Sæl astrosharpa.
Ást er hugtak sem aldrei hefur verið njörvað niður sem eitthvað “eitt” sem allir geta tekið undir að sé “hin eina rétta” lýsing á þeirri tilfinningu sem fólk upplifir þegar það verður ástfangið.
Að elska er að mínu mati persónubundin upplifun sem enginn setur sagt að sé réttari eða rangari í einu tilfelli eða öðru. Ef þú hefur lesið greinina sem ég skrifaði um ástarsorg, þá sérðu í samtali mínu og Intenz þar fyrir neðan í umræðum hvað ást er mismunandi í augum hvers og eins. Þess vegna var greinin ein sú erfiðari sem ég hef skrifað til þessa.
En varðani þann ótta þinn að ást þín gæti horfið, þá hef ég eitt að segja.
Mundu ávallt að ást er lifandi fyrirbrigði. Þegar þú hittir einstakling af hinu kyninu (eða sama kyni eftir því hvar áhugi þinn liggur) sem er þannig samansettur að þú finnur til gífurlegrar hrifningu og eftir skamman tíma telur þig jafnvel ástfangna; þá má segja að þú hafir fengið fallegt og yndislegt blóm gefins, svo við notum nú myndlíkingu.
Til þess að halda þessu fallega og yndislega blómi lifandi, þá þarftu að gera það sama við þessa plöntu líkt og þú myndir gera við allar aðrar lifandi verur sem þér þætti mikið til koma, og það er að veita henni næringu, passa upp á hana, virða hana, hjúkra að henni þegar eitthvað bjátar á o.s.frv.
Ef þú einsetur þér að láta ástina blómstra með þeim gáfum sem guð gaf þér, þá er mjög líklegt að þér muni takast vel til. Ef maki þinn er samhuga og finnst þú vera hans eina rétta til framtíðar, þá mun ég einnig telja líklegt að hann eigi eftir að fylgja fyrrnefndum ráðum svo best sem hann kann. Ef þið bæði gerið það sem þig getið til þess að rækta plöntuna fögru, þá aukast líkurnar á farsælli framtíð ykkar til muna.
Að lokum hef ég eitt heilræði: Aldrei leyfa íllgresi koma að plöntunni góðu. Ef íllgresi í formi rifrilda og óleystra vandamála fær að festa rótum, þá verður að fjarlægja það eins fljótt og auðið er, annars mun það vaxa og bæta utaná sig. Ef það gerist getur það einn daginn kæft blómið fagra og skilið ykkur eftir í frumskóg af íllgresi þar sem eina leiðin út er í sitthvora áttina.
Ég vona að þetta hafi kastað einhverju ljósi á vangaveltur þínar.
Kær kveðja og gleðilega hátíð.
Fróðleiksmoli