“Hæ,” sagði hún glaðlega og frussaði hamborgarasósu á mig í leiðinni. Ég starði bara á hana. Hún var svo falleg. Bústnar kinnarnar voru eins og fylltar með karamellusósu og stórt ennið minnti mig á Látrabjarg. Barmurinn stór – rétt eins og svalir á arabískri konungshöll. Vinir mínir hafa kallað hana margt; kjötbolluna, hvalinn, smjörlíkið og Birnu björgunarhring. Ég hef aldrei látið það trufla mig. Bara asnaleg þröngsýni í þeim sem ég á aldrei eftir að skilja. Og þar fyrir utan: Þeir myndu ekki hugsa svona ef þeir þekktu hana Birnu í raun og veru. Hún er yndislegasta, fyndnasta og besta manneskjan í öllum heiminum.

Ég man eftir okkar fyrstu kynnum eins og þau hefðu farið fram í gær – sem þau reyndar gerðu. Hún sat í rólunni á leiksvæði hverfisleikskólans. Hún hélt á stórri pítu, þeirri stærstu sem ég hafði séð. Hvít sósan lak niður eftir munnvikunum og hún tuggði matinn af mikilli áfergju. Fegurð hennar sló mig strax – fast á ennið. Ég gekk rólega nær henni og settist í róluna við hliðina á henni. Sumarleg kvöldgolan lék við andlit okkar er við sátum þarna og hlustum á hvort annað anda. Ég rauf loks þögnina sem var farin að gera óþægilega mikið vart við sig. “Hvað heitirðu?”
“Birna,” svaraði hún og hélt áfram að leika við pítuna með tungunni. “Fallegt nafn,” sagði ég. “Endurspeglar útlit þitt.” Hún leit á mig með augum sem minntu mig á talstöðvar sem einungis var blótað í. “Nei, sko…ég meina, fallegt nafn endurspeglar fallega stelpu, ekki….” Hún starði bara ofan í pítuna. Ég sá að tár byrjaði að renna niður úr öðru auganu. “Hvað er að?” spurði ég hana. “Ekkert…bara það að enginn hefur sagt neitt svo fallegt við mig áður.”
“Skrítið,” muldraði ég, rétt nógu hátt svo hún gæti heyrt það. Ég sneri mér að henni. “Má ég kyssa þig?”
“Ég…ég held það.” Hún lokaði augunum og hallaði höfðinu til mín. Ég nýtti tækifærið og sleikti sósuna úr andlitinu hennar. Hún kippti sér ekkert upp við þetta heldur hélt áfram að halla sér að mér. Ég gerði slíkt hið sama og tungurnar okkur unnu saman eins og rokkur og ull – við ófum saman peysu.

“Veistu, Birna mín. Ég er blað sem vildi láta skrifa á sig ljóð. Margar stelpur hafa komið til mín og krotað mig út með stórum svörtum tússpenna og næstum því eyðilagt mig. Svo kemur þú og skrifar á mig þitt fegursta ljóð.”

Eftir langa handavinnu og við búin með peysuna, sleit Birna sig frá mér. Með roða í kinnum og leifar af flissi í munnvikunum sagði hún: “Þú ert góður að kyssa. Hvað heitirðu?” Án þess að blikna svaraði ég: “Grétar.” Hún smjattaði aðeins á nafninu: “Grétar…Grétar.” Við sátum aðeins lengur í rólunum og ég hugsaði um ást við fyrstu sín. Hvort hún gæti verið til. Ég komst svo að því að sú er raunin.

“Grétar?”
“Já.”
“Ég elska þig.”

Ég hafði aldrei á ævinni verið jafn glaður og á þessum tímapunkti. Ég stökk upp í loft og öskraði: “Birna, þú minnir mig á Rubik’s cube sem er ekki hægt að rugla!”
“Og þú ert óleysanlegur,” sagði hún og flissaði.

Ég tók í hendina hennar og við valhoppuðum út í heiminn eins ljóð og heimspekingur.