Ég vil segja aðeins frá því helsta hvernig mín sambandsslit sem urðu í desember í fyrra, hafa farið með mig.
Ég er ekki að skrifa þetta til að fá vorkunn eða neitt þess háttar heldur af því að ég hef geymt allt þetta inní mér og enginn veit að þetta er svona hjá mér. Ég var mikið á báðum áttum um hvort ég ætti að senda þetta inn af því að mín X á pottþétt eftir að lesa þetta en mér er svosem alveg sama..
Mér var sem sagt dömpað rétt fyrir síðustu jól, kom mér á óvart og allt þannig en ég ætla ekki að tala um það.
Ég hef alltaf verið þessi „feimna“ týpa og ekki verið með súper mikið sjálfstraust og þannig. En eftir að vera dömpað þá fór sjálfstraustið alveg, alveg niður. Ég ætla að taka nokkur dæmi um hvernig búið er að vera hjá mér og hvernig er hjá mér í dag eftir sambandsslitin.
Til dæmis þarf ég stundum að nota strætó, og það lá við að ég bæði til Guðs um að strætóinn væri tómur eða allavega engar manneskjur á mínum aldri í honum. Það var bara eitthvað við að labba inn í vagninn og allir horfa á mann og svona. Svo hugsa ég hvað þetta er mikil vitleysa hjá mér, það skiptir ekki nokkru máli hvort og hverjir séu í strætónum, þetta er bara rugl. En samt gerðist þetta aftur og aftur þegar ég þurfti að nota strætó. Þegar þetta var sem verst þá hafði ég helst alltaf húfu af því að ég var svo hræddur um að hárið hefði orðið svo asnalegt í vindinum og svo framvegis. Og að skrifa þetta sér maður hvað þetta er mikið kjaftæði að hugsa svona, en þetta var svona samt..
Ég get alls ekki horft í augun á fólki lengur en örfáar sekúndur þegar ég tala við það eða það við mig, horfi alltaf eitthvað annað eða já, geri hvað sem er til að horfa ekki í augun á fólki, ómeðvitað, bara get ekkert að því gert. Það er samt sem betur fer að lagast en samt alls ekki orðið gott…
Ég skammast mín rosalega fyrir að vera dömpað , og þeir félagar mínir sem vissu að ég var á föstu vita ekki ennþá að við erum hætt saman, og alltaf ef talið berst eitthvað á þá braut þá er ég fljótur að skipta um umræðuefni, einfaldlega af því að ég skammast mín fyrir þetta. Þannig að það eru sirka 8 mánuðir síðan sambandið slitnaði en þeir halda að allt sé í fína og allt sé bara eins og áður.
Eitt sem mér fannst líka erfitt var hvað X var fljót að komast yfir þetta. Ég og hún erum vinir í dag og svona, en eitt hef ég tekið nærri mér, það var þegar hún hálfgerlega hellti sér yfir mig og sagði mér að hætta þessari vorkunn og fara bara sérfræðings til að komast yfir þetta. Ég varð nú hálf reiður og sár af því að hún skildi greinilega ekki hvað þetta væri erfitt fyrir mig. Ekki það að ég sé liggjandi í þunglyndi, alls ekki nærri því þannig en samt ekkert liðið vel oft á tíðum. Hún vildi nú líklega vel en samt fór þetta eitthvað svo í mig.. Svo er hún núna komin með annan, sem býr ekki einu sinni á landinu! og svo ég best veit, kann ekki íslensku, allavega ekki meira en eitt og eitt orð.
Við vorum að dúlla okkur í meira en 2 ár áður en við byrjuðum saman en hún þekkti hann ekki einu sinni í viku þegar þau byrjuðu saman! Alveg sama þótt hún sé eldri núna en hún var og allt það, fer samt mikið í mig heh..
Ég vil engin skítköst en ef það er einhver sem að hefur gengið í gegnum svipað þá má sú manneskja endilega segja frá hvernig var að komast yfir þetta og hvernig heh…