Við höfðum þekkst síðan við vorum 4 ára. Við vorum þetta týpíska par sem aðeins sést í bíómyndum. Foreldrar okkar voru miklir vinir og við búin að þekkjast síðan við vorum pínulitlir krakkar. Við vorum bestu vinir í heimi. Ætluðum aldrei að hætta að þekkja hvort annað. Ætluðum meira að segja að giftast. Við fórum saman í leiksskóla, og grunnskóla. Vorum bestu vinir allan grunnskólann. Hann varði mig þegar aðrir strákar toguðu í flétturnar mínar.
Það ríkti einhverskonar skilningur á milli okkar sem enginn annar áttaði sig á. Og enginn annar strákur komst með tærnar þar sem hann var með hælana. Ekki nálægt því.
Við neituðum því alltaf, við vorum sko ekkert kærustupar. Ekki séns.. Við vorum bara vinir. En ég miðaði samt alla stráka sem ég var með við hann, og enginn af þeim var nógu góður fyrir mig. Það myndi enginn vera eins og hann. Vá hvað við elskuðum hvort annað.
Í eitt skipti hleypti ég öðrum strák inn, en hann braut hjarta mitt laglega. Í marga mola. Og þá var hann til fyrir mig, að sjálfsögðu… Hann var alltaf til staðar. En ekki lengur.
Vá hvað við hlógum. Ég býst við því að það sé satt að maður veit ekki hvað maður hefur átt fyrr en misst hefur. Ég hef aldrei látið reyna á það… fyrr en núna.
Seinna áttuðum við okkur, það var enginn annar/önnur fyrir okkur. Við áttum að vera saman. Svo loksins á 3. ári í menntaskóla byrjuðum við saman. Búin að þekkjast í 15 ár. Það þekkti mig enginn jafnvel og hann. Enginn.
Loksins kom að því að ég varð ólétt. Allar stúdentamyndirnar mínar eru bumbumyndir en það góða við það að mér fannst ekkert eðlilegra. Við myndum alveg höndla þetta. Við elskuðum hvort annað.
Saman bjuggum við hjá foreldrum mínum, með litla prinsinn okkar. Yndislegt líf. Ég vann á leikskóla þar sem ég ákvað að fara ekki strax í háskóla. Litli prinsinn fékk að fylgja með þegar hann var 1 ½.
Ég hefði ekki getað verið sáttari við mig og mína. Elskan mín vann á bifvélaverkstæði hjá pabba sínum. Svo loksins fullkomnaðist draumurinn, við höfðum sparað frekar lengi, og þegar við vorum komin með nóg fundum við fullkomnustu íbúð í heimi. Hún var 3 herbergja svo prinsinn fékk sitt eigið herbergi, virkilega ánægður. Þá orðinn 3 ára. Ég var orðinn svo föst á leikskólanum að ég gat ekki hugsað mér að fara frá öllum litlu englunum mínum.
Við vorum á frábærum stað í lífinu. Svo kom að því að annar bumbubúi byrjaði að myndast í maganum á mér. Í þetta skipti var það yndisleg lítil dökkhærð prinsessa.
Stundum er eins og lífið gæti ekki verið betra, svo mínútu seinna er allt tekið frá þér.
Stuttu seinna byrjaði elskan mín að veikjast reglulega, hann varð máttfarinn, fölur og virkilega heitur. Eftir nokkur svona veikindi fór mér að lítast heldur illa á blikuna svo ég keyrði með hann upp á heilsugæslu. Hann er sendur í nokkrar myndatökur og á meðan bíðum við með hjartað í buxunum. Mikið óskaplega var ég hrædd. Hvað myndi ég gera? Hugsaði ég sífellt.
Loksins kom læknirinn með niðurstöðurnar. Elskan mín var með heilaæxli.
Og það var orðið mjög útbreitt. Of útbreitt til þess að nokkuð væri hægt að gera því það var komið í fleiri stöðvar í heilanum og ef þeir færu eitthvað að gera myndu þeir skaða heilann varanlega.
Heimurinn minn hrundi, allt hrundi í kringum mig. Elskan mín var samt algjör hetja. Huggaði mig þegar það hefði átt að vera öfugt.
Viku eftir þessar fréttir var ég á spítalanum hjá honum þegar hann allt í einu sagði við mig:,,Viltu giftast mér?.” Ég gjörsamlega hrundi niður og kjökraði já að sjálfsögðu.
Við giftum okkur í lítilli athöfn í kapellunni. Aðeins með foreldra og prinsinn og prinsessuna hjá okkur.
Þremur dögum eftir athöfnina lést hann.
Nú er komið ár og ég trúi þessu ekki enn. Fólk segir að það sé ekkert til sem heitir sálufélagi. Það upplifði ekki það sem ég fékk að upplifa.
Birti þessa sögu fyrir einhverjum árum á /smasogur, ákvað samt að senda hana inn til þess að vera með:)