…
Ég er á þeim stað í lífinu að mér finnst allir karlmenn fávitar. Allt í lagi, ég veit þið eruð það ekkert allir og það er rosa ljótt af mér að alhæfa svona. Ég viðurkenni að það eru góðir gaurar þarna inn á milli. En einhvernveginn virðast allir þeir karlmenn sem ég þekki vera fávitar. Kannksi er þetta bara biturð í mér eftir að kærastinn minn til tveggja ára hætti með mér.. Mig langar bara að segja svolítið frá mest áberandi karlmönnunum í kringum mig þessa dagana.
Til að byrja með er best að byrja á “fyrrverandi”. Erfitt að kalla hann fyrrverandi því það er svo stutt síðan þetta hætti. En.. Hann hætti með mér fyrir mánuði.. af engri ástæðu. Við höfum átt erfitt samband, aðalega vegna veikleika hans gagnvart stelpum.. ekki bara sætum stelpum, heldur bara öllum stelpum sem gefa honum auga. Hann er þessi týpíski fyndni strákur sem allar stelpur hópast í kringum. Hann “höstlar” í öðruhvoru orði og ræður bara einfaldlega ekki við það. Það fór í taugarnar á mér að hann gat ekki farið útúr húsi eða signað sig á msn án þess að einhver stelpa fékk athygli hans. Hann lofaði öllu góðu og ég reyndi að líta framhjá þessu.. Svo komu ýmis stærri atvik upp. Síðastliðið hálft ár hefur samt allt verið að ganga frábærlega hjá okkur. Jólin voru yndisleg, áramótin líka.. við fórum tvö saman til útlanda í januar og allt virtist fullkomið. Svo bara hætti hann með mér. Hann samt sleppti ekki alveg takinu því nuna í mánuð hefur hann verið að hoppa á milli þess að vilja mig og vilja mig ekki. Einn daginn segist hann elska mig og allt verði í lagi hjá okkur en næsta vill hann aldrei sjá mig aftur. Mér finnst það rosalega ljótt af honum. Hann vill ekki að ég fari að leita annað en hann vill ekki vera með mér. Núna fyrir nokkrum dögum hætti þetta alveg. Hann sagði mér að þetta væri alveg búið. Hann vildi ekkert með mig hafa lengur því þetta bara gengi ekki. Tveimur dögum seinna sagði hann mér að hann elskaði mig ekki lengur. Við vorum saman í tvö ár.. og á fjóru vikum hætti hann að elska mig. Minna meira að segja því á þessum fjórum vikum sagði hann mér oft að hann elskaði mig. Ég hef aldrei á ævinni verið jafn miður mín.
Okey.. strákur 2.
Í einhvern tíma hefur strákur sýnt mér áhuga. Mér fannst hann sætur og skemmtilegur en hefði aldrei dottið í hug að gera neitt með honum því ég hélt ég væri í góðu sambandi og ég elskaði kærastann minn. Eftir að kærastinn minn hætti með mér fór ég hins vegar að tala meira við þennan strák (leita huggunar…) Allar vinkonur mínar báðu mig að passa mig vel á honum því hann er ekki með góðan orðstír á sér. Hann er þessi gaur sem sefur hjá tveimur mismunandi stelpum sama daginn. Algjör sjarmur og svo færðu ekki að heyra í honum eftir að þú hleypur honum nærri þér. En mér var alveg sama. Ég ákvað að hitta hann samt. Hann var mega næs við mig. Við hittumst oft án þess að nokkuð gerðist. Gisti meira að segja hjá honum því ég var læst úti um miðja nótt án þess að nokkuð gerðist á milli okkar (við kysstumst alveg en ekkert meira). Ég hélt að við værum orðnir virkilega góðir vinir því hann opnaði sig alveg fyrir mér og sagði mér hluti um sig sem maður myndi ekki segja öllum og svoleiðis. En.. svo kom það fyrir að eitthvað gerðist.. Þegar eg var farin að treysta honum að hann myndi ekki særa mig. Ég heyrði ekki í honum í tvær vikur. Svo rakst ég á hann og hann var æðislega sætur við mig. Kom með afsakanir en.. svo heyrði ég ekkert meira fra honum. Ég var bara “markmið”.
