Jæja, þar sem að ég er búin að leggja skólabækurnar til hliðar í bili í kvöld ákvað ég að senda inn eina grein :) njótið vel
——
Hvað er sönn ást? Sumir segja að sönn ást sé að játa ást sína fyrir guði sínum með giftingu, aðrir segja sanna ást að vera saman að eilífu. En þarf hin sanna ást endilega að vera til staðar í ástarsambandi? Hvað um ást móður til barns síns? Ást föður þegar hann fær barnið sitt í fangið í fyrsta sinn? Getur sönn ást verið ástin sem við berum til besta vinarins, ástin sem við berum til gæludýrsins eða ástin sem við berum til trúarinnar? Þessum spurningum verður hver og einn að svara fyrir sjálfan sig og mynda sér eigin skoðun því enginn ætti að hafa áhrif á eigin ást nema maður sjálfur. Flestir segja að ástin sé eintóm gleði, það er svifið um á bleiku skýji og maður sér ekki sólina fyrir hverjum sem það er sem maður elskar. En ástin særir í mörgum tilfellum og endar á hátt sem maður hefði ekki kosið. Þar á eftir fylgir ástarsorg.

Það skiptir engu máli af hvaða kyni maður er, hvað maður er gamall eða í hvaða aðstæðum, ástarsorg getur brotið niður hvern sem er, og flestir hafa upplifað þessa miður skemmtilegu tilfinningu en því miður virðist enginn geta sagt með vissu hvað læknar brotið hjarta. Við þekkjum öll klisjurnar; borða súkkulaði, fara á svakalegt fyllerí, sitja heima og horfa á Love Actually, hlusta á „break-up“ lög…en virkar eitthvað af þessu í raun og veru? Ef maður borðar endalaust af súkkulaði endar maður bara á því að þyngjast og fá líklega illilega í magann og það sama á við um fyllerí. Það bíður þín ekkert nema timburmenn. Þessar ástarþvælukvikmyndir og tónlistin gerir líka eflaust lítið gagn. Sumir stunda óhóflegt kynlíf, en hver vill fá kynsjúkdóm? Það eina sem getur í raun og veru læknað brotið hjarta er tíminn. Klisjurnar gætu hjálpað en tíminn er besta meðalið.

Þrátt fyrir að vera besta meðalið getur tíminn einnig verið harður einræðisherra. Búið er að sanna að fyrsta ástin gleymist seint og mun líklega alltaf eiga hluta af þér. Það getur verið sárt löngu seinna að sjá einhvern sem maður elskaði einu sinni með einhverjum öðrum, þótt maður sé löngu kominn yfir viðkomandi. Tilfinningar sem maður hélt að væru gleymdar brjótast uppá yfirborðið, ótal ósvaraðar spurningar fylla höfuðið, spurningar sem maður fær aldrei svör við og vonast aðeins til að tíminn verði miskunnsamur í þetta skiptið.

Kaldur sannleikurinn er sá að ástin særir, við getum engu um það ráðið. Hvort sem hjartað brestur eða aðeins fáránleg þræta um hver á að fara næst út með ruslið. Er ekki sagt að við særum þá mest sem við elskum mest? Hver og einn verður að finna sína aðferð við að hjálpa tímanum að græða sárin og vona að hann leyfi manni að læknast fljótt