Sæll, TheMinister.
Ég var búinn að lofa þér að svara þessu vandamáli þínu um leið og tækifæri gafst, og hef ég smá tíma núna aflögu áður en ég hendi mér í rúmið.
Þetta vandamál þitt er svo rosalega algengt. Það er ábyggilega 1 af hverjum 3 sem eru að glíma við þetta vandamál, þ.e. að tjá sig við hitt/sama kynið (fer eftir því hvað við á). Þú veist allavega núna að þú ert ekki einn sem stendur í þessu “basli”.
Ég veit hvað þú og allir, sem eru í þessum sporum, hræðast. Það er auðvitað höfnunin. Höfnun særir mann og við höfnun fer sjálfsmyndin oftast í mola, þar sem þér er HAFNAÐ af manneskju sem þú berð tilfinningar/hrifningu til, og er það oft á tíðum mjög sárt. En vittu til, höfnun er eðlileg, þar sem það eru nú ekki allir sniðnir fyrir alla og mismunandi er nú smekkur manna. Því þarft þú að “æfa” þig í samskiptum við hitt kynið, og treystu mér, þú kemst yfir þetta.
Til þess að sigrast á þessari feimni og óþægindum í samskiptum við hitt kynið, er það bara að dýfa sér í djúpu laugina. Treystu mér, þetta virkar. Ég hef sótt Dale Carnegie sjálfsstyrkingarnámskeið, þar sem aðal áherslan þar var að “fara út fyrir þægindahringinn”. Þetta er mjög erfitt, en þetta er hægt. Til þess að sigrast á við flughræðslu, ferðu oft í flugvél. Til þess að sigrast á við lofthræðslu, ferðu á stað þar sem hræðslan tekur á og þar sem þú getur SIGRAST á hræðslunni! Þetta tekur tíma og erfiði, en það er þess virði, ekki satt? Trúðu mér líka þegar ég segi að feimni er mun skárri en flughræðsla!
Ég ráðlegg þér því að draga andann djúpt og skella þér út í djúpu laugina og spjalla við þessa manneskju. Þú tapar engu! Trúðu mér, engu!
Hugsaðu nú. Hvort viltu sjá eftir því að hafa talað við þessa stelpu og gert þig að algjöru fífli en að hafa það í “ferilskránni” að þú hafir allavega reynt. Eða þá að hugsa alla ævi/í langan tíma hvað hefði gerst, hefðiru bara reynt? Ég giska á að þú veljir fyrri kostinn, þar sem óvissan er ekki góð get ég sagt þér.
En þar sem Fróðleiksmoli er búinn að skrifa þessa prýðisgrein um allt þetta. Hvað þú þarft að gera og hafa í huga þegar þú reynir að nálgast hitt kynið, og mæli ég með því að þú farir vel yfir þá grein. Hana er að finna
hér.
Gangi þér bara sem allra best. :)
Kær kveðja,
Gaui Intenz