Þetta er umræða sem mér hefur alltaf langað að starta hér á Huga.is. Það er þessi flókna en um leið einfalda spurning, “hvað er rómantík?”.

Ég er ekki hlynntur þessari hugmynd sem fólk hefur af rómantík. Mörgum finnst rómantík vera, kampavín og jarðaber í baði, með fullt af kertum í kring og hugsanlega rósarblöð stráð á gólfinu. Öðrum finnst sólsetur í karabískahafinu vera rómantík. Þið getið ábyggilega hugsað ykkur fleiri tilvik sem búið er að mata ofan í ykkur með kvikmyndum. Fólki í dag, þá á ég alls ekki við alla, finnast þessar gerviímyndir vera það eina sem getur nokkurn tíman verið rómantískt. Þetta held ég að sé ástæðan fyrir því að sambönd og hjónabönd endast svona stutt í dag. Það eru flestir að reyna að lifa eftir þessari kvikmyndarómantík og reyna árangurslaust að skapa þetta andrúmsloft sem er í bíómyndunum. Vandamálið er bara að það þarf ekki svona mikið vesen og það þarf ekki svona sérhæfða hluti til að skapa rétta andrúmsloftið. Það sem ég er að reyna að segja er það að allt í bíómyndum er feik og allt sem fólk segir í bíómyndum er fyrirfram ákveðið, þess vegna verður þetta alltaf svo klaufalegt og stirt þegar fólk reynir þetta í daglegu lífi. Það á alls ekki að reyna að búa til rómantík, hún kemur að sjálfu sér, en þá má gera ýmislegt til að reyna að koma henni af stað.

Svo ég skilgreini nú það sem ég á við með raunverulegri rómantík.
Raunveruleg rómantík er það þegar tveir aðilar eru að gera eitthvað sem þeim finnst skemmtilegt saman, þeim líður vel og umfram allt þurfa þessir aðilar að vera hrifnir hvorir af öðrum. Þegar horft er á þetta svona er hægt að gera venjulegt kvöld með popp og videóspólu að mjög rómantískri upplifun, jafnvel erótískri, bara ef hugarfarið er rétt og fólk er ekki að reyna allt of mikið, því að þá undantekningalaust mistekst það. Hefur jafnvel stundum slæmar afleiðingar.

Ég vil sérstaklega benda á það áður en ég hætti þá er ég alls ekki að segja að þetta sé það eina rétta í sambandi við rómantík. Þetta er bara það sem mér finnst og ég vil endilega vekja fólk til umhugsunar. Þannig að ekki vera hrædd við það að senda inn ykkar skoðanir, þetta er svo opið umræðuefni að það hafa allir skoðun á þessu.

oracius

p.s. ég ætla að vona að við Hugarar getum talað um þetta og komið með skoðanir á málinu án þess að vera með skítkast, sem ég persónulega er búinn að fá alveg upp í háls af.