Strákur 3.
Besta vinkona mín var búin að vera í sambandi við strák í meira en ár í mars. Þetta er strákur sem ég þekkti alveg nokkuð vel. Sambandið þeirra er eitthvað sem hefði í raun aldrei átt að gerast. Því þessi strákur er búinn að fara með vinkonu mína eins og skít. Samt grætur hún ennþá yfir honum. Þetta er næs strákur. En hann bara kann ekki að fara með stelpur. Hann átti kærustu í nokkur ár áður en hann byrjaði með vinkonu minni sem hann hélt framhjá endalaust. Aftur og aftur og aftur. En alltaf lofaði hann að þetta væri í síðasta skiptið. Að lokum hætti hann með þessari stelpu en var frekar fljótt byrjaður með vinkonu minni sem ég þekkti ekkert sérstaklega vel þá. Í fyrstu var hann voða sætur við hana. Ég veit ekki mikið hvernig hlutirnir voru á milli þeirra þegar þau voru ein og ég umgegst þau ekkert mikið saman en ég sá samt á vinkonu minni hvað henni leið illa. Hann laug að henni eins og hann gat. Um eiturlyfjaneyslu, hvar hann væri og hvað hann var að gera. Loksins kom að því að hún fékk að heyra frá einhverjum að hann hefði haldið framhjá henni. Hún fyrirgaf honum það. Þau voru saman í hálft ár þar til hún frétti aftur að hann hefði haldið framhja henni. Hún hætti með honum loksins þá, en er algjörlega heartbroken. Núna eru svona tveir mánuðir í mesta lagi síðan hún hætti með honum og hann er strax farinn að hitta aðra stelpu. Hann virðir vinkonu mína ekki viðlits. Þóttist vera voða sorry fyrsta mánuðinn og vildi að hún fyrirgæfi honum allt. Hún var tilbúin til þess en þá allt í einu var hann bara kominn með nýja.
Strákur 4.
Ég á aðra bestu vinkonu sem er búin að vera með strák í svipað langan tíma og hin vinkona mín. Hann var eins og minn fyrrverandi og gat ekki hamið sig i höstlinu. Þau voru í rosalega erfiðu sambandi líka. Rifust alveg endalaust. Hann vissi alveg að hann gerði lífið hennar endalaust erfitt með ýmsum hlutum sem hann gerði. Svo einn daginn hætti hann með henni. Sagði henni að hann elskaði hana og blabla.. viku seinna var hann kominn með nýja kærustu. Stelpu sem vinkona mín þekkti og þoldi ekki. Hann sagði vinkonu minni svo bara hreint út að hann elskaði hana ekki.
Strákur 5.
Ég á vin sem mér þykir endalaust vænt um. Hann er frábær vinur og rosalega skemmtilegur. En hann er líka með þessa galla þegar kemur að því að deita stelpur. Hann verður voða skotinn. Byrjar með stelpum.. er með þeim í smá tíma og svo bara allt í einu út í bláinn hættir hann með þeim.. og svo fá ALLIR að heyra hvað gellurnar eru ömurlegar, lélegar í rúminu og leiðinlegar þegar þær gera þetta og hitt og svona. Ég get rétt ímyndað mér hvað ég væri sár ef fyrrverandi kærastinn minn myndi hegða sér svona.
Þetta eru svona aðal gaurarnir sem láta mig hugsa svona til stráka. Ég veit alveg að við stelpurnar erum ekkert alltaf saklausar en þetta er bara svo áberandi fyrir mér núna hvernig strákar geta hegðað sér eins og fífl. Það er ábyggilega margt sem ég gæti bætt mig í þegar kemur að mannlegum samskiptum en þetta sem ég veit til að strákarnir sem ég þekki eru að gera er eitthvað sem mér gæti ekki dottið í hug að gera neinum (takið eftir að ég sagði ekki allt sem hefur komið uppá og fór ekki útí smáatriði:)
Ef ég er að tala um þig, fyrirgefðu.
(Biðst fyrirfram afsökunar á stafsetningavillum og þa sérstaklega ef það vantar ´ yfir einhverja stafi. Lyklaborðið mitt er eitthvað leiðinlegt.)