Naut-Naut: Þetta eru einhver staðföstustu, jarðbundnustu og holdlegustu samböndin. Þegar tvö Naut fella hugi saman er öruggt að sambandið verður jarðfast, þar sem hvor aðili gerir sig ánægðan með að njóta ástar hins og þau sökkva sér í sameiginlega holdlega nautn í kyrrlátu umhverfi heimilisins. Þegar tvö Naut sameinast verður úr því tvíefld, vinnusöm, trygglynd eining, svo tilhneiging Nautsins til afbrýðisemi fær sjaldan tíma til að koma uppá yfirborðið. Nautum hættir til að vera svolítið óframfærin-þau láta sér lynda að ganga í fábrotnum heimahögum ástarinnar. Stærsta vandamál þessara heimakæru einstaklinga er sennilega skortur á örvun eða þá árekstrar milli ósveigjanlegra eðlisþátta þessara tvíburasálna.


Naut-Tvíburi: Þó að Naut og Tvíbbar hafi sitt eðli, sína skautun og sína höfuðskepnu hvort merki, geta tengsl milli þeirra reynst giftudrjúgt fyrir báða aðila. Í þessu fyrirkomulagi er hið settlega Naut örvað af fjörugu hugarflugi Tvíbbans, og hinn flöktandi Tvíbbi nýtur góðs af rótfestu Nautsins og hagsýni. Þrátt fyrir gagnkvæma hrifningu missa Nautið og Tvíbbinn hvort af öðru á dýpstu sviðum tilfinninganna. Þörf Nautsins fyrir traust heimilisumhverfi fellur bara ekki að hinni sífelldu þörf Tvíbbans fyrir nýjar athafnir. Þegar til lengdar lætur getur þetta par rekist á óyfirstíganlegar hindranir er það reynir að samræma tvennskonar mjög ólík sjónarmið.


Naut-Krabbi: Sameiginleg kvenskautun gerir þetta samband athyglisvert fyrir margra hluta sakir. Bæði Nautið og Krabbinn leggja mikla áherslu á unað heimilislífsins, og bæði eru hrifnæm og ástríðufull. hinn afgerandi eiginleiki Krabbans gæðir hann ýtni sem nægir í flestum tilfellum til að hafa taumhaldið í þessu sambandi og bætir nokkru kryddi í Nautið sem annars er fremur bragðdauft. Hinn duttlungafulli Krabbi getur mikið lært af öllum hinum mörgu jarðtengdu, hagnýtu hæfileikum Nautsins en það hagnast aftur á móti af tilfinningaróti Krabbans og baðar sig í þeirri athygli og umönnun sem Krabbinn hefur unun af að veita. Þegar til lengdar lætur verður þetta par að gæta sín að fara ekki í taugarnar hvort á öðru-Nautið að fyrtast ekki af ólgandi duttlungum Krabbans, Krabbinn að sætta sig við hversdagslegt fas Nautsins.


Naut-Ljón: Þó að þessi merki séu ólík um flest, geta myndast sterk tengsl á milli þeirra, þar sem bæði Nautið og Ljónið eru föst merki, eru þau stöðug og sjálfum sér nóg og láta sér annt um stöðu sína í lífinu. Og hin mörgu gagnstæðu einkenni þeirra jafna hvert annað út að nokkru marki. Hið trygglynda Naut tekur til dæmis metorðagirnd Ljónsinsopnum örmum. Og Ljónið teymir Nautið með sér út fyrir einkaheim þeirra og lengra út í heiminn en Nautið mundi annars hætta sér. En Nautið verður að varast að verða of tregt í taumi og Ljónið verður að læra að hafa hemil á sajálfsþótta sínum, annars snýst sambandið upp í baráttu milli tveggja öfga. Nautið verður gagnrýnið á úrausandi, eyðslusamt hátterni Ljónsins, en Ljónið telur Nautið óhæfilega varkárt og þröngsýnt.


