Naut-Vatnsberi: Þó að þetta par líti heiminn mjög ólíkum augum þá ber svo við öðru hverju að ólík skapgerð þeirra hrífur Nautið og Vatnsberann svo þau ná saman. En þó að sameiginleg festa þeirra geti gefið sambandinu nokkra fyllingu þá gæti eðlislæg gagnkvæm vanþóknun þeirra borið líkamlega aðlöðun ofurliði. Hinn frjálslegi Vatnsberi fúlsar við staðfestunni sem er svo ríkur þáttur í eðli hins öryggisþurfandi Nauts. Og Nautið hefur engin tök á að sannfæra maka sinn um ágæti hinna einföldu, sterku, holdlegu nautna heimilisins. Nautið rekur upp afbrýðisöskur við látlausri þörf Vatnsberans fyrir athafnir innan breiðari vitsmunalegra marka til göfgunar samfélaginu og vinum sínum. Sambúð þeirra tveggja kann að reynast laus í böndunum.
Naut-Fiskur: Í þessum lágstemmda tvídansi eru stöðug og lostafull spor Nautsins hinu skáldlega og innhverfa eðli Fisksins viðeigandi uppfylling. Í sameiningu una þessi tvö elskandi, aðdáunarfullu merki vel heima hjá sér, þau draga sig útúr heimsins solli til staðar þar sem þau geta bæði hugleitt fegurð og mildi lífsins. Venjulega er þetta samband báðum aðilum heppilegt. Því Nautið virðir viðkvæmar tilfinningar Fisksins og gæðir flöktandi geðbrigði hans stöðugleika. Fiskurinn lætur sér vel líka að færa þá fórn í nafni ástarinnar á Nautinu og veitir því þá umhyggju og umönnun sem er því svo mikils virði. Þessi hjú verða að varast að láta dulrænar tilhneigingar Fisksins skapa spennu andspænis skipulagsáráttu Nautsins, en venjulega eru þessir annmarkar yfirstíganlegir.
Tvíburi-Tvíburi: Þegar Tvíbbar veljast samaner betra að gæta sín! Þetta sameyki heldur sig á hraðbrautinni og er á sífelldu spani að halda í við sjálft sig og hvort við annað. Þessar tvær manneskjur eru eins og kvikasilfur, á sífelldu iði og njóta gagnkvæms skilnings meðan hvort kannar hliðargötur síns eigin hugar og sambandsins þeirra á milli. Þau eru mikið gefin fyrir veisluhöld og afþreyingar með þeim afleiðingum að Tvíburaelskendur eru sífellt að halda samkvæmi og framlengja gáskann í einkasamkvæmi í rúminu. Þó að ævintýri þeirra séu spennandi geta þau þó haft í sér fólgna hættu. Dýpri tilfinningar eru oft látnar ókannaðar eða ósagðar og ef að ekki koma til hamlandi öfl er hætt við að vegna lausungar gangi allt úr skorðum.
Tvíburi-Krabbi: Þetta eru tvístirni sem vegna sinna gerólíku þátta-Þau eiga hvorki sameiginleg einkenni, skautun, né höfuðskepnu-gæti í byrjun náð jafnvægi í sambandinu sín á milli. Krabbinn er svo kæfður í tilfinningasemi og Tvíbbinn svo bundinn eigin hugrenningum að þau bæta hvort annað upp. En þó að bæði merkin eigi til að taka skjótum breytingum er eðli breytinganna oft sitt með hvoru móti og leiðir oftar en ekki til árekstra milli Tvíbbans og Krabbans. Hin ofurviðkvæmu sakpbrigði Krabbans gera daðurslega framkomu Tvíbbans gagnvart öðrum honum óbærilega. Hinn þjálli hugur Tvíbbans þarfnast svigrúms og tilbreytingar, og þó að Tvíbbinn hafi upphaflega laðast að skapgerð Krabbans sem er svo gerólík hans eigin skapgerð, á Tvíbbinn sjaldnast auðvelt með að hafa áhuga á því sama til lengdar.