Þegar ég var 16 ára flutti ég að heiman, til stráks á hinum enda landsins og var þar í 3 ár. Þegar ég loks fór þaðan og kom aftur heim byrjaði ég með nýjum strák mánuði síðar – strák sem ég trúði að væri draumaprinsinn minn og að líf mitt væri glæst framundan. Það entist í 2 ár – þá vildi hann losna út. Ég gerði allt sem ég gat til að halda í hann og framlengja hamingjunni minni – en allt kom fyrir ekki. Hann sagði hina klassísku setningu að þetta væri ekki ég, heldur hann. En tilfinningin var skelfileg; reiði, sorg, söknuður og allur tilfinningaskalinn. Veröld mín hrundi og ég hafði engin völd – fótunum hafði verið kippt undan mér og ég lá eftir ein og ónýt.
Að einhver manneskja hafi svona mikil völd er ótrúlegt – með slitunum situr hann enn við sitt borð; hann hefur vinahópinn sem ég var loks komin inn í og vildi aldrei missa og ætlaði ekki að missa – en það er erfitt að halda í eitthvað sem er tengt honum þegar sú tenging slitnar. Ég sit eftir að reyna að pikka upp hluta af mér frá því áður en ég kynntist honum – en þau brot eru á víð og dreif og ég ekki verið ein í 5 ár. Mikið verk framundan – vinirnir eru héðan og þaðan og það kemur ýmislegt í ljós um vinatengsl manns; bæði gott og slæmt.
En málið er það – að valið er í manns eigin höndum. Maður þarf að byggja upp sinn eigin, persónulega bakgrunn og halda í hann og sitt persónulega líf þó að einhver maki komi inn í líf manns. Því áður en maður veit af getur allt hafa breyst og lífið sem maður hafði byggt upp, elskað og nært horfið með öllu sem því fylgdi. Þá þarf maður að hafa eitthvað til að hörfa til og byggja ofan á.
Ég er heppin að eiga dásamlega fjölskyldu sem ég elska að vera með og heimili til að hörfa til. Ég á systur sem er mín albesta vinkona, frændfólk og auðvitað vini sem eru til staðar. Nú er bara að styrkja öll þau sambönd sem ég hef ekki styrkt nóg vegna einhverja kærasta í lífinu mínu! Sum vinasambönd ganga ekki upp – enda hafa sum verið vannærð í mörg ár. En önnur lifa og vonandi styrkjast.
Nú eru framundan nýjir tímar – ný tækifæri – nýtt líf þar sem ég er í aðalhlutverki. Það er lengi hægt að hugsa til fortíðar og spyrja sig „hvað ef“ spurninga – en það kemur manni ekkert áfram, einungis aftur á bak! Ég mun bæta fyrir mín „mistök“ og vonandi lærir einhver sem hér les af þeim :)