Sæl verið þið, kæru Hugarar.

Ég er ekki vanur að skrifa hér í vandamál, þar sem öll mín vandamál er ég vanur að leysa sjálfur eða með hjálp vina, en þetta vandamál er aðeins út fyrir mína reynslu og þekkingu.

Málið er þannig að vinur minn átti kærustu. Þau eru nýhætt saman eða fyrir nokkrum vikum. Hann sagði henni upp og stuttu síðar kom hún til hans og sagðist hafa verið að hugleiða að taka við honum aftur. Hvernig getur hún tekið við honum aftur þegar hann hætti með henni? Það er ekki alveg rétt, en allavega, þetta er bara byrjunin og í raun ekkert vandamál, þar sem hann vill engan veginn taka við henni aftur, þar sem þau hafa hætt saman og byrjað aftur mjög mörgum sinnum, þannig hann hefur séð ljósið og séð að þetta væri ekki að ganga.

En núna kemur vandamálið. Núna eftir að þau eru hætt saman segist hún vera ólétt eftir hann og komin 6 vikur á leið. Hann segir að það geti ekki staðist, þar sem það eru 10 vikur síðan þau sváfu síðast saman og var hún á pillunni þá. Allavega, pillan getur klikkað, en þó það sé mjög ólíklegt, er hún ekki alveg 100%.

Hann er búinn að biðja hana um að biðja lækninn hennar um að hringja í sig og segja sér og sanna að hún sé í raun og veru ólétt, og að þetta sé ekkert spaug. Hún neitar því, og segist hún ætla að flytja ólétt til Danmerkur, eiga barnið þar og finna svo nýjan pabba þar.

Núna kemur spurningin. Getur hún gert þetta, þ.e. neitað honum sönnunum fyrir því að hún sé ólétt og flutt svo með barnið eitthvert og leyft honum ekki að hafa nein afskipti af því?

Mín persónulega skoðun á þessu er sú að hún sé ekki ólétt, heldur vilji hún halda honum áhyggjufullum þar sem það er eina hugsunin sem hann ber í garð til hennar. Hún er að gera honum grikk með því að ljúga að hún sé ólétt eftir hann, en hún getur ekki einu sinni sannað það fyrir honum. Þó hún sé ólétt, er líka mjög ólíklegt að þetta sé barnið hans, þar sem eftir að þau hættu saman í öll þessi skipti, svaf hún hjá öðrum strákum. Mér finnst mun líklegra að einhver þeirra sé pabbinn. En varðandi það hvað hann geti gert til að fá sönnun fyrir því að hann sé pabbinn, hef ég ekki hugmynd um hvað ég get sagt honum. Ég hef því miður enga þekkingu né reynslu af þeim málum.

Ég lenti hins vegar í sambærilegu tilfelli, þar sem fyrrverandi mín sagðist vera ólétt eftir að við hættum saman. Svo þegar ég fékk hana til að taka óléttupróf var hún svo ekkert ólétt. Hún gerði þetta bara til þess að ég myndi hugsa um hana og “barnið” okkar. Þetta er ljótur grikkur sem ætti ekki einu sinni að vera leyft að viðgangast.

Endilega þeir sem halda sig vita eitthvað hvað sé hægt að gera, svari og hjálpi ráðalausum vini mínum.

Kær kveðja,
Gaui Intenz
Gaui