Ástin getur birst í svo óteljandi myndum
Engin leið að segja hver sú eina sanna er
Stundum er hún heilög, stundum full af syndum
Stundum eins og gimsteinn eða bara gler

Ástin spyr hvorki um stétt né stöðu
Ástin fæst hvorki keypt né seld
Hún kallar og þú með geði glöðu
Kastar þínu hjarta á ástarinnar eld

Ástin kann að hrópa og ástin kann að læðast
Hún kemur allt í einu eða hægt og hljótt
Ein ást getur dáið meðan önnur er að fæðast
og ekki má gleyma þeirri sem kom allt of fljótt

Ástin spyr hvorki um stétt né stöðu
Ástin fæst hvorki keypt né seld
Hún kallar, og þú með geði glöðu
Kastar þínu hjarta á ástarinnar eld

Ástin er í myndasögum, ástin er í meinum
Menn elska konur og konur elska menn
Sumir eru sjálfselskir en segir fátt af einum
Allir elska náungann, að minnsta kosti enn

Ástin spyr hvorki um stétt né stöðu
Ástin fæst hvorki keypt né seld
Hún kallar, og þú með geði glöðu
Kastar þínu hjarta á ástarinnar eld
Gaui