Ég á í smá vandræðum með kærasta minn, eða öllu heldur hvernig ég er við hann og ég hef ekki hugmynd um hvernig ég á að leysa. Sko, ég er aðeins yngri en hann (það er mjög þægileg finnst mér, því þá þarf ég ekki að bera eins mikla ábyrgð og venjulega, venjulega þigg ég aldrei aðstoð eða hjálp frá öðrum og redda mér bara sjálf, þannig að uppgvöta að ég gæti þegið aðstoð var frábært,) og opnari líka.
Við erum búin að vera saman í rétt yfir hálft ár núna og það hefur gengið mjög vel, við hittumst oft, erum farin að þekkjast mjög vel, stundum frábært kynlíf og allt þetta en núna er samt komið eitthvað vandamál sem ég get ekki einusinni skilgreint allmennilega…
Hann sýndi mér alltaf hellings athygli áður en núna er eins og það hafi minnkað. Það er bara það að ég get ekki bent á það, eða sýnt neinum fram á það. Því við höldum áfram að hittast eins oft og við gerðum og gerum sömu hluti og við gerðum en hann virkar einhvernvegin svo mikið fálátari núna.
Hann var alltaf að kyssa mig á kinnina og dúllast eitthvað í mér, ég gerði e-ð svipað líka, en núna er hann næstum hættur og það er aðalega ég sem verð að gera þetta fyrir okkur bæði.
Hann særir mig svo oft með því að vera svona fálátur, og ég verð svo pirruð og missi oft út úr mér eitthvað sem ég ætla alls ekki að segja (ég verð sjaldan reið og er alls ekki ofbeldisfull en hvað annað getur særð og móðguð stelpa gert?) og hafna stuðningnum sem ég fæ þegar hann sér að ég er eitthvað særð. (T.d. ef hann reynir að faðma mig, strjúka mér eða segja eitthvað.) Það er eins og ég vilji refsa honum (t.d. með afskiptaleysi, stuttum svörum og eins litlari líkamssnertingu og mögulegt er,) fyrir það að hafa verið svona vondur við mig!
Og um leið og ég er búin að “refsa” honum nóg (sem tekur kannski nokkrar sekúndur, mínútur eða heilt kvöld, allt eftir því hversu leið ég er,) sé ég strax eftir þessu og kem til baka til hans. Hann tekur alltaf á móti mér. Þetta með að refsa honum er auðvitað fáránlegt, og svo illa gert, sérstaklega ef hann særir mig/sýnir mér lítinn áhuga óviljandi.
Ef við þurfum að tala um eitthvað alvarlegt (sem hefur gerst um þrisvar sinnum…) endar það venjulega í því að hann þegir og gerir lítið úr öllu og ég ýki allt of er voða dramatísk. Hann skilur mig ekki og fattar ekki hvað ég er í miklu uppnámi og huggar mig þar af leiðandi ekkert. Þessvegna verð ég sár og byrja að “refsa” honum eftirá. Þetta gengur yfir mjög fljótlega en tilfinningin um höfnun er samt þarna ennþá.
Svo er það þetta með að segja: “ég elska þig” Ég bara get ekki sagt það. Ég elska hann, ég veit það en í hvert sinn sem ég ætla að segja það er eins og orðin bara festist í hálsinum á mér. Hann hefur heldur aldrei sagt það, og ég veit ekki hvort honum detti einusinni í hug að gera það. Ég hef sagt honum að mér þyki vænt um hann oftar en einusinni (fyrstu skiptin voru mest í gríni, t.d. var ég að kitla hann og hann spurði af hverju ég væri að gera honum þetta, ég sagði: “af því þú ert svo fallegur og af því mér þykir svo vænt um þig,” eða eitthvað álíka. Núna þori ég alveg að segja það án djóks,) en hann hefur ekki sagt neitt á móti.
Allavega, mér finnst einhvernvegin að ég sé að eyðileggja sambandið með því að verða alltaf svona pirruð og allltaf með eitthvað drama, ég vil gjarnan tala um þetta við hann en ég veit ekki hvernig ég á að gera það.
P.S. Þegar ég las þetta yfir virkar þetta ótrúlega fáránlegt, eins og ég sé að ríghalda í strák sem vill mig alls ekki eða eins og ég hafi fullt af geðrænum vandamálum….Hmm…