Ég hef lengi velt þessu fyrir mér líka, enda drengur og þ.a.l. ekkert voða mikið fyrir tilgangslaust eitthvað-til-að-væla-útaf kjaftæði.
En þó eru til nokkrar ástæður fyrir þessu. Ég veit um milljón dæmi þess að stelpur verði brjálaðar þegar strákarnir byrja fljótlega með annarri stelpu, en það er sjaldgæfara með strákana, þó það svo sannarlega gerist.
Gefum okkur nú dæmi þar sem Palli hættir með Stínu. Palli byrjar með Pálínu þremur dögum síðar. Stína tryllist auðvitað og Palli fær slæmt orð fyrir að byrja svo fljótlega með Pálínu.
Svo hver er ástæðan fyrir því að Stína tryllist?
Fyrsta ástæðan er auðvitað einföld afbrýðissemi. Stínu finnst ósanngjarnt að Palli hafi sagt henni upp og leitast þess vegna til að finna þetta vera sérstaklega gagnvart henni, þar sem henni finnst það a.m.k. sárt að hann byrji með Pálínu. Þetta eru betri rök en maður myndi fyrst ætla, þar sem það má miða við að herramaður myndi sína þá virðingu að leyfa Stínu að jafna sig áður en byrjað er að hossast á þeirri næstu. Aftur á móti er beðið um of mikið þegar Stína einfaldlega ætlast til þess. Engum er skylt að vera herramaður, þó að það væri svo sannarlega herramannlegt af Palla að bíða í lengri tíma.
Það sem þarf að athuga hérna er að það getur vel verið að Palli sé alveg úberhrifinn af Pálínu. Það gerist stundum, og auðvitað verður fólk að takast á við sorg sína þegar einhver segir því upp. Það sem er sárt þarf ekki að vera ósanngjarnt, og undir þeim kringumstæðum getur Stína að sjálfsögðu ekkert einfaldlega ætlast til þess að Palli haldi vininum niðri þar til sú fyrrverandi er búin að róast.
Palli veit líka að það er ólíklegt að Stína verði eitthvað sátt við hann í bráð hvort sem er.
—
Önnur ástæða er hatur manna á drusluskap. Þetta fer auðvitað allt eftir aðstæðum. Ef Palli er bara í leiknum til að ríða, eða þá með stelpu einfaldlega til að vera með stelpu (því að sumir virðast halda að annað sé smán), er það svosem samkvæmt skilgreiningunni “drusluskapur”. Þetta er hinsvegar ástæða sem oft er breidd yfir ofangreinda fyrstu ástæðu, til að réttlæta fyrrnefnda afbrýðissemi. Palla til varnar er það að hans líf er hans líf, og hann á ekki að þurfa að haga sínu lífi eftir því að önnur manneskja er sár vegna þess eins að hann er ekki hrifinn af henni. Hinsvegar, í þessu tilviki, þegar Palli er greinilega einfaldlega með einhvern “drusluskap”, er hann tvímælalaust varla mikill herramaður fyrir vikið og má alveg fá svosem eitt stykki kolbilaða kærustu á eftir sér. Verri hlutir hafa gerst. Það er verra þegar menn fá slæmt orð á sig fyrir eitthvað sem á ekki að koma öðrum við.
—–
Í þriðja lagi er óvíst að það sé yfirhöfuð viturlegt af Palla að byrja með stelpu aftur svona snemma. Almennt eru einhverjar leifar af óútkljáðum málum í samböndum þegar þau enda. Hvort sem hann vill svo eður ei, er Palli mjög líklegur til að draga þessar leifar með sér inn í næsta samband. Þess vegna er það almennt góð hugmynd að bíða í smástund áður en vaðið er í næsta samband, þó það væri ekki nema til að leyfa eigin hlutum að kólna og losna við einhverjar tilfinningar úr gamla sambandinu, góðar eða slæmar. Þetta á auðvitað ekki við ef Palli hefur hætt með Stínu í þeim tilgangi einum að geta byrjað með Pálínu. Enda er það algerlega á ábyrgð Stínu að laga sín mál þar. Það getur varla talist drusluskapur hjá Palla ef hann einfaldlega elskar Pálinu en ekki Stínu. Eins og ég segi, herramannslegt af honum að virða tilfinningar Stínu, en langt frá því að vera skylda hans. Stína ætti líka að hafa hugfast að Palli hefði léttilega getað haldið framhjá Pálínu og verið með tvær í takinu, en hann kaus hitt, sem verður að teljast skárra. Í þessu tilviki myndast hinsvegar allt of oft sá skilningur hjá þessari Stínu okkar, að Palli hljóti að hafa haldið framhjá Stínu með Pálínu áður en henni var sagt upp. Sjaldgæft er að það þurfi einhver bein sönnunargögn til að slíkar hugmyndir fari að myndast. Stínu finnst hún svikin, og tilfinningin er svipuð ef ekki nákvæmlega sú sama og ef Palli hefði haldið framhjá henni.
—–
Hvað varðar réttmæti þessara ástæðna, þá fer það auðvitað algerlega eftir aðstæðum, og aðstæður eru álíka mismunandi og þær eru margar.
Þetta gamla trend að guttinn sé vondi kallinn fyrir að byrja snemma með annarri stelpu, tel ég alveg prívat og persónulega vera barnalega afsökun Stínu til að fá útrás fyrir afbrýðissemi sína. Enda virðist hún þá hafa þær ranghugmyndir að hún þurfi afsökun til þess.
Vissulega er oft ósanngjarnt af Palla að byrja þremur dögum síðar með Pálínu, en vissulega er það jafn oft engan veginn ósanngjarnt, og í raun fáránlegt að gera það ekki, s.s. ef Palli er einfaldlega ástfanginn ef Pálínu. Stína verður að skilja, að þegar samband endar… er það búið. Þó það sé sárt þýðir það ekki að það sé ósanngjarnt.
UM ÞESSA GREIN:
Það skal tekið skýrt fram að þetta eru eingöngu prívat og persónulegar pælingar, ég meina engar alhæfingar og vil engan veginn dæma einn eða neinn fyrir viðbrögð sín gagnvart þessum málum. Við erum öll mjög mismunandi, hugarfars- og tilfinningalega, og ég get ekki ítrekað nógu oft hversu miklu aðstæður skipta. Oft á Íslenskum korkum fær maður eldregn í bossann þegar einhver er ósammála, og þetta er viðkvæmt umræðuefni, svo vinsamlegast komið bara með ykkar eigin pælingar, rök og hugmyndir frekar en einhvern móral.
Friður.