Jæja nú ætla ég að hljóma eins og gömul lífsreynd frænka eða eitthvað.
Þú ert bara 19 ára, það er allt lífið framundan og þó að þú sért ekki búinn að finna þessa einu réttu þá þarftu ekki að fara að örvænta strax. Ég er búin að ganga í gegnum nokkur stutt sambönd og þrjú sambönd sem má líta á sem “alvarleg” en það stysta af þeim stóð í hálft ár og það lengsta í 3 1/2 ár. Nú er ég orðin 30 ára, í mínu fjórða sambandi og THIS IS IT sko. Við kynntumst á ircinu (það er alls ekki eins slæmt og þú greinilega heldur), erum búin að vera saman í tvö og hálft ár, eigum eitt barn saman og þetta er maðurinn sem ég vil eyða ævinni með.
Ekki vera í stanslausri leit, ástin dettur oftast upp í fangið á manni þegar maður á síst von á henni. Blessaður njóttu þess að vera ungur og lasu og liðugur á meðan þú getur og ef þú skyldir ramba á stóru ástina í lífinu í millitíðinni þá er það bara frábært. Hún er þarna einhversstaðar.
Svo er ég alveg sammála því að fólk getur elskað fleiri en eina manneskju um æfina. Þú talar líka um að sumt fólk sé gift bara af vana og aldrei hamingjusamt. Þegar fólk er búið að vera gift í mörg ár er sjaldan þessi sama spenna og ástarbrími sem var í upphafi sambandsins. Það þarf samt alls ekki að vera slæmt. Í staðin er komin ró og festa, djúp vinátta og maður á sér sálufélaga (ef hjónabandið er gott, auðvitað eru til glötuð hjónabönd). Hamingja er svo mismunandi fyrir mismunandi fólk.
Einhversstaðar segir nú máltækið: Það er betra að upplifa ástina og tapa henni en að hafa aldrei upplifað ást.
Sorg, gleði, reiði, söknuður, hamingja og allar þessar tilfinningar eru það sem gerir okkur að manneskjum. Ef við værum aldrei döpur kynnum við ekki að meta gleðina og ef við værum aldrei sorgmædd og hrygg kynnum við ekki að meta hamingjuna.
Jæja ég er farin að vera ansi heimspekileg og væmin þarna :)
Gangi þér bara allt í haginn.