Framhjáhald á Netinu
- eins og raunverulegt framhjáhald
Erfitt er að halda því fram að lestur klámblaða, skoðun klámsíðna og áhorf klámmyndbanda geti flokkast undir framhjáhald. Þegar málum er hins vegar þannig háttað að tveir aðilar veita hvor öðrum kynferðislega upplifun með hjálp tölvu er staðan önnur.
“I did not have sex with this woman, Monica Lewinsky” sagði Clinton og í öllum málflutningi hans var hamrað á því að munnmök væru ekki kynlíf. Það er því augljóst að kynlíf er skilgreiningaratriði. Eflaust er hægt að toga það og teygja hvort netkynlíf flokkist undir kynlíf þótt í augum flestra sé það augljóst. Ef gengið er út frá því að netkynlíf sé “alvöru” kynlíf þá vaknar spurningin um framhjáhald. Þá kemur einnig inn í myndina að netkynlíf vill stundum enda með því að fólk hittist í raunheiminum og stundar hefðbundið kynlíf.
Séra Þórhallur Heimisson hefur um nokkurt skeið hjálpað hjónum að kljást við erfið vandamál. Hann segir að vandamál, tengd netkynlífi, hafi skotið upp kollinum hér á landi og erfitt sé að gera greinarmun á á netframhjáhaldi og raunverulegu framhjáhaldi.
“Iðulega gerist það að samband kemst á milli tveggja aðila á Netinu, t.d. í gegnum irkið, aðila sem eiga maka í ”raunheimi“ (ef maður gefur sér að lífið utan tölvunnar sé meiri raunheimur en tölvulífið, en það er önnur saga). Oft þróast slíkt samband upp í ”andlegt“ framhjáhald þar sem þessir aðilar tala meira við og hugsa meira um ”vininn“ á Netinu en sinn eigin maka. Eins og í öðru framhjáhaldi er líka mikið laumuspil í gangi. Oft endar þetta með ”raunverulegu“ framhjáhaldi í hinum ”raunverulega“ heimi.”
Þórhallur segir að svipað geti átt við hjá þeim sem stunda símavændi.
“Allar spurningar um framhjáhald snúast í raun og veru um traust. Ef þú ert að stunda eitthvert samband við aðila sem þú vilt ekki að maki þinn viti af, hvort sem það endar með ”raunverulegu“ framhjáhaldi eða ekki, er þá ekki um framhjáhald að ræða?
Allavega enda þessi mál oft með ósköpum.”
Kveðja
HJARTA.
Kveðja