Þegar ástin loksins lætur á sér kræla erum við flest öll óundirbúin og algjörlega varnarlaus. Ég trúi á ást við fyrstu sýn, einfaldlega vegna þess að ég hef sjálf orðið ¨fórnarlamb¨ þessa. Ég segi fórnarlamb vegna þess að ástin getur sært mann svo mikið að líkamlegur sársauki verður óskaplega smávægilegur samhliða því. Ég skrifa þessa grein vegna þess að þann 4.desember síðastliðinn varð ég fyrir missi sem aldrei verður bættur.
Þann 14.september 2003 byrjaði ég með mínum fyrsta kærasta. Ég hafði aldrei áður verið í alvarlegu sambandi og þess vegna verð ég að segja að Elvar var mín fyrsta stóra ást. Hann var fyrsti strákurinn sem kom vel fram við mig og elskaði mig skilyrðislaust. Á þessum tíma var ég að ganga í gegnum erfitt tímabil í mínu lífi en hann birtist eins og engill af himnum ofan og studdi mig í gegnum allan þennan svarta tíma, og alveg þangað til ég sá aftur tilgang í þessu jarðneska lífi. Samband okkar einkenndist af gagnkvæmri virðingu og trausti og hann var meira en bara kærastinn minn, hann var líka vinur og félagi í raun. Við gátum eytt heilu og hálfu dögunum saman í tölvunni og við fórum oft á allskyns viðburði og skemmtanir. Hann kenndi mér að standa á hjólabretti og auðgaði tónlistarsmekk minn svo um munaði. Ég man að oft sátum við og töluðum saman heilu næturnar um heimspekileg málefni af ýmsum toga og margt af því sem hann sagði við mig þessar nætur okkar er eitthvað sem ég sumpart lifi eftir í dag. Þetta var besti tími lífs míns.
En auðvitað fór að bera á ýmsum vandamálum í sambandi okkar eins og gengur og gerist. Ég flutti hingað suður í apríl 2004 og stuttu seinna flutti hann til mín. Borgarlífið hafði ekki góð áhrif á samband okkar og svo var komið um miðjan nóvembermánuð að við ákváðum að taka okkur pásu. Við skildum í reiði, en stuttu seinna hringdi hann í mig og við sættumst.Ég man að hann sagði að lífið væri of stutt til að vera reiður við þá sem maður elskaði og svo sagði hann strax að þegar ég kæmi norður um jólin myndi hann taka mig með sér á snjósleða.
Ég sé svo innilega eftir því hvernig ég bar mig að í okkar sambandsslitum. Það er svo sannarlega margt sem ég vildi breyta ef ég gæti spólað til baka og það fyrsta yrði alveg örugglega að sleppa þessari örlagaríku pásu.
Laugardagsmorguninn 4.desember vaknaði ég skyndilega án nokkurs utanaðkomandi áreitis. Ég dröslaðist af stað í vinnuna, en einhvernvegin var eins og allt gengi á afturfótunum þennan dag. Um kaffileytið fékk ég svo símtalið. Hann var dáinn, eldur hafði kviknað á heimili hans á Sauðárkróki, og þessi yndislega mannvera, þessi engill á okkar vesælu jörð, var horfinn.
Næstu vikur og mánuði lá ég í þunglyndi sem er enn ekki horfið. Ég veit þó að hann hefði viljað að ég héldi áfram, en hvernig er það hægt? Allt virðist svo vonlaust og grátt.
Ég sakna þín engillinn minn og mun alltaf gera. Þú ert kominn á betri stað og það er huggun í harmi, nú líður þér vel.
Þín að eilífu,
L.E.