Gömul hugleiðing eftir mig, en var einhvernveginn viðeigandi í dag…



…og hvað á maður svosem að gera þegar manni líður illa? Lausnin er vandfundin. Ef hugarástandið er af þeim toga að það er alveg sama hvað maður gerir, allt sýnist þeim mun vonlausara, þá einfaldlega vill maður ekki gera neitt til að láta sér líða betur, og líður þar af leiðandi bara verr. Vanlíðan er eitthvað sem enginn getur fundið eitt gott húsráð við og notað það í hvert skipti sem eitthað bjátar á, þetta ástand sem hefur fylgt manninum frá örófi alda er svo samgróið okkur að í raun viljum við ekki vera án þess. Hvað hafa skáldin einmitt gert? Jú, fegurstu ljóðin og sögurnar hafa einmitt orðið til í kjölfar þess að höfundinum líður illa útaf einhverju.

Er vanlíðanin þá svo slæm ef hún framkallar eitthvað fallegt? Í sjálfu sér ekki, en vanlíðanin birtist okkur í svo mörgun myndum. Oftar en ekki er þessi mynd ljót, og þá verður hún til þess að við förum að líta á okkur sjálf sem einhvern aðskotahlut sem við viljum losna við með einhverjum hætti. Sjálfsvíg eru lausn sem margir sjá og heillast af, og eflaust er það lausn í sjálfu sér, en það eru svo margir þættir sem spila þarna inn í. Vanlíðan elur af sér vanlíðan. Ástvinir þess sem hefur stytt sér aldur þjást oft af sjálfsásökun, telja að eitthvað hefði mátt betur fara bara ef þeir hefðu gert þetta eða hitt. En þeir fá aldrei að vita neitt. Persónan er farin, horfin frá þeim, og mun aldrei geta sagt af hverju…

Hví er dauðinn okkur svona hugleikinn? Líklega vegna þess að hann er eitt af því óumflýjanlega, nokkuð sem við öll verðum að horfast í augun við einhverntímann og engin leið er til að sleppa frá. Einnig sú staðreynd að við munum aldrei vita neitt fyrir víst. Hvað gerist þegar við deyjum? Enginn veit svarið, og ólíklegt verður að teljast að nokkur muni komast að því. En forvitni okkar minnkar ekkert þrátt fyrir það, þvert á móti. Við hugsum bara enn meira um þennan óhjákvæmilega hluta lífsins, og klórum okkur svo mikið í höfðinu að við kennum til. En hvers vegna í ósköpunum höfum við svona miklar áhyggjur af þessu? Maðurinn er bara þannig gerður að honum finnst hann verða að vita allt. Fróðleiksfýsnin er svo gífurleg að hún ýtir öllu til hliðar. Við kannski finnum ekki fyrir þessu dag frá degi, en við erum alltaf að leita, við kannski vitum ekki að hverju né af hverju, en leitin heldur samt áfram. Kannski leitum við að lífsförunauti til að hjálpa okkur í gegnum þetta óþægilega millistig sem kallast líf, á leið okkar til dauðans. Vinir, og þó sérstaklega sú persóna sem við kjósum okkur sem lífsförunaut, eru mikilvægari en við kannski gerum okkur grein fyrir. Öll lífshamingja manns veltur í raun á því hvort við veljum rétt. Víst fær maður annað tækifæri, það þriðja og fjórða jafnvel, en er það reynsla sem er okkur holl? Mitt álit er að svo sé ekki. Við lærum mest á því að finna rétta aðilann í fyrstu tilraun, reynslan kemur svo af því að læra af mistökunum með þessum sama aðila, geta leitað huggunar og ráða hjá honum þrátt fyrir allt sem getur hafa gengið á. Að gefast upp og reyna að finna annan aðila er kannski auðveldari lausn, eða hvað? Nei, svo er ekki. Að fara á byrjunarreit skilar ekki sama árangri og að standa í stað í einhvern tíma og halda svo áfram, hægt í fyrstu, en svo af meira öryggi eftir því sem á líður.

Mannskepnan er ákaflega ófullkomin ef grannt er skoðað. Við höfum gert þessa meginskyssu að álíta okkur eitthvað annað og meira en hinar dýrategundirnar hér á jörðinni, og vegna þess erum við orðin frábrugðin. Já, frábrugðin, ekki æðri. Það er í eðli okkar að eyða sjálfum okkur. Þetta er staðreynd sem ekki verður horft framhjá að eilífu. Hið sorglega við þetta er hinsvegar það að við komum ekki til með að eyða eingöngu sjálfum okkur, heldur munum við draga bæði aðrar dýrategundir og náttúruna sjálfa með okkur niður í svaðið. Þessi pláneta sem hefur veitt okkur skjól frá örófi alda getur ekki mikið lengur þolað það sem við bjóðum henni.

Og hvað gerum við þá? Ef við höfum fundið rétta lífsförunautinn, og getum sætt okkur við dauðann, þá höfum við ekki svo miklu að kvíða. Endirinn kemur hins vegar hvort sem við erum reiðubúin eða ekki, og við getum ekki sætt okkur við það sem við getum ekki breytt. Svona er mannskepnan, og við tilheyrum þessari tegund. Líttu í spegil og sjáðu það sem þú ert. Ófullkomin vera sem heldur að hún sé meira en hún er.


thePM