfram þunglyndur því hún ætlaði að styðja mig í gegnum þetta og sýna mér skilning. Er hægt að neita svona góðu boði frá draumadísinni? Ekki gat ég það.
Þannig að, við byrjuðum aftur saman í lok ágúst. Í fyrstu var ég alsæll og þunglyndi mitt var lagt til hliðar. Hún talaði um framtíðina, talaði um að við skyldum verða gömul saman og eignast börn o.s.frv. En raunveruleikann er ekki hægt að forðast og ég fór að vera dapur og down án þess að vita nákvæmlega ástæðuna. Í rauninni er ástæðan flókin og ég nenni ekki að útskýra hana hér (þar sem þetta er nú frekar langur póstur fyrir). Mig langaði til þess að tala við hana um málið og reyna að leysa úr þessum vandamálum, eins og hún hafði lofað að gera. En hún var greinilega ekki tilbúin í það. Eftir eins mánaða samband hætti hún með mér, af því að hún vildi “vera ein”.
Við héldum sambandi og töluðum mikið saman. Eftir u.þ.b. hálfan mánuð var hún farin að spjalla við 19 ára strák, sem býr hinum megin á landinu, á msn. Ég spurði hana hvað þetta ætti að þýða, hvort hún ætlaði ekki að standa við ástæðuna sem hún hætti með mér fyrir. Hún sagði mér það skýrt og greinilega að þau væru bara vinir og ekkert annað. Annar hálfur mánuður leið og viti menn, hún fer þvert yfir landið til þess að hitta þennan strák sem hún hafði einu sinni á ævinni séð áður og fara í partí í sumarbústað með honum og vinahópnum hans. Áður en hún fór lofaði hún mér því að hún ætlaði ekki að sofa hjá stráknum, þar sem ég vissi að hún var hrifin af honum.
Það liðu nokkrar vikur áður en hún sagði mér loks sannleikann í öllu. Hún ákvað að segja mér allt. Allar lygarnar og bókstaflega allt. Hún sagði mér að hún hefði sofið hjá stráknum sem hún hætti fyrst með mér fyrir. Ég var semsagt með henni í heilt ár og hélt allan tímann að það væru bara ég og hún og ekkert annað.
Hún sagði mér að hún hefði sofið hjá öðrum strák sem ég vissi ekki um. Hún sagði mér að strákurin sem hún kynntist í útlöndum hefði puttað hana. Hún sagði mér að í þessum sumarbústað hefði ýmislegt átt sér stað og komst ég seinna að því að það var ekkert annað en kynsvall.
Að sjálfsögðu hætti ég að tala við hana og hef ekki talað við hana síðan, þó það séu liðnir um 2 mánuðir. Það eru takmörk fyrir því hversu reiður er hægt að vera og ég fór yfir þau takmörk þannig að úr því kemur ekkert nema deyfð og skilningsleysi.
Í dag er ég ónýtur að innan. Sálin er eins og gömul, trosnuð og skítug tuska og ég hef ekkert sjálfstraust. Ég hef farið til sálfræðings og það var ágætt en það dugar mér skammt því ég á svo fáa vini. Sjálfstraustið er svo lítið að ég er nánast ófær um að tala við fólk að fyrra bragði og á því erfitt með að eignast vini og er því oft mjög einmana og hef engan til að tala við (sem er ástæðan fyrir því að ég hafði fyrir því að skrifa þennan ógeðslega langa þráð).
Ég vona að einhver hafi haft fyrir því að lesa þetta, þó ég sé ekkert viss um það. Ég vona innilega að enginn lendi í því sama og vona líka að einhver geti lært af minni reynslu.
Takk fyrir.