Ást? Smá pistill sem ég skrifaði fyrir löngu síðan. Rakst bara á þetta og ákvað að henda þessu inn þar sem innsending á greinum hefur verið afar róleg upp á síðkastið. Vonandi losar þetta eitthvað um ritstífluna.

Ég get ekki skilgreint ást nema út frá mínu eigin sjónarhorni, enda er ekki hægt að skilgreina ást á einfaldan hátt. Ég hef samt mjög mikinn áhuga á orðinu, meiningunni á bakvið orðið og öllu sem snertir það.

En hvað er ást? Er ást bara eitthvað sem byggir mann upp og endar svo á því að brjóta mann niður í ekki neitt, þannig manni langar ekki að vera til lengur? Það er vissulega meira á bak við orðið. Það er til margskonar ást; Maka-ást, vina-ást, systra-ást, bræðra-ást, feðga-ást, mæðra-ást, fjölskyldu-ást o.s.frv. Ást getur einnig verið hug- og hlutlæg. En hérna erum við aðallega að taka um maka-ást.

Ég hef heyrt stutta skilgreiningu á því hvernig ást byrjar og endar…

“Ást byrjar með brosi, stækkar svo í koss og endar með tárum”

Þegar ég heyrði þessa skilgreiningu fyrst, fór ég alveg í kerfi, þar sem mér fannst þessi skilgreining vera mjög rétt að vissu leyti, svona þegar maður hugsar aðeins út í það. Í flestum tilfellum þar sem ást endar, endar hún með tárum. En margir myndu eflaust segja að þessi skilgreining kæmi frá manneskju sem hefði verið særð - og er það líka rétt.

Ég skilgreini ást þegar maður getur ekki verið án ákveðinnar manneskju. Vill vera með henni, kúra með henni, halda utan um hana, kyssa hana, halda í höndina á henni og margt fleira. Það er síðasta manneskjan sem þú hugsar um áður en þú ferð að sofa og fyrsta manneskjan sem þú hugsar um strax og þú vaknar, og alltaf þegar þú hugsar um hana og hittir hana, færðu svona vellíðunartilfinningu.

Maður er hamingjusamur bara út af því að manneskjan, sem maður elskar, er til. Maður er glaður þegar hún er glöð, sorgmæddur þegar hún er sorgmædd, o.s.frv.

Þessi vellíðunartilfinning er hluti af því að vera ástfangin/n. Væntumþykja, ómældur áhugi, kærleikur, vinátta, trúnaður, hlustun, skilningur, hreinskilni, tjáning, og mætti svo lengi telja. Þetta er allt partur af ástinni. Málið er bara að kunna að komast fram hjá deilum og ágreiningi. Ef það er hægt, þá er allt hægt.

Gott ráð til að styrkja og halda í samband, er að reyna að forðast deilur og fara aldrei ósátt/ur að sofa. Best er að setjast niður, ræða deiluna af hreinskilni. Hlusta á hvað hinn aðilinn í sambandinu hefur að segja. Finna svo lausn eftir að allt hefur verið komið á framfæri.

Það skrítna er að maður fer aldrei eftir þessu. Maður sér allt svo miklu skýrar þegar allt er búið, og maður fer að hugsa. Maður áttar sig heldur ekki á því hvað maður hefur misst, fyrr en maður hefur misst það. Maður hugsar til baka, til gömlu góðu tímanna og sekkur sér í ástarsorg og þunglyndi. Ég kannast við þetta. Þetta er vítahringur. Það bætir heldur ekkert úr skák að hlusta á sorgleg ástarlög þegar maður er einn. Maður dregst bara meira niður.

Ég trúi því að ást sé til, en maður þarf að leggja hart að sér til að rækta hana. Báðir aðilar þurfa að sýna áhuga til að bæta úr því þegar misfarist hefur, og aðilarnir eru ekki báðir sáttir. Ást er stórkostleg tilfinning, en ástarsorg er versta sorg sem maður getur upplifað.
Gaui