Naut-Mey: Þetta jarðfasta samband á upptök sín á himnum. Þessi tvö merki elska hvort annað og heiminn í kringum sig af sérstakri ljúfmennsku, dá allt sem fagurt er og hlúa að því. Og þau eru líka hagsýn. Þessi tvö merki eru ekki einungis oftast nær vel heima í listum og listrænu handbragði, heldur hafa þau líka sömu þörf fyrir fjárhagslegt öryggi auk þess sem þau eru haldin mikilli löngun til að láta gott af sér leiða. Og efnisleg afturhaldssemi Nautsins hefur jafnast að fullu við raunsæi og gagnrýni Meyjarinnar. Vandamál geta komið upp vegna of líkra persónulegra eðlisþátta. Vegna skorts á ósjálfráðum viðbrögðum við lífinu er hætt við að þau séu of treg til að örva hvort annað og verði of værukær, en hvorugt þeirra er líklegt til að láta það raska ró sinni.


Naut-Vog: Undir ægishjálmi Venusar mætti ætla að Nautið og Vogin væru fyrirmynd allra elskenda. Þau geta fyrir opnum tjöldum notið saman ástar sinnar á listum og músík, en á öðrum sviðum gæti þetta samband orðið einskonar jafnvægislist andstæðnanna. Nautinu er eðlilegt að svara sterkri löngun Vogarinnar til jafnvægis í sambúðinni. Og Vogin mun dafna á óbrigðulli tryggð Nautsins. En daðurgirni Vogarinnar ýtir aðeins undir það versta í afbrýðseðli Nautsins auk þess sem Vogin gagnrýnir ósveigjanleika þess. Bæði eru þau þrjósk, og mál sem þau eru ekki ásátt um getas komið af stað illvígum átökum.


Naut-Sporðdreki: Þessi tvö merki eru á öndverðum hliðum dýrahringsins, en þau eru mótuð í sameiginlegum föstum einkennum sínum og styðja hvort annað í mörgum eðli´sþáttum. Sporðdrekinn er ástríðufullur, en Nautið afar jarðbundið, svo þegar þau koma saman í svefnherberginu sameinast þau í sínum einkasæluheimi. Þau eru bæði einbeitt og metorðagjörn, bæði í samskiptum og starfi. Þótt þetta sé vísbending um mikla aðlögunarhæfni, þá hafa þessi tvö merki tilhneigingu til ósveigjanleika og verða að varast að festa sig í sama farinu of lengi. Sambland ósveigjanlegs vilja þeirra beggja hlýtur að brjótast út í reiði öðru hverju, og þegar svo ber undir verður Sporðdrekinn að gæta þess að stinga ekki, Nautið að stanga ekki.


Naut-Bogmaður: Þótt þau hafi fátt sameiginlegt er eins víst að Nautið og Bogmaðurinn kunni næsta vel við muninn. Í leitinni að stuðningi og sjálfshafningu er líklegt að hvort um sig leiti millivegarins. Hið alvarlega,hagsýna Naut dregur úr flökkueðli Bogmannsins og færir hann nær jörðinni. Og hinn reikuli og hömlulausi Bogmaður ýtir undir Nautið að lyfta sér uppúr kyrrstöðunni. Eftir að hin fyrsta sæluvíma rómantíkurinnar er um garð gengin er hætt við að gagnkvæm gremja komi upp á yfirborðið svo um munar. Hið drottnunargjarna Naut á erfitt með að þola vingulshátt Bogmannsins, en Bogmanninu blöskrar oft taumleti Nautsins sem vill helst alltaf hjakka í sama farinu.


Naut-Steingeit: Í þessu fótvissa sambandi tengist staðfesta Nautsins brattsækni og fótfimi fjallageitarinnar. Bæði hafa sterka hvöt til öryggis, Steingeitin jafnvel í enn ríkari mæli en Nautið. Eftir að þessi tvö hafa komið sér upp sínu litla himnaríki á jörðu og eru komin í öruggt hæli eigin heimilis verður Steingeitin sérstaklega hlý í viðmóti og tilbúin að svara ástarfuna Nautsins. Þau eiga einstaklega vel saman, eini hugsanlegi ásteyningarsteinninn er sá að hið opinskáa Naut telji Steingeitina dálítið pukurslega. Þessi hjú verða öðru hverju að skríða útúr sínu afskekkta rómantíska skoti, hrista húsaskúmið af kyrrstöðutilveru sinni til þess að komast í kallfæri við hinar dýpri tilfinningar sínar.