Ég eignaðist minn fyrsta kærasta í fyrrahaust. Hann var ótrúlega góður við mig og mér fannst ég mjög heppinn að hafa fundið hann. Sambandið stóð samt frekar stutt. Hann sleit því aðallega vegna þess að hann meikaði ekki fjarsamband (við búum ekki á sama staðnum í augnablikinu). En einnig vegna þess að hann væri kominn með ógeð af samböndum, en hann hefur verið í þeim mörgum og eitt þeirra entist m.a.s. í fjögur ár.
Hann sagði að þetta yrði örugglega bara pása og það gæti vel hugsast að þegar ég kláraði skólann sem ég er í og flutti í bæinn (sem ég er að fara að gera von bráðar), myndum við taka upp þráðinn aftur. Hann sagði t.d. að ef við myndum vera saman ævilangt, væri nokkurra mánaða bið lítið mál. Sem mér finnst mjög krúttlega sagt og ég hef heyrt að það sé mjög alvarlegt þegar fólk segir eitthvað svona lagað, sérstaklega strákar.
En jæja, hann sagðist vera kominn með ógeð af samböndum en ég veit það fyrir víst að hann hefur átt allavega tvær kærustur síðan við hættum saman, og hann byrjaði með annarri þeirra ekki svo löngu eftir að við hættum saman. Hann hefur verið í mörgum samböndum sem hafa bara enst í mánuð og þá byrjað með stelpunni strax og hann kynntist henni, ég skil ekki hvað þetta er, veit ekkert hvað á að kalla svona atferli!
Ég var frekar sár fyrst því að hann laug eiginlega að mér en ég hélt bara áfram með lífið.
Síðan í lok janúar fór hann allt í einu aftur að tala við mig á msn… Ég spurði hann af hverju og þá sagðist hann hafa ætlað gera það lengi og hann hugsaði oft til mín.
Stuttu seinna hitti ég hann á djamminu og líka vini hans sem ég kannaðist aðeins við. Ég dansaði aðeins við einn þeirra, alveg saklaust, hann spurði minn fyrrverandi hvort það væri í lagi og hann samþykkti það en sagðist verða brjálaður ef hann myndi snerta mig… Sem þýðir kannski eitthvað eða ég veit ekki, kannski ekki, þetta er bara vinareglan sem gildir. Anyway, þetta kvöld endaði með því að við fórum heim saman. (Þó að hann var að “hössla” aðra stelpu þegar ég hitti hann :P)
Núna í vetur höfðum við síðan talað öðru hvoru saman á msn. Talað um að hittast og svona. Hann fór líka voða mikið að tala við mig í páskafríinu og var orðinn spenntur fyrir því að hitta mig, allavega sagði hann það. Síðan í lok páskafrísins hitti ég hann aftur á djamminu, þá var hann að dansa við einhverjar stelpur og ég talaði aðeins við hann og þá spurði hann mig hvort ég ætti bara ekki að tala við hann daginn eftir. Ég var frekar pirruð út í hann þá og fór.
Ég er ekkert búin að tala við hann síðan og ég er að reyna að vera sterk og láta hann í friði.
En málið er að ég sakna hans og get ekki komið honum út úr hausnum á mér. Ég elska hann ekkert eða neitt þannig, ég vil bara vera með honum aftur. Ég veit ekki hvað mér á að finnast um hann, ég veit að hann getur verið algjört fífl en ég þekki hann samt og veit að hann getur verið yndislegur. Ég sakna hans mest þegar ég er að fara að sofa á kvöldin því að það var svo gott að kúra hjá honum…
En jæja, eins og ég sagði áðan talaði hann um að byrja aftur saman núna í sumar. Og ég veit að það er ábyggilega ekki að fara að gerast en hluti af mér langar bara að spurja hann út í þessi mál og láta hann heyra það ef hann kemur með einhver aumingjasvör :P Ég bara þoli ekki þegar strákar geta ekki bara talað hreint út! Það er miklu betra að segja bara sannleikann við mann, ég veit það er kannski erfitt og sannleikurinn er oft sár en þetta gerir manni stóran greiða hvað framtíðina varðar. Ég verð ekki sátt ef hann var bara að gera mér falsvonir.
Hvað finnst ykkur að ég ætti að gera?
kveðja
Ég finn til, þess vegna er ég