Góðan daginn gott fólk.
Ég er með smávegis vandamál sem ég vil fá að deila með ykkur.
Núna hef ég verið á föstu með stelpu í 9 mánuði, og hún hefur búið hjá mér í næstum 4 mánuði.
Ég er tvítugur og er í háskóla. Hún er nýorðin 19 og er að fara að byrja aftur í framhaldsskóla eftir langt hlé.
Við erum yfir okkur ástfangin, fullkomnum hvort annað, ég er dáldið stífur persónuleiki sem get neitað mér um margt, en hún er listrænn persónuleiki sem nýtur lífsins eins og það kemur fyrir.
Einn stór ásteytingarsteinn er þó hjá okkur:
Hún hefur þráð að eignast barn frá 14 ára aldri. Áður en ég kynntist henni vildi ég það alls ekki, síðan smitaði hún mig þó af áhuganum, en ég vil ekki eignast barn inn í slæmar fjárhagslegar aðstæður. Og þegar ég tala um áhuga hjá henni, þá er ég að tala um það að hún strýkur oft yfir magann sinn á kvöldin og vonar að eitthvað sé þar.
Hún horfir oft hvolpaaugum á mig hvort hún megi sleppa pilluspjaldinu. Innst inni langar mig að segja henni að hún megi það. En af skynsemisástæðum vil ég ekki að það komi barn af þeim ástæðum að 1) Við erum ekki það vel fjárhagslega eða húsnæðislega sett, 2) Við erum bæði frekar ung (þó maður hafi heyrt um yngri foreldra), 3) Ætli það sé ekki auðveldara að ljúka námi barnlaus heldur en að vera kominn með barn?
Satt best að segja veit ég ekki hvort ég eigi að láta hjarta ráða för í þessu tilfelli, eða leyfa skynseminni að hafa sinn gang um sinn.
Bætt við 23. desember 2006 - 17:36
Til þeirra sem eru fyrst að lesa þetta fyrst núna, þá er ég búinn að gera upp hug minn. Takk fyrir.