Smá saga hérna sem mig langar að koma frá mér…
- “Ekki gráta…” Hann horfði biðjandi á mig. Ég svaraði honum ekki, en heit tárin fóru að flæða niður kinnar mínar. “En ég elska þig”, ég reyndi að segja eitthvað meira en gat það ekki vegna ekkasogana sem skóku líkama minn. “Nei þú elskar mig ekki, þú heldur það bara.” Hann forðaðist að horfa í augun á mér, sem voru tárvot og örvæntingarfull.
“Horfðu á mig og segðu mér að þú elskir mig ekki.” Einhversstaðar innra með mér leyndist von um endurgoldna ást. Hann leit upp og ræskti sig hljóðlega. “Ég elska þig ekki… ekki lengur…” Mér fannst veröldin hrynja í kringum mig, það var sem grænmálaðir veggirnir rynnu saman við húsgögnin og að lokum sá ég ekkert nema hann. Hann og mig. Ég og hann. Hann vildi mig ekki lengur, hann elskaði mig ekki lengur. Ég faldi andlitið í höndum mér. “En þú… við… ég elska þig svo mikið”, ég reyndi að tala með venjulegri röddu en hljómaði eins og lítið barn.
“Fyrirgefðu, ég… ég get þetta ekki. Við erum of ólík. Æ, plís ekki gráta, gerðu það!” Hann var svo fallegur þegar hann var áhyggjufullur, en það stakk mig í hjartað að sjá hann svona. Mig langaði til að segja honum að allt væri í lagi, við gætum bara verið vinir fyrst hann vildi það. Hugga hann, gera hann glaðan aftur. En ég gat það ekki. Ég gat ekki ímyndað mér tilveruna án hans, án kossana, faðmlaganna, hlátursins. Það yrði aldrei eins.
“Getum við ekki reynt?” Ég grét hljóðlega á meðan hann útskýrði fyrir mér að hann væri búinn að missa áhugann. “Fyrirgefðu, ég er ömurlegur.” Hann var aftur farinn að horfa niður. “Nei þú ert æðislegur!” sagði ég og fylltist eftirsjá, hvað gerði ég sem fékk hann til að missa áhugann? “Ef ég væri það þá væriru ekki grátandi núna…” Ég tók í hönd hans. “Má ég kyssa þig?” Hann leit upp og horfði í augun á mér, það var alltaf eins og hann sæi inn í sálina.
“Já.”
Við kysstumst rólegum kossi og ég vætti kinnar hans með mínum. “Ég elska þig samt…” hvíslaði ég og brosti dauflega gegnum tárin. Þögn. “Ég vildi að ég gæti elskað þig líka, ég bara get það ekki… fyrirgefðu”.